Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 18:07:54 (4297)

1998-03-03 18:07:54# 122. lþ. 77.4 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[18:07]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að vissulega hefði verið betra að umræðan um öll þessi frv. hefði farið fram á sama degi, en sú ákvörðun er þegar tekin og var tekin fyrir helgi að slíta málið í sundur með því að taka á dagskrá og afgreiða eitt af þremur málunum, þ.e. frv. um áfengis- og vímuvarnir, sem er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar sem birtist í þessum frv. Ég tek undir þetta en það þýðir lítið að sakast um það nú því það er þegar skeð.

Í öðru lagi varðandi áfengt gos, eða gos í áfengi eða hvað menn vilja kalla þetta, þá er þetta sérstakt vandamál vegna eimaða vínandans. Það er miklu minna vandamál að ég hygg þegar um er að ræða blandaða drykki þar sem létt vín er í blöndunni. En þá lendum við auðvitað í öðru vandamáli og það er að við seljum hérna sem óáfenga drykki, drykki sem innihalda áfengi eins og maltöl og pilsner sem eru innan við þessi mörk, 2,25%, og þess vegna er valin þessi leið sem er í frv. Ég hygg að hættan sé miklu meiri á eimuðu áfengi sem blandað er í gos eða ávaxtasafa en af drykkjum þar sem um er að ræða léttvínsblöndur því öllum er ljóst að þar er um léttvín að ræða.

Hér hefur nokkuð verið rætt um nefndarskipun mína sem nýlega átti sér stað. Ég bað aðstoðarmann minn ásamt tveimur mönnum úr stjórn fyrirtækisins og forstjóra fyrirtækisins að setjast niður og fara yfir nokkur mál sem tengjast starfsemi ÁTVR. Það þarf að endurskoða reglugerðina sem er ósköp eðlilegt því nú höfum við reynslu af lögunum frá 1995. Við þurfum að skoða vinnureglur fyrirtækisins, innkaupareglur, prufusölu, bæði á áfengi og tóbaki sem nokkuð hefur verið gert hér að umtalsefni. Það liggja fyrir niðurstöður samkeppnisráðs sem þarf að fara yfir og mönnum hafa verið gerðar kunnugar og það þarf að svara því með viðeigandi breytingum á rekstri fyrirtækisins.

Varðandi fjárreiðulögin skal það tekið fram að ekki stendur til að brjóta nein lög í því sambandi. Menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því. Það er hins vegar verið að ræða hvernig skuli standa að opnun nýrra áfengisútsala, en að undanförnu hefur það verið gert með því að bjóða slíkt út og ég kem að því síðar. Þá er verið að ræða um opnun nýrra áfengisútsölustaða. Ég kem einnig að því síðar. Þetta er því fyrst og fremst stefnumótandi starf og það er ekki hægt að slíta það frá rekstrarstjórninni eins og mér heyrðist koma fram hjá hv. þm. Ég bendi á að stjórnin er í raun og veru framlenging af ráðherranum.

Nefndin sem vann að undirbúningi þessara frv. sem hafa verið og eru til umræðu skilaði samhljóða tillögum. Í tillögum nefndarinnar var ekki tillaga um afnám á einkaleyfi ÁTVR en hins vegar var gert ráð fyrir í tillögunum að tóbaksgjald kæmi í staðinn fyrir einkaleyfi á innflutningi og dreifingu á því en ríkisstjórnin, eins og margoft hefur komið fram, féllst ekki á að gera þær breytingar að sinni. Ég minni á að það var ákvörðun Alþingis að koma á stjórn ÁTVR. Það var ekki í upphaflega frv. og satt að segja sóttist ég ekkert sérstaklega eftir þeirri stjórn. Það var ákvörðun hv. nefndar sem hv. þm. á sæti í eða meiri hluta nefndarinnar að koma stjórninni á og hún starfar samkvæmt reglugerð og er auðvitað rekstrarstjórn en það er ekkert sem bannar stjórninni að hafa stefnu nema síður sé. Ég hef satt að segja beðið hana um að setjast yfir framtíðarstefnu fyrirtækisins og tel að það sé vel við hæfi.

