Hollustuhættir

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 15:57:45 (4285)

1998-03-03 15:57:45# 122. lþ. 77.1 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta HG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[15:57]

Frsm. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson) (frh.):

Virðulegur forseti. Sú löggjöf sem hér er í mótun er geysilega þýðingarmikil. Ásamt lögunum um náttúruvernd myndar þessi löggjöf eina aðalundirstöðu umhverfisverndar í landinu og því skiptir mjög miklu að vel takist til við lagasetningu. Það er því mjög raunalegt að mati okkar sem erum gagnrýnin á þetta frv. í ýmsum greinum að ekki skuli hafa betur tekist til við mótun löggjafarinnar nú á vegum þingsins eins og málið lítur út að lokinni 2. umr. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvaða ástæður eru til þess að ekki er staðið betur að verki í sambandi við lagasetningu af þessum toga. Ég ætla að fara yfir fáein atriði sem varða það efni, þ.e. spurninguna hvernig standi á því að það ráðuneyti sem fer með umhverfismálin og síðan þingið að meiri hluta til virðist ekki fært um að taka betur á svo þýðingarmiklu máli eins og hér er? Og er ég þá ekki að útiloka pólitísk ágreiningsefni um einstaka afmarkaða þætti sem auðvitað geta alltaf verið uppi, einnig á sviði umhverfismála.

En það er ekki aðeins þannig ágreiningur sem er hér uppi heldur líka þættir sem varða undirstöðu löggjafar og ýmsa grundvallarþætti sem þurfa að vera vel mótaðir. En mikið skortir á að svo sé af hálfu þingsins. Og nú þegar ég tala um þingið er það vegna þess að málið liggur fyrir nánast fullmótað af hálfu meiri hluta Alþingis.

Fyrir liggur í þessu máli að áður en ráðuneyti umhverfismála setti á fót nefnd til þess að undirbúa lagafrv. þá fór ekki fram af hálfu ráðuneytisins samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð með upphaflegu frv. nein grundvallarstefnumótun eða úttekt á málaflokknum. Það er beinlínis tekið fram í greinargerðinni að ekki hafi legið fyrir nein leiðsögn af hálfu ráðuneytis þegar stjórnskipuð nefnd var sett í málið. Ég tel, virðulegur forseti, að þannig málatilbúnaður sé ekki til þess fallinn að útkoman verði traust. Það þarf þá a.m.k. að vera mjög vel haldið á máli af hálfu þeirra sem valdir eru, sem eru í þessu tilviki einn fulltrúi ráðherra, embættismaður úr umhvrn., og síðan nokkrir aðilar samkvæmt tilnefningum, ef vel á að takast til. Hvernig má það vera, virðulegur forseti, að ekki fylgi ákveðin grundvallarleiðsögn frá framkvæmdarvaldinu þegar ráðist er í mótun löggjafar um svo mikilvægan málaflokk?

Ef litið er til nágrannalanda okkar og Noregur tekinn sem dæmi, þá hefði þingið verið búið að fá álitsgerð frá ráðuneyti umhverfismála, svokallaða meldingu eða ,,stortingsmelding`` eins og þeir kalla það þar sem væri að finna vandaða úttekt á stöðu viðeigandi málaflokks, hér hollustuverndarþáttarins og mengunarvarna, og í framhaldi af því gæfist þinginu kostur á að taka afstöðu til mála á grundvelli slíkrar vandaðrar greinargerðar. En plaggið sem þingið fær í hendur á haustdögum, 23. október held ég að það hafi verið sem það var rætt við 1. umr., hefur ekki að geyma nokkurn skapaðan hlut í rauninni um efnisþætti málsins, engan rökstuðning varðandi efnisþætti þess. Menn geta farið yfir þessa greinargerð, virðulegur forseti, sem er á nokkrum blaðsíðum. Þar er ekki að finna nokkur efnisleg rök fyrir þeim breytingum eða megintillögum sem frv. hefur að geyma. Hér er fjallað um formsatriði og taldar eru upp breytingar í töluliðum á einstökum þáttum frá fyrri löggjöf. Ég held að ekki hafi fylgt mikið til úrbóta á þessari vöntun þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir málinu á haustþingi. Með þessum hætti fær þingið málið til meðferðar. Og strax þegar grunnur er lagður að undirbúningi málsins þá er kvaddur til einn sterkur hagsmunaaðili til að hafa áhrif á mótun löggjafarinnar og hver er sá? Jú, það er Vinnuveitendasamband Íslands sem fær einn hagsmunaaðila tækifæri til þess að hafa bein áhrif á löggjöfina. Frv. bar þess augljós merki í mörgum greinum, í mörgum grundvallaratriðum, hver hinn sterki var í þessari nefnd.

