Skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 14:02:22 (4256)

1998-03-03 14:02:22# 122. lþ. 76.92 fundur 238#B skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna# (umræður utan dagskrár), ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[14:02]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Niðurstöður TIMSS-skýrslunnar hlýtur maður að túlka sem enn einn áfellisdóminn yfir íslenska menntakerfinu. Það hefur verið ljóst að allt að 13% nemenda sem útskrifast úr grunnskólum landsins skilar sér ekki inn í framhaldsskólanna. Þessu til viðbótar eru það á bilinu 40--50% nemenda sem flosna upp úr skóla á fyrstu árum framhaldsskólanáms. Þessar tölur gera það að verkum að Ísland er varla samanburðarhæft við önnur lönd í alþjóðlegum könnunum.

Fjársvelti menntakerfisins undanfarin ár á vafalítið sinn þátt í hvernig komið er. Kjaradeilur hafa sett svip á menntamálin og valdið miklu tjóni. Til að mæta launakröfum hefur ríkið of oft fórnað hagsmunum nemendanna. Íslenska skólakerfinu hefur ekki verið leyft að laga sig að breyttum aðstæðum, breyttu umhverfi fjölskyldunnar og aukinni atvinnuþátttöku kvenna. Skólakerfi nágrannaþjóða okkar hafa fyrir áratugum brugðist við þessum aðstæðum og lengd skólaársins á Norðurlöndunum talar sínu máli.

Þessi vitneskja hefur legið fyrir í öll þau ár sem Sjálfstfl. hefur farið bæði með fjmrn. og menntmrn. Skýringar á hinu háa brottfalli nemenda úr framhaldsskóla má eflaust að einhverju leyti leita í því misræmi sem er á undirbúningi grunnskólanema fyrir nám í framhaldsskóla. En fleiri þættir koma til. Stuðningskennslu í framhaldsskólum er verulega áfátt þannig að þeir nemendur sem hafa þurft sérstakan stuðning í grunnskóla koma í heldur nöturlegt umhverfi í framhaldsskóla.

Markmið framhaldsskólalaga um fjölbreyttara námsframboð, svo sem styttri starfstengdar námsbrautir, hafa lítt eða ekkert gengið eftir. Þau 10 ár frá því að lög um framhaldsskólann frá 1987 voru sett, sem veittu nemendum með fötlun rétt til framhaldsskólanáms, hafa t.d. verið illa nýtt. Einstaka hópum hefur verið vel sinnt en markmið laganna um framhaldsskólanám við hæfi fyrir alla er langt í frá náð. (Forseti hringir.) Virðingarleysi sem þessum hópi nemenda hefur verið sýnt er með endemum og ljóst er að lyfta þarf grettistaki til að ná fram árangri í þeim efnum.