Mig langar í örfáum orðum, virðulegi forseti, að fjalla um frv. þeirra félaga, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hv. þm. Ögmundar Jónassonar, fulltrúa Alþb. og óháðra. Þetta frv. er í tvennu lagi og það er ekki verið að ræða hér um dómsmálaráðuneytishlutann, enda sýnist mér satt að segja að í frv. dómsmrh. sé fjallað um öll atriðin sem koma fram í frv. með svipuðum eða nánast sama hætti og hér er gert ráð fyrir. Þar með er því verið að taka undir þau sjónarmið í stefnumótun ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í: Öfugt.) Ef hv. þm. vill hirða heiðurinn af því má hann það en þetta starf hefur staðið yfir í vel á annað ár og af því hefur nokkuð frést, en ég heyri að hv. þm. hefur alls konar skjöl í höndunum og ég efast ekkert um að hann hefur líka fylgst með starfi nefndarinnar og hann er vel að því kominn að flytja frv. á borð við þetta.

Menn verða að hafa í huga, og ég undirstrika það þegar verið er að ræða þessi mál, að auka þarf þjónustuna. Það kemur líka til greina að verðið sé misjafnt eftir því hvar verslanirnar eru. Af hverju mega ekki sveitarfélögin og lögregluyfirvöld opna eða sjá um að ákveða hvar skuli opna verslanir? Í dag er biðröð eftir að fá að opna áfengisútsölustaði, eins og ég kem síðar að.

[18:15]

Varðandi fjármálaráðuneytishlutann í þessu frv. þeirra minni ég á að stjórn Áfengis- og tóbaksverslunarinnar er framlenging af ráðherravaldinu. Ég tek undir það með hv. þm. að ráðherrann getur ekki firrt sig ábyrgð þótt þessi stjórn starfi. Ég tel alveg út í bláinn að kjósa menn í stjórn þessa fyrirtækis hlutfallskosningu á Alþingi. Ég sé ekki minnstu ástæðu til þess, svo ég láti það koma skýrt fram af minni hálfu.

Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hvort á staðnum eigi að vera þjónustufulltrúi. Mér finnst það vera falleg hugsun. Við höfum reynt að bæta þjónustuna með því að gefa upplýsingar. Þó er í þessum málum dálítið vandratað vegna þess að spurningin er ætíð hvað sé auglýsing og hvað upplýsing. Þetta vandamál hefur komið upp hjá norrænum þjóðum núna þegar reyna á að uppfylla ESA-skilyrðin. Mér er sagt að frændur okkar séu í vandræðum með að uppfylla þetta skilyrði. Þeim er í raun og veru skylt að upplýsa um vöruna. Hér á landi er svo mikill tvískinnungur ríkjandi í þessum málum að menn gera engan mun á upplýsingum og auglýsingum.

Við betra tækifæri væri ég tilbúinn að ræða þessi mál almennt, en tímans vegna get ég ekki farið ítarlegar út í frv. þeirra hv. þingmanna sem ég hef minnst á hér.

Ég tek það fram að hér er ekki verið að leggja fram stjfrv. til breytinga á lögum um verslun á tóbaki og áfengi. Það mál er ekki til umræðu þessu sinni. Það er verið tala um allt önnur lög í þessari umræðu.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spurði af hverju verð á öli væri ekki lækkað. Tilgangurinn með þeirri breytingu sem hér er gerð er fyrst og fremst að koma á flokkun þannig að hægt sé að taka ákvörðun um lækkun á hverjum flokki fyrir sig. Mín skoðun er sú, ég tek undir það með hv. þm., að lækka þyrfti verð á öli, sérstaklega frá veitingahúsum. Ég staðhæfi það hér að álagning á öl í veitingahúsum er mun meiri hér á landi en erlendis. Lítils háttar lækkun á öli þarf því ekki endilega að skila sér til þessara staða. Ég held að ástæðan sé sú að við gerum miklu meiri kröfur til vínveitingahúsanna en gengur og gerist í mörgum okkar nágrannalöndum.

Ég er fyllilega tilbúinn að skoða hvernig við getum komið til móts við ferðamannaþjónustuna. Þá þarf auðvitað að skoða verð á öli og annað sem kann að valda því að verðið er kannski þrefalt eða jafnvel fjórfalt þegar það er keypt á vínveitingastöðum víða um landið. Þetta verða menn að hafa í huga og þó að lækkunin yrði kannski 10%, þá mundi það skila mjög lítilli lækkun. Fleiri þættir en verðið til viðkomandi veitingahúsa skipta máli. Það eru aðrir þættir í starfsemi veitingahúsanna sem þarf að skoða en ég er tilbúinn til að taka þátt í þeirri athugun.