Ég hef ekki viljað gera mál svo einföld að segja að ríkisstjórnir sem við völd sitja séu handbendi þessa eða handbendi hins þrýstihópsins í þjóðfélaginu þó oft megi leiða getum að því að svo sé. Undirbúningur þessa máls ber því óneitanlega vitni hvar hjartað slær hjá hæstv. ríkisstjórn þegar farið er að undirbúa þetta mikilsverða mál. Þinginu var þannig allverulegur vandi á höndum þegar það fékk þetta mál í hendur.

Það kom til 1. umr. eins og ég gat um síðla októbermánaðar og nú er byrjun mars svo ekki hefur verið langur tími, þar sem um stóra og þýðingarmikla löggjöf er að ræða, til ráðrúms fyrir þingnefnd að vinna að málinu. Kom þar auk þess fleira til á aðventunni eins og menn væntanlega muna þegar reynt var að lögfesta hluta af þessu máli nánast óbreyttan og raunar óbreyttan frá því sem stóð í frv. sem meiri hluti umhvn. síðan gerði þó verulega breytingu á og sýnir eitt með öðru handaganginn í þessu máli. Frá upphafi var þingið undir mjög miklum þrýstingi hvað tíma snerti frá hæstv. ráðherra sem óskaði eftir því að málið yrði lögfest fyrir áramót bara á tveimur mánuðum sléttum eða tæpum tveimur mánuðum. Það var fresturinn sem hæstv. ráðherra ætlaði þinginu. Málið kom inn 23. október og Þorláksmessan er 23. desember og þá er þingið komið í jólahlé. Þá vildi hæstv. ráðherra að málið væri afgreitt. Það er ekki boðleg aðstaða fyrir Alþingi Íslendinga að mál komi þannig fyrir illa undirbúin og síðan er þrýstingurinn um afgreiðslu jafnmikill og þetta ber vitni um.

Þegar leitað er skýringa á því hvers vegna svona er staðið að máli, þá er það fyrst og fremst eitt sem hefur verið borið fram í þessu og hefur reyndar ekki farið neitt dult því að innskotið á aðventunni leiddi berlega í ljós og umræða þar að lútandi að það var réttaróvissan varðandi starfsleyfi, það var sú flækja sem hæstv. umhvrh. hafði komið sér í með ólögmætri útgáfu reglugerða, reglugerðar á reglugerð ofan sem endaði í þeirri fádæma stöðu að allur almenningur var skilinn eftir réttlaus og hafði enga möguleika að fá úrskurði í kærumálum vegna flumbrugangsins hjá viðkomandi ráðuneyti. Við hljótum á Alþingi að spyrja okkur: Hvar er slíkum ráðuneytum komið? Hver er staða framkvæmdarvaldsins þegar þannig er staðið að málum?

Það er ljóst að skýringar kunna að vera þær að í þessu tilfelli hafi mat ráðuneytisins verið að nauðsyn bryti lög, þ.e. veiting starfsleyfa til stórrekstrar sem er nú í uppbyggingu. En fyrr má nú vera. Við hljótum að spyrja okkur: Er réttmætt að ganga þannig fram að brjóta í raun lögin til þess að knýja fram umdeildar framkvæmdir í landinu?

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara langt út í þá sögu en við erum hér á vissan hátt væntanlega að ljúka þeim þætti sem hefur borið fyrir alloft á Alþingi Íslendinga undanfarin tvö ár líklega, sem er þessi reglugerðarkafli í sögu hæstv. umhvrh. að því er varðar kærumál, 26. gr. enn gildandi laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Það er dapurleg saga og af þeim sökum kannski best að rifja hana ekki upp í löngu máli.

