Skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 13:52:49 (4252)

1998-03-03 13:52:49# 122. lþ. 76.92 fundur 238#B skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[13:52]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu svonefnd TIMSS-könnun. Það er ekki nema u.þ.b. ár síðan að ítarleg umræða átti sér stað á hv. Alþingi um sambærilega könnun á grunnskólastigi. Þar töluðu menn um svartar niðurstöður. Nú hljóta menn að spyrja sem svo: Hefur eitthvað nýtt komið fram í þessari könnun þótt hún fjalli reyndar um framhaldsskólastig? Ég tel að í raun sé ekki svo nema þá helst það sem vekur undrun miðað við könnun úr grunnskólanum hversu vel ákveðinn hluti framhaldsskólanema kemur út.

Athygli hefur verið vakin á því hversu hátt brottfallið er í framhaldsskólum og finnst mér á stundum í umræðunni eins og það komi mönnum á óvart. Það er ekkert nýtt. Það hefur verið vitað nokkuð lengi. Menn tala jafnvel stundum eins og þeir séu hissa á því hversu hátt þetta brottfall er úr framhaldsskólum þrátt fyrir þá staðreynd að megineinkenni framhaldsskólans byggir á stúdentsprófi sem hefur áhrif á inntak, kennsluaðferðir, kennsluhætti í framhaldsskóla og grunnskóla. Við ætlum að þræla öllum í gegnum stúdentspróf. Á það hefur verið bent að um það megi hafa miklar efasemdir. Veruleiki nemenda sem eru að hefja nám í framhaldsskóla er nefnilega allur annar. Það hefur ítrekað verið bent á að þjónusta á öllum sviðum er mannfrekasta atvinnugrein í atvinnulífi okkar, en þess sjást ekki merki í skólakerfinu í framhaldsskólum. Svo eru menn undrandi á því að nemendur skuli ekki finna sig í námsvali. Þeir falla í skugga stúdentsins og fjölmiðlaumræðu. Hvers vegna er staðan svo? Ég vil vara við því að einfalda umræðuna um of. Vissulega skortir fé til framhaldsskóla og skólakerfisins í heild, en ég minni líka á að atvinnulífið hefur ekki þrýst á skólakerfið um að innleiða starfsmenntabrautir. Ég vil líka benda á hagsmunagæslu og neikvætt viðhorf á stundum meðal almennings til skólakerfisins. Hér ríkir ákveðið agaleysi, hér þarf að verða þjóðarátak á öllum sviðum.