Hollustuhættir

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 16:37:55 (4287)

1998-03-03 16:37:55# 122. lþ. 77.1 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[16:37]

Frsm. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki til mikils að spyrja þegar svörin eru líkt og þau sem hæstv. ráðherra gefur. Þetta var lagt til í frv. sl. haust og þess vegna er þetta óbreytt áfram og stendur svona hér og nú. Það var í rauninni inntakið í svari hæstv. ráðherra. (Umhvrh.: Það er engin breyting á aðstæðum hvað þetta varðar.) Það er engin breyting á aðstæðum og engin svör við því hvernig samtök atvinnurekenda eiga að tilnefna í nefndina. Hvert ætlar hæstv. ráðherra að senda bréfin til samtaka atvinnurekenda á eftirlitssvæðunum? Hver verður móttakandi þeirra? Ég bið um svar. Hvaða samtök atvinnurekenda á Austurlandi eiga að tilnefna fulltrúa í heilbrigðisnefndir og víðar á eftirlitssvæðum? Hvernig á að standa að tilnefningu fulltrúa náttúruverndarnefnda á þessum svæðum fyrir 1. ágúst nk. þegar margar nefndir starfa á svæðunum en einnig svæðum þar sem engin náttúruverndarnefnd starfar? Þetta finnst mér að þurfi að liggja fyrir við 3. umr. málsins, hvernig svona frumatriði eigi að uppfylla. Hæstv. ráðherra getur ekki skotið sér á bak við ýmsar dagsetningar. Þetta stendur svona í lögunum og þetta átti að lögfesta fyrir áramótin. Við erum í byrjun marsmánaðar. Það breytir engu um þetta. Hvernig á að uppfylla þetta? Gerir ráðherra ráð fyrir því að þessi tímamörk standist? Hvað með réttaróvissuna ef heilbrigðisnefndir eru ekki orðnar starfhæfar og hinar eru sviptar umboði? Hver á að fylla í skarðið?