Spurningin er hvort betra tekur við. Við verðum vissulega að vona það, virðulegur forseti. Það er þó alltént lán í óláni að gerð hefur verið veruleg breyting til bóta á vissum þáttum sem snúa einmitt að þessu atriði og það af hálfu umhvn. þingsins og hefur verið afgreitt með stuðningi allra í þinginu með atkvæðagreiðslu fyrr í dag. Þar á ég við 6. gr. væntanlegra laga um útgáfu starfsleyfa þar sem ákveðið er að útgáfuaðili verði annars vegar Hollustuvernd ríkisins í tilteknum málum með vísan í fylgiskjal, hluta af lögunum, og hins vegar heilbrigðisnefndir. Þetta er allt annað en lagt var til af ráðuneytinu í 6. gr. þess frv. sem við höfum fyrir framan okkur þar sem þannig var um hnútana búið að það eitt út af fyrir sig hefði átt að leiða til þess að þingið vísaði málinu til föðurhúsanna strax við 1. umr. ef það væri heimilt að formi til, virðulegur forseti. Það hefði komið til greina að fara ekki lengra með málið eins og þar var um hnútana búið því samkvæmt því átti ráðherrann að hafa alla þættina einn og sjálfur í hendi sér, þ.e. útgáfu starfsleyfa og kærumeðferð vegna starfsleyfa þegar um var að ræða meiri háttar atvinnurekstur. Þarna horfir málið þó mun skár við eins og nú er um hnútana búið að afgreiddri þessari 6. gr. frv. með breytingum.

Hins vegar er kærumeðferðin áfram ótraust þó að hún sé margfalt betri en lagt var til samkvæmt frv. á liðnu hausti því að nú eiga kærumál annars vegar að fara til sérstakrar úrskurðarnefndar og hins vegar til hæstv. ráðherra, þ.e. kærur út af því sem fylgiskjalið rekur verða í hendi hæstv. ráðherra en kærumeðferðin er áfram tvískipt. Við höfum leitt rök að því í nál. okkar í minni hluta umhvn. að það sé ótraust, þar geti orðið árekstrar vegna skörunar á efnisþáttum sem geta verið til úrskurðar á sama tíma. Við fengum fyrir því rökstuðning eða fengum undirtektir við það álit frá lögmanni sem fyrir frumkvæði okkar í minni hlutanum var kallaður fyrir nefndina á allra síðustu stigum og varð raunar til þess að 6. gr. var einnig breytt til verulegra bóta frá því sem ætlað var tveimur dögum áður en málið var tekið úr nefndinni.

Þá komum við að því, virðulegur forseti, sem er einn af veikleikunum í umfjöllun máls af þessum toga og það eru möguleikar þingsins til að fá álitsgerðir í grundvallarmálum sem eru til afgreiðslu en þar skortir að mínu mati talsvert á. Eins og ég gat um kom einn tilkvaddur héraðsdómslögmaður fyrir nefndina eftir að sá sem hér talar hafði gert nokkrar atrennur að því að fá lögmann með sérþekkingu á stjórnsýslurétti fyrir nefndina vegna veilna sem ég taldi vera í málinu. Lengi vel var leitað án árangurs þar til einn fannst sem hafði unnið að málum hjá umboðsmanni Alþingis, m.a. að stjórnsýslurétti, en var þar ekki lengur að störfum, og fékkst til þess að tjá sig fyrir nefndinni þó að með stuttum fyrirvara væri. Það leiddi til breytinga á málsmeðferð einnig af hálfu meiri hluta nefndarinnar. Þetta sýnir, virðulegur forseti, að ekki er um hnútana búið sem skyldi hvað aðstöðu þingsins snertir til þess að fá álit af þessum toga. Ég geri ráð fyrir að svo sé í ýmsum öðrum málum. Það vekur raunar athygli á því hversu fátæk við erum af sérfræðingum sem hlutlausir eða hlutlægir mega teljast í umfjöllun varðandi þýðingarmikla málaflokka. Þingnefndirnar ættu í raun að hafa aðgang að álitsgerðum slíkra sérfræðinga og ef það eru ekki aðilar sem eru taldir óháðir og með sérþekkingu þá ættu þær a.m.k. að hafa aðstöðu til að fá einhverja sem túlka misjöfn sjónarmið fyrir þingnefndum því það skiptir afar miklu máli að löggjöf sé þannig úr garði gerð að hún stangist ekki á við grundvallarþætti í stjórnsýslurétti og gildir það um marga fleiri þætti.

