Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 18:34:19 (4303)

1998-03-03 18:34:19# 122. lþ. 77.4 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[18:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi var gefin mjög mikilvæg yfirlýsing. Hún var á þá lund að hæstv. fjmrh. telur að endurskoðunarnefndin hafi ekki leyfi lögum samkvæmt að framfylgja þeim ásetningi sínum að einkavæða áfengisverslunina í samræmi við 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Þetta var mikilvæg yfirlýsing sem hér var gerð. (Fjmrh.: Á þessu ári.) Ja, til þess mun síðan skorta heimild í lögum. Þá á væntanlega eftir að ræða á Alþingi hvort sú heimild verður veitt. Hæstv. fjmrh. er ekki einráður í landinu sem betur fer.

Síðan vil ég segja að það er náttúrlega útúrsnúningur sem hæstv. fjmrh. leyfir sér að hafa uppi um það frv. sem ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon höfum lagt fram um áfengisútsölur. Hæstv. fjmrh. vill koma brennivíni inn í hverja einustu mjólkurbúð í landinu. Það vita menn. Hann hefur lýst því yfir og hann vill að auki einkavæða tóbaksverslunina til þess að auðvelda fólki aðgang að tóbaki og auðvelda heildsölunum og þeim sem höndla með þessa vöru að koma þessum varningi í landslýð. Þetta er yfirlýst stefna hans. Hins vegar erum við fylgjandi því að fylgt sé aðhaldi í þessum efnum og stuðlað sé að hófsemi. Við viljum hins vegar að landsmenn sitji við sama borð. Sá ljóti leikur hefur hins vegar verið leikinn af Verslunarráðinu og hæstv. fjmrh. að reyna að koma óorði á umræðu okkar og reyna að koma óorði á ÁTVR, að reyna að grafa undan starfseminni til þess að geta einkavætt hana og það er ljótur leikur og það, hæstv. fjmrh., er tvískinnungur.