Skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 13:59:31 (4255)

1998-03-03 13:59:31# 122. lþ. 76.92 fundur 238#B skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna# (umræður utan dagskrár), BirnS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[13:59]

Birna Sigurjónsdóttir:

Hæstv. forseti. Skólamál eru enn á ný í brennidepli umræðunnar vegna niðurstöðu úr TIMSS-rannsókn. Að þessu sinni er samanburðurinn hagstæður við aðrar þátttökuþjóðir. Íslenskir nemendur í framhaldsskóla standa sig vel í stærðfræði og raungreinum og því ber vissulega að fagna. Íslenskir grunnskólanemendur stóðu sig aftur á móti slælega, samanborið við nemendur annarra þátttökuþjóða.

[14:00]

Skýringarinnar er að hluta að leita í aðstæðum og framkvæmd könnunarinnar sjálfrar án þess að lítið sé gert úr góðum árangri framhaldsskólanema eða slökum árangri grunnskóla. Þá er rétt að draga fram að íslenskir þátttakendur í framhaldsskólarannsókninni eru elstir eða með elstu nemendum sem taka þátt meðan nemendur okkar í grunnskóla voru heldur yngri en nemendur flestra annarra helstu þátttökuþjóða. Þetta skiptir máli.

Í framhaldsskólanum er einnig aðeins um 55% fæðingarárgangsins í úrtaki en í grunnskóla var allur árgangurinn með. Þó aðeins sé tekið þetta tvennt gerbreytir það allri túlkun á niðurstöðum. Ekki skal gert lítið úr þeim vísbendingum sem þessar upplýsingar gefa okkur um skólastarf og þá þætti sem þar þarf nauðsynlega að styrkja ef við ætlum að standast samanburð meðal þjóða.

Bent hefur verið á hátt brottfall nemenda í framhaldsskóla. Mikil þörf er fyrir að koma á markvissu starfs- og verknámi í framhaldsskóla sem lýkur með viðurkenndu lokaprófi sem veitir aðgang að atvinnulífinu. Starfs- og verknámið þyrfti að hefjast í efstu bekkjum grunnskóla sem tilboð eða val fyrir þá sem hyggja ekki á bóklegt langskólanám.

Ég vil einnig nefna námsefni í grunnskóla. Námsefnisgerð hefur verið í fjársvelti til margra ára. Námsefni í stærðfræði og náttúrufræði er úrelt og allt of hægt gengur að endurskoða og semja nýtt. (Forseti hringir.) Hér vil ég benda á ábyrgð ríkisins sem hefur haft og hefur enn þá skyldu sem sjá grunnskólanemendum fyrir námsefni þeim að kostnaðarlausu. Gera þarf átak í því að veita aukið fjármagn í námsgagnagerð og hraða endurnýjun námsefnis í stærðfræði og náttúrufræði. Það þarf að lyfta grettistaki til að bæta kunnáttu nemenda í grunnskóla í stærðfræði og raungreinum.