Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 16:38:20 (4223)

1998-02-25 16:38:20# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[16:38]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Mikið hefur verið lagt upp úr því að full ástæða sé til að endurskoða og taka til í kerfinu og ég er sammála því. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að með þessari RAI-mælingu, eins og þið þekkið, er verið að stíga það skref að vega og meta af hálfu ráðuneytisins hversu mikið fjárframlag þurfi til viðkomandi hjúkrunarheimila vegna hjúkrunarþyngdar. Það er eðlilegt og sjálfsagt að hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og annað starfsfólk sé nógu margt til að sinna þeirri þjónustu sem þarf að veita sjúkum.

Það sem snýr að venjulegri vistun er svo auðvitað annað mál. Engu að síður er það rétt eins og hérna hefur komið fram að það þarf að fylgjast vel með því að þar sé þannig haldið á málum að fólkið fái þá þjónustu sem þar á að veita.

Mér er minnisstætt þegar ég var á ráðstefnu fyrir ekki löngu síðan þar sem rædd voru málefni aldraðra að ég fékk sérstaka ofanígjöf eða þeir sem að Hrafnistumálunum koma, fyrir þann flottræfilshátt og lúxus að byggja sundlaug fyrir aldraða, að byggja sundlaug fyrir þá sem dveldu á heimilum aldraðra. Það ætti að nota peningana til annars. Þetta voru aðilar sem eru í þjónustu við aldraða þannig að kannski þyrfti að skoða þá líka.