Tímareikningur á Íslandi

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 18:10:25 (4243)

1998-02-25 18:10:25# 122. lþ. 75.14 fundur 309. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[18:10]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég met það mjög mikils að hér skuli vera farið með góðan kveðskap og alltaf gaman að heyra slíkt en hins vegar svaraði hv. þm. ekki því hvernig þeir eiga að bregðast við sem eru t.d. settir í þá stöðu að þurfa að mæta klukkutíma fyrr en t.d. leikskólar opna á morgnana.

Ég vil svo líka benda á að þær umsagnir sem bárust um frv. komu frá mjög mörgum. Þær komu frá fyrirtækjum sem hafa mjög marga starfsmenn. Þær komu frá íþróttafélögunum og þær komu frá bæjarfélögum og samtökum sveitarfélaga. Ég tel að þarna séu aðilar sem hafa mjög mikinn hag af því að þessu verði breytt og væru ekki að senda slíkar umsagnir nema þeir teldu þetta vera mjög mikið hagsmunamál, bæði fyrir fyrirtækin, fyrir viðskiptin og fyrir fólkið sem starfar í fyrirtækjunum að geta notið sumars og meiri frítíma á birtutíma.