Varðandi 0,3% gjaldið sem ég held að sé framfaraspor, þá var í framhaldi af því spurt hvort ég vissi að heildsalar seldu beint til neytenda. Ég þekki það ekki. Í lögunum er skýrt tekið fram að þeir eigi að selja til smásalanna hvort sem það er ÁTVR eða þeir sem hafa vínveitingaleyfi. Sú skynsamlega verkaskipting var gerð að ÁTVR selur á útsöluverðinu og heildsalinn á sínu heildsöluverði. Þannig eiga heildsalarnir að vera fyllilega samkeppnisfærir við ÁTVR gagnvart þeim sem annast smásölu eins og þeir sem hafa vínveitingaleyfi. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að selt sé beint til einstaklinga. Slíkt væri að sjálfsögðu lögbrot.

Varðandi bréfið til ríkisskattstjóra þá get ég því miður ekki fullyrt að því hafi verið fylgt eftir eins og hv. þm. spurðist fyrir um. Ég tek það hins vegar fram að þessi mál eru til sérstakrar skoðunar og umræðu í þeirri nefnd sem vann drög að þeim frumvörpum sem eru til umræðu. Við ákváðum að fara þá leið að styrkja lögregluna sérstaklega í sínu starfi. Við höfum jafnframt ráðið sérstakan mann sem hefur með höndum eftirlit og starfar með Áfengisvarnaráði. Loks er ætlunin sú samkvæmt lögunum að ríkisskattstjóri fylgist með heildsölunum. Ég játa þó að vel kann að vera að þar megi standa betur að verki.

Varðandi stefnu Framsfl. ætla ég að vera fáorður. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að ná megi fram eðlilegri stefnu í þessum málum, annars vegar í gegnum verðlagningu og hins vegar með eftirliti heilbrigðisyfirvalda með því að tjara og nikótín séu ekki seld í óhóflegum mæli. Ég tel að það sé verkefni heilbrigðisyfirvalda að fylgja því eftir.

Ég tek fram að það verður í raun og veru engin breyting á framboði við að taka gjald í tolli. Í dag er heimilt að flytja þennan varning til landsins og eins og allir vita varð niðurstaðan sú eftir lögfræðilega skoðun að okkur væri skylt, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að opna markaðinn fyrir fleiri tegundum en þeim sem seldar eru þessa stundina. Það er ekki vegna þess að ég sé sérstakur áhugamaður um það. En eftir að hafa skoðað málið mjög vandlega þá urðum við að viðhafa aðferð sem hægt væri að leggja á borðið og segja: Þetta er okkar aðferð. Menn hafa möguleika en við höfum líka leyfi til þess að afturkalla leyfið ef varan selst ekki. Þarna er auðvitað ákveðinn vandi til staðar en ég tel að það yrði engin stórkostleg breyting þó að tóbakið hyrfi frá ÁTVR.

Spurt var að því hvort verðhækkun á tóbaki gæti orðið meiri. Það er engin fyrirliggjandi ákvörðun um það. Það er ekki útilokað. Vegna þess að minnst var á Noreg í þessu sambandi, sem er auðvitað ágætisland, þá mætti einnig nefna Svíþjóð. Sumir telja að þeir hafi verðlagt þessa vöru svo hátt að þar sé stórkostlegt smygl. Í norsk og sænsk dagblöð er skrifað að þeir hafi sett það hátt verð á tóbak að það hafi valdið stórkostlegum vandræðum í þessum löndum. Um það get ég auðvitað ekki fullyrt.

Það er ekki deilt um það í þessu máli að nauðsynlegt er að hafa forvarnir. Á stefnu flokkanna um forvarnir, eftirlit og verðstefnu er enginn munur .

Að allra síðustu, virðulegi forseti, því miður er tími minn að verða búinn, þá sagði hv. þm. Ögmundur Jónasson að ég væri fulltrúi Verslunarráðsins og vildi auka framboðið á þessum vonda varningi. Um það fór hann mörgum orðum. Í sömu ræðu rétt eins og --- ég hafði næstum sagt hv. þm. Ragnar Reykás --- sneri hann við blaðinu og sagði að nú ætlaði hann að sjá til þess ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að auka framboðið á þessum vörum með því að opna áfengisverslanir um allt land. Sannleikurinn er sá að verið er að undirbúa opnun áfengisverslana á nokkrum stöðum á landinu. Á nokkrum stöðum þarf það að gerast en á undanförnum árum hafa áfengisútsölur verið opnaðar á fimm stöðum og ég get nánar fjallað um það síðar í þessari umræðu.