[16:15]

Segja má að frv. sem við ræðum hér við 3. umr. varði fyrst og fremst formreglur þessa máls, ekki síst stjórnsýslumálefnin. Efnisreglur eru fáar í frv. Þær eru settar í hendur ráðuneytis og viðkomandi ráðherra í formi reglugerðarheimilda sem eru alveg óvenjulega víðtækar, og þekkjum við þó margt á Alþingi, en heimildir til reglugerðarsetningar eru geysivíðtækar eins og lesa má m.a. úr 4. og 5. gr. málsins. Og í ljósi þess hvernig til hefur tekist í einstökum atriðum hjá umhvrn. við setningu reglugerða er vissulega ekki mjög uppörvandi að sjá þessar óútfylltu heimildir hjá ráðuneytinu, og mikið umhugsunarefni fyrir Alþingi að standa þannig að lagasetningu að efnisrétturinn, efnisþættirnir eru settir í hendur viðkomandi ráðuneytis án skýringa, settir í hendur framkvæmdarvaldsins.

Ef litið er á nýlega danska löggjöf um hliðstætt efni frá síðasta ári, er þar að finna efnislegar leiðbeiningar um það sem danska umhverfisráðuneytinu er síðan ætlað að fylla út nánar með reglugerðum en ramminn er dreginn. Og þannig ætti að sjálfsögðu að standa að verki varðandi löggjöf sem þessa.

Einn þáttur er sá, virðulegur forseti, sem er mikið áhyggjuefni fyrir utan stöðu ráðuneytisins í máli sem þessu og það er stofnunin sem öðrum fremur á að fjalla um efni laganna, og kemur til með í reynd að gera uppkast að reglugerðum, geri ég ráð fyrir, fyrir hæstv. ráðherra varðandi mörg af þeim atriðum sem reglugerðarheimildir eru um í frv., þ.e. Hollustuvernd ríkisins. Aðstaða þeirrar stofnunar hefur oft verið til umræðu á Alþingi en það er sérkennilegt, virðulegur forseti, hversu takmarkað og hversu skammt þær áhyggjur virðast ná í þinginu um málefni þeirrar stofnunar og þar með bakfiskinn í meðferð framkvæmdarvaldsins á þessum stóra málaflokki. Það verður kannski ekki fyrr en farið verður að sækja okkur fyrir erlendum dómstólum, eins og EFTA-dómstólnum, fyrir brot á alþjóðasamningum sem menn kannski vakna til vitundar um hversu hraklega er búið að þessari stofnun. Hefur álag á einstaka íslenska ríkisstofnun ekki aukist með viðlíka hætti og á Hollustuvernd ríkisins og sáralítið verið gert til að bæta úr aðstæðum þar? Þetta varðar óbeint löggjöfina sem við erum að setja.

Ég vildi síðan, virðulegur forseti, minna á beinar veilur sem ég tel að séu fyrir hendi, fyrir utan það sem ég hef gert að umtalsefni, sem engan veginn var búið að fjalla um til hlítar í umhvn. en ég og við í minni hluta umhvn. gerðum grein fyrir við 2. umr. málsins og í nál. okkar. Það varðar tengslin við sérlög og er þá átt við lög um matvæli, nr. 93/1995, og lög um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988. Þarna er um að ræða veikleika í löggjöfinni sem getur skapað réttaróvissu, m.a. að því er varðar gjaldskrársetningar og ekki er vísað á milli laga með þeim hætti að tryggilegt sé. Það eru náttúrlega slík atriði sem þingnefndir eiga að fara vandlega yfir og fullvissa sig um að ekki vanti heimildir, en það var því miður ekki gert í aðdraganda 2. umr. málsins í hv. þingnefnd. Við höfum einnig gagnrýnt að ekki er í frv. vísað til alþjóðasamninga svo sem gert var í þeim lögum sem frv. á að leysa af hólmi og er það óeðlilegt að okkar mati.

