Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 18:28:08 (4300)

1998-03-03 18:28:08# 122. lþ. 77.4 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[18:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að nokkuð langt er síðan einhver annar en hæstv. núv. ráðherra var fjmrh., enda ganga sögur um að hann sé bráðum búinn að fá nóg og hyggist róa á önnur mið innan skamms.

Varðandi tilhögun á þessum rekstri verslana í smærri byggðarlögum, þá held ég að þar sé um allt aðra hluti að ræða en þá sem við erum hér að tala um. Við erum að fjalla um beina einkavæðingu á fyrirkomulaginu sem slíku, enda er þessi rekstur á ábyrgð ríkisins. Þeir sem bera ábyrgð á honum á staðnum eru starfsmenn ríkisins og þeir taka þessa þjónustu að sér fyrir tiltekið gjald. Afkoma þeirra er ekki háð sölunni í versluninni (Fjmrh.: ... breyta engu um ...) Hér er búið að aftengja alla þá þætti sem við erum að vara við gagnvart einkavæðingu þar sem ágóðaþátturinn hvetur til aukinnar sölu.

Í sjálfu sér geri ég engar athugasemdir við það að menn leiti praktískra lausna, eins og þeirra sem farnar hafa verið í tíð núverandi og fyrrv. fjmrh., hvað varðar þetta fyrirkomulag á uppbyggingu þjónustunnar í einstökum byggðarlögum þar sem ekki er praktískt að reka áfengisverslun sem einangrað fyrirbæri með sérstöku starfsfólki. Það er mjög hagnýtt að það starfsfólk geti jafnframt að einhverju leyti nýst við annan verslunarrekstur, hvort sem það er í hinni ágætu fatabúð, vinkonu okkar í Ólafsvík, eða í efnalauginni á Húasvík. Það er í góðu lagi mín vegna. Þetta mál snýst alls ekki um það heldur um það hvort aftengja eigi ágóðaþáttinn eða hagnaðarvonina sem mundi í hreinum einkarekstri hvetja til aukinnar sölu. Það væri andstætt öðrum markmiðum í áfengislögum sem hvetja til hófsemdar á þessu sviði.

Í frv. okkar hv. þm. mín og Ögmundar Jónassonar felst fyrst og fremst að breyta lögunum þannig að möguleikar standi til að veita öllum landsmönnum sambærilega þjónustu að breyttu breytanda. Íbúar fámennustu byggðarlaganna væru þá ekki settir úr leik með ákvæði eins og því sem nú er í lögum, með þúsund íbúa lágmarkinu.