Tímareikningur á Íslandi

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 18:07:20 (4241)

1998-02-25 18:07:20# 122. lþ. 75.14 fundur 309. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[18:07]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi að stórfyrirtæki sem ætti viðskipti við Evrópu gætu tekið sig til og breytt vinnutíma hjá starfsfólki sínu ef það þætti henta. Hjá þessum stórfyrirtækjum vinnur bara mjög margt fólk og þar á meðal fólk sem þarf t.d. að koma börnum sínum á leikskóla. Þjónusta leikskólanna miðast einfaldlega við að vinnutími á Íslandi sé samræmdur þannig að sú aðferð að breyta klukkunni hefur þá náttúrlega bein áhrif á að allir geti verið á sama tíma.

Hann taldi upp mjög marga ókosti og ég sé að það eru þau rök sem Þorsteinn Sæmundsson taldi upp í umsögn sinni við frv. þegar það var lagt fram síðast og það var helst að þetta mundi raska svefnvenjum, gleymska fólks hefði þarna áhrif, flóðatöflur, mjaltatímar og þetta sem hv. þm. taldi upp, en hann sleppti því að taka þann síðasta ókost sem Þorsteinn Sæmundsson sá við að breyta tímanum og það var að þetta mundi valda töluverðu óhagræði fyrir þá sem hefðu áhuga á norðurljósum og stjörnuskoðun. Satt að segja eru það einu rökin af þeim sem Þorsteinn telur upp í umsögn sinni sem ég tel vera nokkuð gild. Hann nefnir það m.a. að um hásumar yrðu ferðamenn að bíða lengur fram eftir nóttu til þess að sjá miðnætursólina og það er alveg hárrétt.