Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 16:54:12 (4228)

1998-02-25 16:54:12# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[16:54]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þegar verið var að ræða áðan um það af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að við töluðum um aldraða sem vandamál, þá held ég að enginn hafi talað þannig. Hins vegar greip hv. 9. þm. Reykv. fram í og sagði að vandamálið væri sérstaklega Guðmundur Hallvarðsson. Ég vildi sérstaklega af þeim orðum skora á hann sem formann heilbr.- og trn. að koma og skoða Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði, svo hann viti nákvæmlega hvað hann er að tala um, hvers konar vandamál og sjái þau með eigin augum. Það er náttúrlega mjög miður þegar formaður heilbr.- og trn. getur þess í frammíkalli að einn tiltekinn þingmaður sé ákveðið vandamál varðandi aldraða. Ég tek þessu ekki sem gríni og skora hér með á hann að beita sér fyrir því að heilbr.- og trn. komi og skoði Hrafnistuheimilin.

Ég held að enginn neyði þá öldruðu til að fara inn á stofnanir eins og þær eru kallaðar. Hins vegar kann ég ekki við það orð. Dvalarheimili eru ekki stofnanir í þeim skilningi. Þegar fólk er að tala í sama orðinu um sjúkrahús og hjúkrunarheimili er það tvennt ólíkt. Það er skilgreint í lögum um heilbrigðismál sem sitt hvort viðfangsefnið og því skil ég ekki hvernig menn geta talað í sama orðinu um sjúkrahús og um hjúkrunarheimili fyrir aldraða.

Það var komið að því áðan, og er það dálítið merkilegt þegar verið er að tala um þetta viðfangsefni að þá er stundum of mikið gert og stundum of lítið gert. Ég heyrði það á hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur áðan að hún fór að tala um að sumum öldruðum væri boðið upp á litlar íbúðir þar sem aðstaða væri til að elda en fólk hætti fljótlega að nota þá aðstöðu og félli inn í mynstrið sem því væri nánast skylt að ganga inn í. Ég kannast ekki við að öldruðum sé gert skylt að ganga inn í eitthvert ákveðið mynstur og kerfi þessara heimila. Ég kannast heldur ekki við að fólk verði að gleypa í sig matinn á kortéri. Það kom fram í máli hv. þm. áðan. En til að upplýsa hv. þm. varðandi þau heimili sem hv. þm. nefndi, Hrafnistuheimilin, þá hefur fólk þar tvær klukkustundir í hádegismat. Það getur komið á tímabilinu frá hálftólf til hálftvö. Fólkið getur setið hvar sem er til að borða, en það merkilega er, að ef einhver er sestur í stól þess vill það helst ekki borða. Það er því fólkið sjálft sem vill hafa aga, festu og reglu á sínum matmálstímum, hvar það borðar, við hvaða borð og með hvaða félögum. Það er ekki heimilið sem er að velja þetta fyrir þá öldruðu. Það eru þeir sjálfir sem óska eftir því. Þetta er því alrangt og tekur mig mjög sárt að heyra að hv. þm. skuli taka sér þessi orð í munn á þennan hátt og segja við fólk sem er á heimilum fyrir aldraða: Þið eruð eiginlega óalandi og óferjandi og ættuð að hypja ykkur út, það er svo vont að vera á þessum heimilum. Og hverjir eru það svo sem hafa leitt þetta fólk inn á heimili fyrir aldraða? Í flestum tilfellum það sjálft, en þar eru þó undantekningar á, það eru þá ekki heimilin sjálf heldur ættingjarnir sem hafa lagt ofurkapp á að fólkið kæmist inn. Sem betur fer er það í flestum tilfellum vegna þess að ættingjarnir eru óöruggir og hræddir um þá öldruðu í heimahúsi vegna þess að fólkið er farið að gera þá hluti sem það kannski mundi ekki gera ef það væri yngra. Hefur þá margt komið til, heilsubrestur og annað, og jafnvel minni færni til að sjá um sig og þrífa sig og sína íbúð og hugsa almennt um sig. Þótt heimaþjónusta sé góð og menn vilji leggja ofurkapp á að fólk sé sem allra lengst heima hjá sér, þá er það af hinu góða, en samt sem áður er áberandi þegar sól lækkar á lofti og hausta tekur hvað þá er mikil ásókn í það af öldruðum að komast inn á heimili fyrir skammdegið, fyrir veturinn. Og það er ekkert óeðlilegt.

[17:00]

Ég deili áhyggjum mínum auðvitað með ykkur í þessu máli. Margs er að gæta og vissulega þurfa aðilar sem eru í þessari þjónustu oft að sýna mikla nærgætni í starfi sínu. Ég held að þingmenn þurfi að gera það líka þegar þessi mál eru rædd vegna þess að það er nú svo, eins og hér hefur komið fram, mjög mismunandi hvernig heimili veita þjónustu fyrir aldraða og líka hvernig aldraðir nálgast þjónustuna, hvað þeir vilja. Lengi hefur verið deilt um það hvernig eigi að fara með aldraða þegar þeir koma inn á þessi heimili. Á að rífa viðkomandi aðila upp snemma morguns til að fara í leikfimi, taka þátt í föndri og öllu því sem er að gerast? Ég einbeiti mér að þessum málaflokk sérstaklega því ég þekki hann nokkuð vel. Á að rífa viðkomandi aðila upp og láta hann taka þátt í amstri heimilisins frá morgni til kvölds eða á að leyfa honum að sitja í stól úti í horni með blað sitt og fá að vera í friði? Menn hafa bara ekki komið sér saman um það og enn þá er það svo, sem betur fer, að fólkið fær að ráða því sjálft. Það fær að ráða því sjálft hvað það vill taka þátt í mikilli þjónustu og í hvaða þjónustu, hvort það vill vera í föndri, smíðum, stunda leikfimi, dans eða fara í sund. Allt þetta stendur fólkinu til boða ef það vill. Ég vona eins og ég sagði áðan að þeir sem fjalla um þessi mál hvar sem er geri það af þeirri nærgætni sem aldrað fólk á skilið. Ég tek undir það líka að þeir hafa lagt okkur í hendurnar gott land að búa á og þeir eiga það besta skilið og það er tæplega nógu gott fyrir þá öldruðu.