Ráðuneyti lífeyris, almannatrygginga og vinnumarkaðsmála

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 18:56:51 (4306)

1998-03-03 18:56:51# 122. lþ. 77.6 fundur 246. mál: #A ráðuneyti lífeyris, almannatrygginga og vinnumarkaðsmála# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[18:56]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um ráðuneyti lífeyris, almannatrygginga og vinnumarkaðsmála. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort rétt sé að færa saman undir eitt ráðuneyti málefni lífeyrissjóða og lífeyrissparnaðar, almannatrygginga, félagslegrar framfærslu og vinnumarkaðsmála, a.m.k. það sem lýtur að atvinnuleysisbótum og málefnum atvinnulausra. Sérstaklega verði hugað að kostum þess og göllum að gera slíka breytingu á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins með hliðsjón af þörfum fyrir samræmingu á þessu sviði.``

Það er ljóst, herra forseti, að mikil skörun er í þeim málaflokkum sem hér hafa verið taldir upp og þeir liggja á verksviði nokkurra ráðuneyta, þ.e. málefni sem tengjast lífeyristryggingum og lífeyrissparnaði heyra undir fjmrn. eins og þessu hefur verið fyrir komið í Stjórnarráði Íslands að undanförnu a.m.k. Allt sem lýtur að almannatryggingum og löggjöf á því sviði heyrir til trmrn. Stuðningur við atvinnulausa og málefni Atvinnuleysistryggingasjóðs eru hjá félmrn. og þar er reyndar einnig vistaður, eins og önnur málefni sveitarfélaganna, sá hluti af sveitarfélagalöggjöfinni sem snýr að framfærslustuðningi.

Herra forseti. Fleiri þættir koma inn í þetta samhengi. Þar má sérstaklega til taka skattkerfið sem er hjá fjmrn. og ýmiss konar tekjutenging bótaliða, utan og innan skattkerfisins. Þessir þættir eru aftur að sjálfsögðu nátengdir lífeyristryggingum og almannatryggingum og sérstaklega á það við þegar um aldraða er að ræða, en einnig í ýmsum tilvikum öryrkja eða hópa eins og námsmanna og þeirra sem fá stuðning til öflunar húsnæðis eða félagslegs húsnæðis.

[19:00]

Það er enginn vafi á því, herra forseti, að eitt af því sem hefur staðið löngu tímabærri endurskoðun og samræmingu á þessu sviði fyrir þrifum er þessi óheppilega verkaskipting eða öllu heldur dreifing þessa málaflokks innan Stjórnarráðsins. Það er skoðun flutningsmanns að það hljóti að koma sterklega til greina að gera annað tveggja, að stofna nýtt ráðuneyti sem taki við þessum verkefnum á öllu þessu málasviði frá fyrst og fremst fjmrn., heilbr.- og trmrn. og félmrn. eða að færa þessi mál öll saman til eins af þessum ráðuneytum, t.d. til félmrn. Þar kemur það til að heilbr.- og trmrn. er nú þegar mjög fyrirferðarmikið og það væri tæplega kostur að fara að bæta enn við það verkefnum þó í samræmingarskyni væri með því að færa til þess málefni lífeyrissjóðanna t.d. eða málefni atvinnulausra og framfærslumálefni sveitarfélaga. Fjmrn. er að mörgu leyti öðruvísi sett í stjórnsýslunni og það er ekki heppilegt að mínu mati að gera fjmrn. í ríkari mæli en nú þegar er að framkvæmdaráðuneyti sem annast framkvæmd málaflokka annarra en sjálfra ríkisfjármálanna. Ég hallast því að þeirri niðurstöðu, herra forseti, að yrði valin sú leiðin að stofna ekki sjálfstætt ráðuneyti heldur samræma starfsemi á þessu sviði og færa hana til eins af núverandi ráðuneytum sem um þessi mál fjalla, þá væri heppilegasti kosturinn að færa þetta til félmrn. Þar með, herra forseti, væru að mínu mati komnar forsendur fyrir því að samræma löggjöf og stjórnsýslu á þessu sviði. Á því er ekki lítil þörf eins og kunnugt er og ekki mun hún minnka á komandi árum, t.d. með stóraukinni hlutdeild aldraðra og eftirlaunaþega í okkar þjóðfélagi og þjóðarbúskap og sívaxandi umfangi þess málaflokks með tilkomu vaxandi lífeyrissparnaðar. Lífeyrissparnaðarkerfið, lífeyrissjóðirnir og lífeyrisréttindin þar, kemur í vaxandi mæli til með að tryggja afkomu þeirra sem komnir eru á eftirlaunaaldur og að sama skapi dregur það úr hlutverki ríkisins eða annarra aðila á því sviði. En áfram verður fyrir hendi þetta samspil kerfanna sem menn þekkja.

