Umfjöllun um skólastarf

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 13:43:19 (4312)

1998-03-04 13:43:19# 122. lþ. 78.1 fundur 455. mál: #A umfjöllun um skólastarf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 122. lþ.

[13:43]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Svörin sem hann gaf voru aðallega um hvernig farið hefur verið með þessar upplýsingar inn á við og í næsta nágrenni skólans. Ég hef kannski frekar tekið eftir því hvernig fjölmiðlar hafa farið með þessar upplýsingar og hvernig fjallað hefur verið um þessar niðurstöður í þjóðfélaginu.

Ég var stödd í Bretlandi þegar þeir birtu fyrst upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa úr 4. bekk og 7. bekk. Þau próf eru eins og hjá okkur, í stærðfræði og móðurmáli. Ósjálfrátt hlýt ég að bera viðbrögðin saman. Alla vikuna sem ég dvaldi þá í Bretlandi var umfjöllun um þessi mál í fjölmiðlum. Skýringa var leitað og bæði leikir og lærðir tjáðu sig. Foreldrar, kennarar, sérfræðingar og stjórnmálamenn tóku þátt í umræðum sem fóru fram bæði í dagblöðum og í morgunþáttum sjónvarpsstöðvanna og smám saman kristölluðust í umræðunni tilteknir þættir sem menn einbeittu sér síðan að. Þeir þættir voru ræddir og metnir og mat lagt á ýmislegt fleira en aðeins það sem samræmdu prófin voru að mæla. Mér fannst mjög lærdómsríkt að fylgjast með þessari umræðu.

Ég hef satt að segja bundið vonir við að hér á landi gætum við þróað álíka umræðu um skólamál. Þess vegna held ég að sú kynning sem ráðherra segist nú vera að fara af stað með skipti verulegu máli. Umfjöllun fjölmiðla um hana skiptir máli, hversu margir og hverjir fá að koma að henni. Umræðan þarf að vera markviss og foreldrar, kennarar, sérfræðingar og stjórnmálamenn þurfa að taka þátt þannig að ljóst verði að skólinn er alvörumál í okkar þjóðfélagsumræðu en ekki aukamál sem menn rjúka endrum og sinnum upp með en gleymist síðan á milli.