Ég vil einnig, virðulegur forseti, vísa til þess sem varðar bráðabirgðaákvæði með frv., þ.e. gildistöku frv., en lögin eiga þegar að taka gildi. Undantekningarnar sem gerðar eru samkvæmt bráðabirgðaákvæðum varða heilbrigðisnefndirnar en nýjar heilbrigðisnefndir eiga að taka gildi 1. ágúst nk. þrátt fyrir aðalákvæðið um að lögin öðlist þegar gildi. Ég vek alveg sérstaka athygli á þeim þætti og bið hæstv. umhvrh. um að bregðast við varðandi það atriði. Spurning mín, virðulegur forseti, er þessi: Er líklegt eða er vissa fyrir því að heilbrigðisnefndir geti tekið til starfa, eins og frv. gerir nú ráð fyrir, þann 1. ágúst 1998, að teknu tilliti til þess að í nefndunum eiga að vera auk þeirra fulltrúa sem nýjar sveitarstjórnir kjósa, og er það eitt út af fyrir sig nokkuð flókið mál, nýjar sveitarstjórnir á hinum stóru eftirlitssvæðum, en fyrir utan fulltrúa þeirra eiga að vera í heilbrigðisnefndunum fulltrúar tilnefndir af samtökum atvinnurekenda og fulltrúar náttúruverndarnefnda á viðkomandi svæði? Aðeins það að kjósa fulltrúa sveitarstjórnanna getur verið allþungt undir fæti á þeim tíma sem þarna er um að ræða, frá 23. maí eða frá því að nýjar sveitarstjórnir eru kosnar og þar til 1. ágúst. Það eru ófáar sveitarstjórnir, t.d. í mínu kjördæmi, sem er hið sama og væntanlegt eftirlitssvæði sem þurfa þar að máli að koma. Hvernig gerir ráðherra ráð fyrir að sveitarstjórnirnar standi að kjöri á sínum fulltrúum? Það er það fyrsta. Í öðru lagi: Hvernig má gera ráð fyrir að fulltrúar, tilnefndir af samtökum atvinnurekenda á viðkomandi svæði verði til þegar engin heildarsamtök er þar að finna? Ég hygg að víða á þessum eftirlitssvæðum sé ekki að finna nein heildarsamtök atvinnurekenda fyrir utan það að heildarsamtök atvinnurekenda hafa stundum á landsmælikvarða verið skilgreind tvö, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaga. Hvort þessara tveggja samtaka á að koma þarna að máli ef túlka ætti lögin þannig að heildarsamtökin eigi að tilnefna fulltrúa í heilbrigðisnefndirnar? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að útfæra þessi atriði?

Þriðji þátturinn sem snertir tilkomu heilbrigðisnefnda fyrir 1. ágúst nk. eru fulltrúar frá náttúruverndarnefndum. Staða fulltrúa náttúruverndarnefnda er í rauninni mjög óljós, umdæmi þeirra og jafnvel tilvist. Ég ætla ekki að rifja upp hin þokukenndu ákvæði laga um náttúruvernd, sem samþykkt voru 1996, um náttúruverndarnefndir, en víða hefur verið brugðið á það ráð að sameina hjá sveitarstjórnum marga málaflokka undir öðru heiti. Náttúruverndarnefndirnar eru þannig ýmist ekki til staðar eða að málaflokkarnir sem undir þær ættu að heyra falla undir aðrar nefndir með öðrum nöfnum. Hvað fulltrúa í heilbrigðisnefndirnar snertir sýnist mér að staðan geti einnig verið nokkuð flókin.

Ég hef áhyggjur af lagasetningu af þessu tagi, virðulegur forseti, og mér finnst óforsvaranlegt af framkvæmdarvaldinu að ætla að lögfesta þetta frv. á svo tæpu vaði eins og hér er stofnað til. Ég fullyrði að ekki hefði veitt af öllu árinu til undirbúnings til að koma á fót heilbrigðisnefndum samkvæmt frv. Hér er því stefnt í verulega óvissu því samkvæmt ákvæðum frv. hafa núverandi heilbrigðisnefndir einungis umboð til 1. ágúst nk. og þá falla þau umboð úr gildi. Séu hinar ekki orðnar starfhæfar er enginn til að sinna þessum málaflokki. (Gripið fram í.) Það má vera vel að verki verið í júlí nk. eða á sumarmánuðum, virðulegur forseti, ef hægt á að vera að kippa þessu í liðinn.

