Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 16:43:34 (4226)

1998-02-25 16:43:34# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[16:43]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég hef stundum deilt við hv. þm. Guðmund Hallvarðsson. Ég held ekki að við eigum að deila um það mál sem hér er á ferðinni og þessi umræða hefur verið afar gagnleg.

Ég vildi aðeins koma til að skýra nokkra hluti. Hv. þm. hafði orð á því að menn hefðu áhyggjur af því sem hann kallaði hjúkrunarþyngd. Við höfum það öll. Við viljum að þjóðin sé heilbrigð og hraust og þess vegna viljum við búa vel að henni svo að hún þurfi ekki að njóta mikillar hjúkrunar og dýrs sjúkrahúskostnaðar. Það á við um gamla fólkið líka.

Þetta mál er ekkert flókið. Í 34. gr. almannatryggingalaga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hverjum þeim, sem sjúkratryggður er skv. 32. gr., skal tryggð ókeypis vist að ráði læknis í sjúkrahúsum, þar með talið á fæðingarstofnunum ... Sjúkrahúsvist skal tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.``

Í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

[16:45]

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``

Efnahagur fólks á ekki að hafa nein áhrif á þá þjónustu sem sjúkratryggingakerfið veitir. Þetta er alveg dagljóst og þess vegna er það brot á stjórnarskránni að láta nokkurn mann greiða fyrir sjúkrahúsvist. Það getur ekki skýrara verið. Þá held ég að við séum búin að leysa það og við skulum biðja fólk að leiðrétta þá ósvinnu sem þar hefur átt sér stað.

Ég skil vel að hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni sé sárt um það sem við höfum sagt hér um dvalarheimili og hjúkrunarheimili. Hann hefur svo sannarlega unnið gott starf í þágu dvalarheimila aldraðra sjómanna. Það eru yndislegar og góðar stofnanir og þar er mikið af góðu starfsfólki, svo það sé alveg ljóst að ég er ekki að ásaka það. Það er hugmyndafræðin á bak við þennan rekstur sem stenst ekki. Ég ítreka að það er munur á að búa í íbúð fyrir aldraða á dvalarheimili aldraðra og því að njóta hjúkrunar, en þessu er á sérkennilegan hátt ruglað saman. Það er alveg sama hvað hv. þm. segir, sú þjónusta er ekki veitt sem eðlileg er talin hverri manneskju sem býr á eigin heimili. Ég hef gert mér það ómak að hringja til hjálpartækjastofnana sem segja hiklaust að því fólki renni stundum til rifja hvað keypt sé bæði lélegt og ódýrt fyrir fólkið einmitt sem er á dvalarheimilunum á meðan fólk gerir meiri kröfur sem er á eigin heimili.

Þeirri stóru spurningu er alveg ósvarað hvernig fólki sem hefur 11 þús. kr. á mánuði er ætlað að kaupa sér gleraugu. Hver ætlar að borga þau? Oftast vona ég nú að góðar fjölskyldur hlaupi undir bagga en svo mikið er víst að manneskjan getur ekki gert þetta sjálf. Þegar talað er um tannviðgerðir fyrir aldraða fara allir að tala um gervitennur. Sem betur fer er svo komið í tannhirðu þjóðarinnar að algengt er að fólk á dvalarheimilum sé með sínar eigin tennur. Einhvern tímann hafa verið settar í það gullbrýr og fínerí sem allt venjulegt fólk vill til vinna að greiða peninga fyrir. Hver segir að þetta fólk eigi allt í einu að fara að nota gervitennur? En þá erum við aftur komin að þeirri afstöðu til gamals fólks --- að það er ekki með. Það er einhvern veginn sett neðar í samfélagsstigann en við hin. Hvaða fólk erum við að fjalla um? Við erum að fjalla um fólkið sem byggði upp velsældina okkar. Erum við svo að hafa áhyggjur af því að sinna því þegar það er orðið gamalt og lasið? Ekki ég.

Sem betur fer erum við líka mörg sem höfum algerlega losnað við að njóta þjónustu heilbrigðiskerfisins og það er dásamlegt. Þá getum við borgað, við sem getum unnið og ef eitthvað er erum við rétt til þess og mikið meira en það. Þó að við vitum að slík dæmi komi upp að heilar fjölskyldur slasist skelfilega í bifreiðaslysum, þá er sjaldnast talað um hjúkrunarkostnað við slíka fjölskyldu, ég hef aldrei heyrt það hér í þingsölum. Ég veit dæmi þar sem hann hefur farið yfir 100 millj. en það er dásamlegt að sjá að þetta skuli vera hægt og þetta fólk gangi nú um meðal okkar og njóti lífsins með börnum sínum. Það hefði auðvitað dáið ef heilbrigðiskerfið hefði ekki verið til. Er einhver sem vill rétta upp höndina og segja: Þetta borgaði sig ekki, var allt of dýrt. Nei, það held ég ekki. En það getur vel verið að einhver segði það ef þarna hefði verið um að ræða fólk yfir 67 ára aldri. En mér finnst það heldur ekki of dýrt.

Ég held því að við verðum að gjörbreyta þeirri afstöðu að fólk sem komið er á ellilífeyrisaldur sé eitthvað öðruvísi en annað fólk í þjóðfélaginu. Út yfir tekur auðvitað, og það veit hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, þegar gefin er út lítt hugsuð reglugerð um að undir eins og sjúkrastofa er notuð undir manneskju sem er komin á ellífeyrisaldur heiti hún öldrunardeild og þar með eigi viðkomandi sjúklingur að borga fyrir sig sjálfur. Auðvitað er þetta engin öldrunardeild og það eru engar sérstakar öldrunardeildir í sjúkrahúsunum. Þær eru ekkert merkilegri en skurðdeildirnar eða geðdeildirnar eða hvaða deild sem er. Þjónusta sjúkrahússins er samnýtt eftir því sem hægt er og sérfræðingar, hjúkrunarfræðingar og aðrir slíkir deila sér eftir sinni kunnáttu niður á hinar ýmsu deildir og viss þjónusta er auðvitað samnýtt sem hentugt þykir að hafa undir einu þaki, en það er alveg fráleitt að eitthvað heiti öldrunardeild. Gamalt fólk verður veikt á jafnmismunandi hátt og við öll þannig að þetta gengur auðvitað ekki og ég held að allt sanngjarnt fólk sjái þetta.

Ég er ekki að segja að dvalarheimilin vilji ekki veita þjónustu en hvað er sagt við slík heimili? Þið verðið að spara hvar sem þið getið. Vissulega er þetta fólk undir pressu og ef gamla konu vantar gervifót er kannski ekki talið að hann þurfi að vera af fínustu sort eins og ef ég þyrfti hans með. Einfaldasta dæmið væri kannski að kaupa engan og láta manneskjuna ferðast um í hjólastól. En þetta byðum við ekki fólki sem byggi á eigin heimili og það er þetta sem við erum að tala um. Við vitum öll af þessu og það væri barnaskapur að láta eins og þetta sé ekki til, enda nægir að tala við stoðtækjafyrirtækin. Þetta er nokkuð sem gamla fólkið á ekki skilið og ég legg til að við hættum í eitt skipti fyrir öll að ræða um elstu kynslóðina eins og eitthvert vandamál. Hún er ekkert vandamál. Það erum við sem erum vandamálið. (ÖS: Sérstaklega Guðmundur Hallvarðsson.)