Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 17:05:11 (4231)

1998-02-25 17:05:11# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[17:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig sannarlega að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson er öllu sáttari við lífið og tilveruna en hann var fyrir nokkrum mínútum en í þessari umræðu er kannski eitt atriði sem menn hafa ekki nema tæpt á, þó kom það fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Það er auðvitað spurningin: Eiga menn að greiða fyrir þá þjónustu sem þeir njóta, t.d. á hjúkrunarheimilum?

Ég spyr, herra forseti, vegna þess að það er ekki að mínu viti nema stigsmunur á dvöl á slíkri stofnun og t.d. á sjúkrahúsi þar sem við greiðum ekki neitt fyrir, þar sem menn leggjast inn og hafa kannski háar fjárhæðir til að spila úr vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Ef einstaklingur leggst inn á hjúkrunarheimili þarf hann að greiða fyrir það, það er alveg klárt. Um það deilum við ekki. En ef hann leggst inn á sjúkrahús þarf hann ekki að greiða fyrir það og það má líka velta þessu fyrir sér frá sjónarhóli jafnræðisins. Er hægt að réttlæta þetta? Ég er ekki alveg viss um það. Þetta er siðferðilegt álitaefni en þetta er tekið sem dæmi um það ásamt mörgu öðru sem hefur komið fram í umræðunni að við höfum ekki lagt nægilega niður fyrir okkur á hvaða grunni eigi að reka þjónustuna. Kannski vegna þess að nauðsyn hennar hefur aukist svo hratt, eigum við að segja á síðustu tveimur áratugum, samfara því að þjóðin hefur elst? Við erum með öðrum orðum ekki búin að kanna eða brjóta þetta mál algjörlega til mergjar.

Það er alveg ljóst sem komið hefur fram í umræðunni að flest hnígur að því að gera þarf úttekt á þessu máli og sá þingmaður sem hefur e.t.v. mesta praktíska reynslu af þessu, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, hefur kveðið hvað sterkast að orði um nauðsyn þess og það er auðvitað áfellisdómur yfir kerfi síðasta áratugar. Engum blöðum er um það að fletta. Hv. þm. segir að það sé verið að ráðast í úttekt. Guð láti gott á vita og við skulum vænta þess að í framtíðinni leiði það til þess að þjónustan verði byggð á sjónarmiðum jafnræðis.