Stóru veilurnar í frv. hafa verið raktar við 2. umr. málsins og ég ætla ekki að hafa um það langt mál. En þær varða einnig stöðu heilbrigðisnefndanna m.a., réttarstöðu þeirra, vegna þess dæmalausa tiltækis að setja inn í nefndirnar fulltrúa samtaka atvinnurekenda. Það er með ólíkindum, virðulegur forseti, að meiri hluti þingsins skuli hafa tekið undir þá tillögu ráðuneytisins, og ekki horfið að því ráði sem minni hlutinn lagði áherslu á að atvinnurekendur væru ekki aðilar að nefndunum og að þar sætu eingöngu fulltrúar kjörnir af sveitarstjórnum svo sem eðlilegt hefði verið.

Annað atriði sem snertir heilbrigðiseftirlitið í landinu er starfsaðstaðan og kemur þar til sú brtt. sem meiri hluti umhvn. gerði að sinni og eitt af fáum dæmum um það að lélegt frv. var gert enn lakara, var gert enn verra, þar sem öryggisákvæðið um það að ekki skyldu færri en tveir heilbrigðisfulltrúar starfa á hverju eftirlitssvæði, var fært niður í einn heilbrigðisfulltrúa. Einu aðilarnir sem gerðu þarna kröfu um breytingu í umsögnum til umhvn. voru Vinnuveitendasamband Íslands og stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga.

[16:30]

Kröfur Vinnuveitendasambands Íslands og stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga um að lækka þetta öryggisákvæði, færa það niður, tala sínu máli og eru verulegt áhyggjuefni. Ég tel þau sjónarmið fráleit sem segja að sveitarstjórnirnar leggi flestar til í heilbrigðisnefndir og heilbrigðiseftirlitið megi teljast á þeirra verksviði og kostað af þeim, þar með eigi þær að ráða því hvort heilbrigðisfulltrúi er einn, tveir eða fleiri. Ég tel það ekki gilt. Alþingi á að hafa skoðun á því. Þarna á að setja ákveðið lágmark, enda markar þingið rammann með eftirlitssvæðunum og það hefði ekki veitt af því að hafa þessa tryggingu þó að ég voni að þessu verði ekki beitt í reynd. Óvissan er eftir sem áður og ekki vitað hvernig á verður haldið.

Fyrir utan þessa þætti höfum við gagnrýnt kæruferlið varðandi starfsleyfin og svo hið víðtæka reglugerðarvald sem frv. felur í sér. Efnisþættir máls eru í raun fluttir til umhvrn. nánast eins og þeir leggja sig.

Virðulegur forseti. Við í minni hluta umhvn. höfum lagt okkur í líma við að ráða bót á agnúum málsins með málflutningi okkar í þinginu og umhvn. þingsins. Við höfum þrátt fyrir allt fengið nokkru áorkað. Sumt af þeim atriðum sem við bárum fram voru tekin upp af meiri hluta umhvn. Eftir sem áður er málið aðeins hálfunnið miðað við þá málsmeðferð sem það hefði verðskuldað. Við fengum mjög strangan tímaramma. Við urðum við því sem um var samið í þingönnum fyrir fyrir jól, að afgreiða málið frá nefnd 20. febrúar sl. við afar þröng tímamörk. Við tókum þann kost svo við gætum komið í veg fyrir það að stórir þættir frv. yrðu lögfestir án breytinga með þeim ákvæðum sem það hafði þá að geyma. Þar var nokkur bót ráðin á við frekari málsmeðferð eftir að sú tillaga í frumvarpsformi var dregin til baka.

Ég tel, virðulegi forseti, að vinnan að þessu máli og annmarkar þess eigi að vera áminning bæði fyrir umhvrn. og þing um að standa sig betur næst. Það er auðvitað leitt að þurfa að taka svo til orða. Ég hef enga von um að hér verði miklu um þokað af hálfu þingsins eftir að málið er komið til 3. umr. Ég tel að áður en langt um líður þurfi að fara fram úttekt á því hvernig til tekst. Ég held að mjög fljótlega þurfi greinargerð frá framkvæmdarvaldinu um það hvernig staðið verði að mönnun í heilbrigðisnefndir og varðandi fleiri þætti sem snerta málið, þar á meðal aðbúnað heilbrigðiseftirlitsins víða um land.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég taldi rétt að koma á framfæri nokkrum hugleiðingum mínum og áhyggjum af þessu máli. Ég vona eins og áður segir að við fáum ekki margar slíkar sendingar frá umhvrn. til meðferðar á Alþingi í bráð.