Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 18:25:53 (4299)

1998-03-03 18:25:53# 122. lþ. 77.4 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[18:25]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil eingöngu segja það að forstjórinn er í nefndinni. Hans sjónarmið og þá væntanlega sjónarmið starfsfólksins ef það treystir forstjóra sínum, koma fram í þessari nefnd. Niðurstaðan er ekki fengin en hún fæst vonandi á næstu dögum og verður þá áreiðanlega gerð heyrinkunn. Þá ættu menn að vita um það sem þar var fjallað um. Þar á meðal er fjallað um það hvort opna eigi nýja útsölustaði og ég vil segja frá því hér að fjöldi sveitarfélaga hefur samþykkt að opna áfengisútsölu. Það er t.d. engin áfengisútsala í Garðabæ og engin í Mosfellssveit, ekki á Dalvík, Hveragerði eða Eskifirði svo ég rifji upp nokkra þeirra staða sem nú þegar hafa samþykkt þetta. Nefndin er að skoða hvort ástæða sé til að opna á þeim stöðum sem þegar má gera samkvæmt núgildandi lögum.

Ég sagði frá því áðan að opnaðir hafa verið fimm staðir að undanförnu, í Borgarnesi, Kópavogi, Blönduósi, Stykkishólmi og Patreksfirði. Þetta var boðið út. Hvernig gerist það? Opinber starfsmaður í hálfu starfi tekur þetta að sér og ræður síðan annað fólk til að vinna hjá sér. Ég fann þetta ekki upp. Forveri minn, hæstv. forseti Íslands, þáv. fjmrh., fór þessa leið einnig. Til dæmis var opnuð áfengisútsala í fatabúð vestur í Ólafsvík og austur á Neskaupstað, skilst mér, í verslun sem selur jafnframt aðrar vörur þannig að menn hafa farið nokkuð nærri því að bjóða þetta út. Þó að ég sé ekki að segja að það verði gert, þá yrði það ekki stórkostleg breyting þótt einhverjum aðilum yrði falið þetta án þess að þeir væru opinberir starfsmenn. Ég er ekki að segja að þetta verði gert. Ég er aðeins að benda á að fyrsta stóra skrefið var tekið áður en ég varð fjmrh. þó að menn muni það kannski ekki því að það er svo langt síðan.