Umfjöllun um skólastarf

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 13:37:16 (4310)

1998-03-04 13:37:16# 122. lþ. 78.1 fundur 455. mál: #A umfjöllun um skólastarf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 122. lþ.

[13:37]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég held að sú ákvörðun að birta helstu niðurstöður samræmdra prófa hafi orðið til þess að umræða um skólamál hefur aukist. Almenningur fær nú meiri upplýsingar en áður um árangur einstakra skóla og foreldrar vita betur um stöðu síns skóla miðað við aðra skóla. Þetta hefur einkennt umræðurnar á þeim tíma sem liðinn er frá því að þessar upplýsingar tóku að birtast.

Menntmrh. stóð fyrir málþingi um samræmd próf í nóvembermánuði 1997. Til þess þings var boðið fulltrúum ýmissa félaga, félagasamtaka og stofnana sem samræmd próf snerta á einhvern hátt. Á málþinginu var einkum fjallað um tilgang og skipan samræmdra prófa og hefur sú umræða reynst mjög gagnleg í vinnu við endurskoðun aðalnámskráa fyrir grunn- og framhaldsskóla sem nú stendur yfir.

Á málþinginu og á öðrum vettvangi hafa vissulega heyrst efasemdir um réttmæti þess að birta opinberlega niðurstöður einstakra skóla. Skólamenn óttast að foreldrar noti niðurstöðu samræmdra prófa eingöngu til að dæma um gæði skóla. Þessu má mæta annars vegar með því að láta ýmsar tölulegar upplýsingar fylgja niðurstöðum samræmdra prófa og hins vegar á þann hátt að skólarnir sjálfir koma á framfæri þeim skýringum sem þeir telja nauðsynlegar til að fólk utan skólans skilji niðurstöðurnar betur. Almennt tel ég því að þær upplýsingar sem við birtum nú auðveldi mjög umræður um samræmd próf og umfjöllun um stöðu skólanna.

Þá spyr hv. þm.: ,,Hvaða leiðir telur ráðherra færar til að auka umfjöllun um skólastarf í kjölfar birtingar á niðurstöðum samræmdra prófa svo að auknar upplýsingar leiði til þeirra umbóta í skólastarfi sem vænst er?``

Síðdegis í dag mun ég gera grein fyrir átaki menntmrn. til kynningar á námskrárgerðinni, undir kjörorðinu ,,Enn betri skóli``, sem ég vakti máls á hér í ræðustól í gær. Ég vona að ef sú kynning tekst sem að er stefnt þá muni það leiða til málefnalegrar umræðu um grunnskólann og framhaldsskólann. Ég tel að það gæti orðið til þess að menn áttuðu sig betur á því hvað þarf að gera á þessum skólastigum til að bæta skólana enn frekar.

Varðandi það að miðla sérstaklega upplýsingum sem tengjast samræmdu prófunum og stöðu skólanna í ljósi þeirra, þá held ég að þær upplýsingar sem við höfum ákveðið að gefa út auðveldi foreldrum að átta sig á stöðu skólanna og taka þátt í umræðum um stöðu skólans gagnvart öðrum skólum. Foreldraráðin hafa það hlutverk fyrst og fremst að gefa umsögn um skólanámskrá og aðrar áætlanir hvers skóla. Þessu hlutverki geta þau tæpast sinnt nema þau fái upplýsingar frá skólanum. Í 16. gr. grunnskólalaganna segir að skólastjóra sé skylt að starfa með foreldraráði og veita því upplýsingar um starfið í skólanum.

Í athugasemd með þessari grein í lögunum er sérstaklega tekið fram að foreldraráð eigi að fá upplýsingar um niðurstöður mats í starfi skólans. Samræmd próf eru hluti af slíku mati. Ég tel að foreldraráð eigi að ganga skipulega eftir því að fá upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa og útskýringar skólans á þeim. Vitneskja foreldraráðs um niðurstöður utanaðkomandi mælinga eins og samræmdra prófa og skilningur á stöðu skólans er ein forsenda þess að foreldraráð geti veitt skólanum öflugan stuðning.

Ég tel einnig að skólanefndir eigi að taka til umfjöllunar niðurstöður samræmdra prófa í skólum sem undir þá heyra. Þær eiga að hafa frumkvæði að því að koma á framfæri ítarlegum upplýsingum til að auðvelda skilning og túlkun á niðurstöðunum. Skólanefnd á samkvæmt lögum að fylgjast með námi og kennslu í skólahverfi sínu og gera tillögur um umbætur. Skólanefnd ber því að leita skýringa og bregðast við ef niðurstöður samræmdra prófa sýna að skóli víkur verulega frá því sem eðlilegt getur talist í árangri.

Jafnframt vil ég geta þess að í umræðum um niðurstöðurnar hafa einstaka skólastjórar látið þess getið að birting niðurstaðnanna hafi orðið til þess að þeir hafi tekið sig á í starfi. Einnig hefur náðst sá gleðilegi árangur að veruleg breyting hefur orðið á stöðu þeirra skóla eftir þann samanburð sem nú er hægt að stunda eftir að þessar upplýsingar liggja fyrir opinberlega.

Ég tel að það sem ég sagði hafi ræst og allar umræður um skólamál séu opnari, eftir að þessar upplýsingar komu fram. En ég ítreka að nú á næstu vikum mun menntmrn. beita sér fyrir alhliða umræðum um betra skólastarf, ,,Enn betri skóla``. Vonandi taka sem flestir þátt í þeim umræðum og leggja af mörkum svo að lokaáfangi í gerð námskránna fyrir grunnskólann og framhaldsskólann veki þann áhuga sem nauðsynlegt er til að það starf verði unnið sem best.