Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 17:01:16 (4229)

1998-02-25 17:01:16# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[17:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Í þessari málefnalegu umræðu hefur hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni hitnað í hamsi og það hefur komið fram í máli hans að blóð hans er þykkara en vatn og honum rennur það til skyldunnar. Ég tel að hann hafi í máli sínu fært mörg gild rök fyrir því að líkast til er nokkuð ofmælt sem mátti ráða af þessu framíkalli að flokka mætti hann undir eitt af þeim vandamálum sem aldraðir og fatlaðir ættu við að glíma í heilbrigðisþjónustunni en hann vildi eigi að síður skora á formann heilbr.- og trn., sem stendur hér, að beita sér fyrir því að nefndin færi og skoðaði til að mynda Hrafnistu til að sannfærast um þá ágætu þjónustu sem ég dreg ekki í efa að er veitt þar og formaður heilbr. og trn. mun beita sér fyrir því að nefndin fari í þessa vettvangsskoðun.

Herra forseti. Að öðru leyti segi ég að þessi umræða hefur verið málefnaleg og flutt af góðum vilja allra sem í henni hafa tekið þátt. Það sem skiptir máli er að öldruðum verði búin sem best aðstaða. Vítin eru mörg að varast. Við höfum t.d. séð hvernig ýmsir hafa farið offari í nágrannalöndunum þar sem umönnun aldraðra hefur verið einkavædd. Með hvaða afleiðingum? Með þeim afleiðingum að menn bíða skaða á heilsu sinni. Við sáum í sjónvarpinu fyrr á árinu aldraða með opin legusár vegna illrar umönnunar. Það er með öðrum orðum margs að gæta, mörg víti að varast. Það sem ég hef áður sagt í umræðunni finnst mér vera megininntakið að það á að vera jafnræði með öllum þegnunum. Líka þeim sem þurfa að gista þessar stofnanir. Ekki er hægt að búa við það að jafnvel innan vébanda sömu stofnunar séu mismunandi kerfi sem hafa það í för með sér að munurinn á því sem aldraðir hafa úr að spila er e.t.v. meira en tvöfaldur. Það er mismunun og það er alvarlegur mismunur. Að öðru leyti fagna ég því sem hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, að verið er að ráðast í úttekt á stofnunum af þessu tagi, m.a. vegna þess að það er alveg ljóst að það eru engar sérstakar reglur í gildi um þá þjónustu sem þar á að veita. Það má velta því fyrir sér hvort menn séu að greiða hátt verð fyrir afar mismunandi þjónustu. Ég tel að það sé ekki hægt, herra forseti.