Ég er alveg sannfærður um það, herra forseti, að ein ástæðan fyrir því að erfiðlega hefur gengið eins og raun ber vitni að endurskoða almannatryggingakerfið er sú að sú vinna rekst umsvifalaust á samspil við aðra þætti, þ.e. skattkerfið, við lífeyrissjóðina og lífeyrissparnaðinn og fleira á þessu málasviði. Nú hefur þó þeim áfanga í þessum efnum verið náð að búið er að samræma og setja rammalöggjöf um starfsemi lífeyrissjóðanna. Það var gert á þessu ári og síðasta ári og þar áður var lokið sambærilegu verki hvað varðar lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Það situr hins vegar allt meira og minna við hið sama hvað varðar endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni og af þeim ástæðum eru ágætis tímamót til þess að fara í þetta verkefni nú.

Herra forseti. Í mínum huga er ekki verið að leggja til eina endanlega útfærslu þessara mála, enda væri þá ekki ástæða til þess að ganga til verka eins og hér er lagt til, að fela ríkisstjórninni að kanna þessi mál en upp á það hljóðar tillagan. Að sjálfsögðu koma fleiri mögulegar lausnir þarna til greina. Við getum sagt, herra forseti, að ein þeirra væri sú að gera ekki neitt að vandlega athuguðu máli, en það kæmi mér mjög á óvart ef það yrði niðurstaðan ef ekki væru gild rök og ríkir hagsmunir til þess að reyna að endurskipuleggja meðferð þessara mála innan Stjórnarráðsins í ljósi m.a. mikilla breytinga sem orðið hafa á löggjöf og hlutverkum. Þó ekkert annað kæmi til en uppbygging lífeyrissjóðanna á sl. 30 árum og það stóraukna hlutverk sem þeir munu hafa á komandi árum og þó ekkert annað kæmi til en t.d. breytt aldurssamsetning í þjóðfélaginu, þá væri rík ástæða til þess að fara í þessa vinnu hvort heldur það væri í sínu lagi eða að svo ekki sé talað um saman.

Ég leyfi mér að vona, herra forseti, að hógvær tillaga um vinnu af þessu tagi sem færi fram á vettvangi ríkisstjórnarinnar sjálfrar og væntanlega fyrst og fremst undir forustu hæstv. forsrh. sem fer með mál er varða verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og gefur út reglugerð um skipan ráðuneyta innan Stjórnarráðsins, fái góðar undirtektir og nái hér afgreiðslu. Ég sé í fljótu bragði ekki að menn geti haft á móti því að farið sé í þessa vinnu. Það þarf ekki að vera um að ræða einhver stórfelld útgjöld eða mannfreka starfsemi heldur fyrst og fremst hitt að farið verði skipulega yfir þetta af þeim sem til þess eru best bærir innan ráðuneyta og stjórnsýslunnar, að huga að kostum þess og þá göllum að gera slíka breytingu og samræma á einum stað framkvæmd og stjórnsýslu á þessu mikilvæga málasviði. Það er alveg ljóst, herra forseti, að þessi mál munu verða með vaxandi þunga á dagskrá á komandi árum. Við munum standa frammi fyrir sambærilegum hlutum að einhverju leyti og allar aðrar þjóðir sem búa við breytta aldurssamsetningu gera, þ.e. að málaflokkurinn í heild sinni sem snýr að almannatrygginga- og lífeyrissparnaðarmálum verður fyrirferðarmeiri og fyrirferðarmeiri eftir því sem aldurssamsetning samfélaganna breytist, líka vegna þess að menn gera kröfur um meiri fjárráð og betri lífskjör en menn kannski áður urðu að láta sér lynda eftir að komið er á þennan aldur og það tímabil í ævi hvers meðal-Íslendings varir lengur sem hann tilheyrir þessum hópi. Mér finnast því rökin öll hníga þarna í eina átt, herra forseti, að það sé skynsamlegt og tímabært að huga að starfi af þessu tagi sem hér er lagt til.

Mér sýnist, herra forseti, með hliðsjón af því að hér er um að ræða málefni sem varðar mörg ráðuneyti og yrði hvað framkvæmd snertir væntanlega fyrst og fremst á verksviði hæstv. forsrh., eðlilegast að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. allshn.