Tímareikningur á Íslandi

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 17:27:51 (4235)

1998-02-25 17:27:51# 122. lþ. 75.14 fundur 309. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[17:27]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Frv. sem við fjöllum um snýst um að tímareikningur okkar hér á Íslandi verði líkt og hjá öllum helstu viðskiptaþjóðum okkar. Í þeim löndum sem við eigum viðskipti við og þessi tímareikningur er notaður hefur það ekki þótt tiltökumál að skipta yfir í sumartíma eins og hér er lagt til. Við eigum mikilla viðskiptahagsmuna að gæta í löndum Evrópusambandsins. Ég held að segja megi að útflutningur okkar þangað sé um tveir þriðju af því sem við flytjum út. Ferðamenn þaðan frá eru jafnframt um þrír fjórðu af þeim ferðamönnum sem koma til landsins. Það ætti því að vera augljóst að það væri til hagsbóta að samræma tímareikninginn.

Örfáir ókostir hafa verið taldir upp við það að taka upp sumartíma. Ég tel þá vera frekar léttvæga. Sagt er að það sé kostnaðarsamt að gera þessar breytingar tvisvar á ári. Milljónaþjóðir hafa ekki sett það fyrir sig og ég get nefnt það að ég var í New York á haustdögum 1995 þegar þeir skiptu yfir í vetrartíma þar. Í þeirri milljónaborg hafði það engin sjáanleg áhrif á mannlífið, menn þurftu að breyta klukkum sínum einn sólarhringinn. Ef milljónaþjóðir geta tekið sig til og breytt klukkunni, þá held ég að við ættum að geta það líka.

[17:30]

Maður hefur jafnvel heyrt að þetta hafi ruglandi áhrif á svefntíma ungbarna. Ég satt að segja trúi því nú ekki, sjálf sem uppalandi að þetta hafi nokkur veruleg áhrif á sálarþroska ungbarna þannig að ég tek það ekki sem gild rök.

Það hefur verið nefnt að það sé kostur að samskiptatími okkar við Ameríku eykst um klukkutíma á sumrin. En ég vil leyfa mér að vitna í umsögn sem barst frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna sem á auðvitað mikil samskipti við Bandaríkin. Þeir segja svo í sinni umsögn, með leyfi forseta:

,,Rétt er að benda á að við Íslendingar eigum viðskipti við fleiri þjóðir en þær sem tilheyra Vestur-Evrópu. Til dæmis hefur samskiptatími okkar við Bandaríki Norður-Ameríku lengst um eina klukkustund á dag að sumri til þar eð við höfum ekki breytt tímareikningi okkar undanfarin ár.

Hins vegar benda flest rök til þess að því fylgi fleiri kostir að Ísland fylgi svipuðum aðferðum við tímareikning og þjóðirnar í kringum okkur gera og að tímamunurinn verði hinn sami, hvort sem er að sumri eða vetri.

Þess vegna styður SH ofangreint frv. til laga um tímareikning á Íslandi.``

Þetta stórfyrirtæki sem á mjög mikil samskipti við Ameríku og hefur selt þangað mikið magn af fiski á sínum ferli telur að það sé ótvírætt kostur að hafa sama tímareikning og viðskiptaþjóðirnar.

Kostina tel ég vera mjög mikla og vildi kannski fá að nefna nokkra. Eins og ég hef sagt er sumartíminn í öllum okkar helstu viðskiptalöndum bæði í austri og vestri. Samskiptatíminn við Evrópu lengist og það hlýtur að hafa ótvíræða kosti í för með sér. Nú er það svo að samskiptatíminn við flest lönd Evrópu skerðist að sumrinu til um tvo tíma. Mikilvægt er þetta einnig fyrir flugsamgöngur því að flugfélögin þurfa að breyta áætlunum sínum og það kostar mikið rask og erfiðleikar eru því samfara. Ég tala þá ekki um það að menn þurfa að mæta mjög snemma í flug hér á Íslandi og það er mjög óheppilegt fyrir bæði ferðaþjónustuna og okkur þessa venjulegu Íslendinga sem ferðast til útlanda á sumrin.

Það er mjög mikilvægt að allur almenningur geti notið sólar og góðviðrisdaga á sumrin í okkar kalda landi því að við eigum kannski ekki allt of marga góðviðrisdaga. Við vitum að þegar góðu dagarnir koma myndast hér sérstök sumarstemmning sem er mjög gott fyrir okkur að geta notið og geta notið útiveru og heilbrigðari lifnaðarhátta.

Þetta er einnig mjög hvetjandi fyrir viðskiptalíf og götulíf og allt mannlíf á Íslandi, ég tala nú ekki um fyrir íþróttafólk enda hafa íþróttasamböndin lýst því yfir að þetta mundi hafa mjög mikil áhrif á skipulagningu hjá þeim á knattspyrnuleikjum og eins og framsögumaður nefndi, þá mundu golfáhugamenn fagna því mjög að fá þarna lengri tíma til útivistar.

Svo er það kannski það sem ég hef hvað mestan áhuga á og það er að lengja þann tíma sem við sem komum frá þröngum fjörðum þar sem sólin hverfur á bak við há fjöll mjög snemma, fáum til útivistar og að njóta sólar. Auðvitað hafa menn, eins og framsögumaður nefndi, jafnvel talað um það að breyta sínum staðartíma í þröngum fjörðum eins og á Siglufirði. Það hefur verið nefnt á Seyðisfirði og víðar að þetta sé kannski eina ráðið til þess að menn geti notið útivistar lengur. Þar sem hægt hefur verið að koma því við hafa t.d. frystihús breytt vinnutíma sínum þannig að fólk byrjar að vinna kl. sjö á morgnana og er búið klukkan þrjú og sleppir þá matartíma til þess að geta komist fyrr út. Þetta er mjög gott fyrir það fólk sem þar vinnur en auðvitað þyrftu fleiri, í þjónustustofnunum og víðar, á þessu að halda líka þar sem ekki er hægt að koma þessu við. Eins og ég nefndi hafa frystihús breytt vinnutíma sínum en auðvitað hefur ekki verið hægt að breyta þjónustu á t.d. dagheimilum til samræmis við það og það hefur þá valdið erfiðleikum fyrir það fólk sem þarf að nota þjónustu leikskólanna því að leikskólarnir þurfa náttúrlega einnig að þjóna fólki sem er í ýmiss konar þjónustu, bönkum, verslunum og slíku. Þetta lýtur allt að því að heppilegast væri að hafa sama tíma og samræmda stefnu í því hvernig við reiknum tímann, bæði frá viðskiptalegu sjónarmiði og eins frá því sjónarmiði að fólk geti notið útivistar og stundað heilbrigðari lífshætti.

Einnig hefur verið nefnt og ég tel það ekki lítinn þátt í þessu að menn geta þá verið lengur úti, t.d. á Seyðisfirði, og grillað sitt lambakjöt og átt góðar stundir á kvöldin. Það mundi væntanlega hafa mikil áhrif á landbúnaðarframleiðsluna að menn mundu borða meira lambakjöt þar sem þeir gætu verið lengur úti við að grilla og hafa það huggulegt á góðviðriskvöldum.