Kosningar til sveitarstjórna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 15:09:26 (4272)

1998-03-03 15:09:26# 122. lþ. 76.12 fundur 225. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (heildarlög) frv. 5/1998, Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[15:09]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég geri hér grein fyrir brtt. við frv. til laga um kosningar til sveitarstjórna. Með henni er lagt til að 3. mgr. 59. gr. frv., eins og það lítur út eftir 2. umr., falli niður. Við lokayfirlestur kom í ljós að um tvítekningu væri að ræða. Sama atriði kom fyrir á tveimur stöðum þannig að rétt þykir að fella hið fyrra niður. Ljóst er að það sem þarna um ræðir, hvernig kjósandi skal ganga frá atkvæðaseðli er hann hefur krossað við, kemur fram tveimur greinum síðar.

Hæstv. forseti. Við prentun upphaflega frv. vantaði kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. Ég vil geta þess að sú kostnaðaráætlun hefur borist. Einstakar breytingar sem gerðar hafa verið á frv. í meðferð þingsins kunna þó að auka örlítið kostnað, t.d. sú skylda félmrn. að auglýsa. Ég hygg þó að sá kostnaðarauki sé óverulegur.

Ég styð þá brtt. sem ég er flm. að, og gert er grein fyrir á þskj. 840, um að skráning kjósenda sem neyta atkvæðisréttar skuli ávallt vera óheimil af hálfu umboðsmanna eða fulltrúa þeirra. Ég vona að tillagan nái fram að ganga en styð greinina hvort sem hún verður samþykkt eða ekki. Ég tel að þetta ákvæði væri til bóta. Í greininni er kveðið á um rétt umboðsmanna lista, hver þeirra réttur er og hvernig þeim beri að haga sér.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessa umræðu að sinni. Kannski kemur eitthvað fleira fram við umræðuna.