Hámarkstími til að svara erindum

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 19:19:44 (4308)

1998-03-03 19:19:44# 122. lþ. 77.10 fundur 405. mál: #A hámarkstími til að svara erindum# þál., Flm. GMS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[19:19]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um hámarkstíma sem Stjórnarráð Íslands og ríkisstofnanir mega hafa til að svara þeim erindum sem stofnununum berast. Þáltill. samhljóða þessari var lögð fram á 121. löggjafarþingi en var ekki afgreidd úr nefnd. Ég hef kynnt mér að umsagnir um þessa tillögu sem nefndinni bárust voru almennt mjög jákvæðar og því tel ég ástæðu til að flytja þáltill. að nýju.

Frá því að ég flutti þessa þáltill. á síðasta þingi hefur það komið upp að umboðsmaður Alþingis hefur orðið að gera athugasemdir við seinagang í afgreiðslu mála hjá fjmrn. eftir að í ljós kom að dregist hafði að svara tilteknu máli svo mánuðum skipti.

Þegar mælt var fyrir tillögunni á 121. löggjafarþingi rakti ég mörg dæmi þess að ráðuneyti hafi ekki svarað erindum jafnvel svo árum skiptir. Mér er ljúft að upplýsa það hér að eitt þeirra mála sem þá voru rakin hefur verið til lykta leitt eftir fjögurra ára biðtíma og þegar gengið var í það af hálfu ráðuneytisins að afgreiða það mál, þá tók það stuttan tíma og sýndi sig að lítil ástæða var að draga fyrirspyrjanda í fjögur ár á svari.

16. janúar sl. var haldin í Reykjavík ráðstefna sem Félag löggiltra endurskoðenda og Lögfræðingafélag Íslands héldu. Á ráðstefnunni kom fram hörð gagnrýni á tafir í skattkerfinu og hjá öðrum stofnunum þegar kæmi að því að afgreiða mál frá þessum stofnunum. Morgunblaðið hefur t.d. eftir einum frummælandanna, sem er einn af þekktustu löggiltu endurskoðendum landsins, að úrskurðir skattstjóra hafi oftlega dregist í marga mánuði fram yfir þann frest sem skattstjórunum er settur í lögum. Þetta er slæmt og afar óeðlilegt að ríkisstofnanir komist upp með slík vinnubrögð gagnvart almenningi sem þarf að leita til slíkra stofnana með erindi. Sárast af öllu er þó þegar sjálft Stjórnarráðið dregur að svara erindum sem þangað berast.

Ég gat þess þegar ég talaði fyrir þáltill. áður að á þeim tíma þegar ég starfaði í Stjórnarráðinu var þar ákveðinn hópur manna sem taldi farsælt að leggja ný mál sem bárust til hliðar og láta þau bíða í einhverjar vikur áður en litið væri á þau og þau afgreidd, sama hversu einfalt málið var. Þetta var talið auka tiltrú almennings á því sem stjórnsýslan gerði. Það var þó ekki alls staðar sem sá háttur var hafður á og t.d. var það svo með ráðuneytisstjórann í fjmrn., sem þá var Jón Sigurðsson, síðar forstjóri á Grundartanga, að hann setti starfsmönnum þá reglu að öllum erindum hvort sem þau voru stór eða lítil skyldi svarað innan sjö virkra daga frá því að þau bárust Stjórnarráðinu. Væri ekki unnt að verða við því að kveða upp úrskurð innan sjö daga, þá skyldi engu að síður fyrirspyrjanda svarað og greint frá því hvenær vænta mætti svars.

Ég held að það væri mjög einfalt, herra forseti, að setja upp slíka almenna reglu. Hún mundi flýta mjög afgreiðslu mála úr Stjórnarráðinu. Ég hef ekki trú á því að hún mundi draga úr gæðum þeirra úrskurða sem þar eru upp kveðnir því að ef það er svo að menn raunverulega þurfi lengri frest til að kanna einhver mál, þá er ekki nema sjálfsagt að menn taki sér hann, en mér finnst líka sjálfsögð kurteisi að menn láti heyra frá sér, láti mál ekki dragast í allt að fjögur ár eins og ég hef rakið dæmi um áður. Það er í ljósi þessa sem ég flyt þáltill. Það er von mín að ríkisstjórnin reki af sér slyðruorðið og grípi til aðgerða til að auka þjónustu Stjórnarráðsins og ríkisstofnana við almenning í landinu við það fólk sem borgar fyrir þá starfsemi sem fram fer í slíkum stofnunum.