Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 16:34:13 (4221)

1998-02-25 16:34:13# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[16:34]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gat þess að ég væri mjög undrandi á því að Tryggingastofnun ríkisins hefði ekki fyrir löngu stigið það skref að ætlast til ákveðinnar lágmarksþjónustu, t.d. á stofnunum aldraðra og fatlaðra vegna þeirra daggjalda sem hún greiðir til viðkomandi stofnana. Hv. síðasti ræðumaður, Össur Skarphéðinsson, talaði hér um alvarlega mismunun.

Það er vandséð hvernig á að halda á og meta það hvernig verið er að mismuna fólki. Ef tekið er dæmi eins og hér kom fram áðan um það hvað kostar á mánuði að búa á sólarhringsstofnun fyrir aldraða, þá er það um 100 þús. kr. og viðkomandi aðili hefur kannski aldrei greitt í lífeyrissjóð en fær 10 þús. kr. í vasapeninga. Þá er sagt úr þessum ræðustól að verið sé að mismuna þessum aðila gagnvart einhverjum öðrum sem hefur lagt talsvert í lífeyrissjóð og leggur nokkuð til með sér. Þetta fer eftir því frá hvaða sjónarhorni menn líta á mismununina. En þegar skattgreiðendur þurfa að greiða allt upp í 90% af því gjaldi sem það kostar á mánuði að búa á svona sólarhringsstofnun, hvernig ætla menn þá að heimfæra mismunun á því, mismunun gagnvart hverju?