Kosningar til sveitarstjórna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 15:38:13 (4281)

1998-03-03 15:38:13# 122. lþ. 76.12 fundur 225. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (heildarlög) frv. 5/1998, Frsm. KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[15:38]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þessara orða hæstv. félmrh. vil ég láta koma fram að það er auðvitað rétt að verði ekki gerðar breytingar á kosningalögum til Alþingis þá verður vissulega ákveðið ósamræmi. Ég hygg þó að það komi hvergi að sök nema kannski í þeim ákvæðum sem snúa að óleyfilegum kosningaáróðri og kosningaspjöllum. Ég hef ekki hugleitt rækilega hver þessi munur verður. Hér er fyrst og fremst um tæknilegar breytingar að ræða. En sú breyting sem felst í því að við felldum niður a- og b-lið 88. gr. upphaflegs frv. þýðir að þar er verið að undirstrika að ákveðnar aðferðir sem hefur verið beitt við undirbúning kosninga, þ.e. auglýsingar í blöðum og fleira slíkt sem samkvæmt lögum hafa verið óheimilar, verða nú heimilar í kosningum til sveitarstjórna en ekki í kosningum til Alþingis nema þeim lögum verði breytt. Ég lít því þannig á að þær breytingar sem hér er verið að gera séu veganesti til þeirrar nefndar sem mun endurskoða kosningalögin til Alþingis.

Vissulega skildum við eftir ákveðin atriði eins og t.d. hvort menn vilja breyta ákvæðum um atkvæðakassa og fleira sem snýr að framkvæmdinni. Ég gat þess þegar ég gerði grein fyrir breytingartillögum að mikið hefði verið kvartað yfir því hvað atkvæðakassarnir eru þungir. Og ef menn hafa fylgst með fréttum í sjónvarpi af kosningum í Þýskalandi, þar sem Gerhard Schröder vann kosningasigur, þá sást þar léttur og fallegur kjörkassi úr plasti sem ég hygg að hafi verið hægt að renna á hjólum út af kjörstað. En hér er allt lögregluliðið bundið allan kjördaginn og það þarf fíleflda lögregluþjóna til að bera atkvæðakassana. Við skildum því eftir viss atriði sem eru sameiginleg í báðum kosningunum. En ég hygg að þessar breytingar komi ekki að sök.