Aðstaða landsmanna til að nýta sér ljósleiðarann

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 13:59:17 (4317)

1998-03-04 13:59:17# 122. lþ. 78.2 fundur 468. mál: #A aðstaða landsmanna til að nýta sér ljósleiðarann# fsp. (til munnl.) frá samgrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 122. lþ.

[13:59]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. samgrh. að umhugsunarefni er hvernig við snúum okkur í þessu máli. Og það er umhugsunarefni hvort hinir nýju samgöngumöguleikar eru verðlagðir í rauninni út af markaðnum um leið og möguleikar landsbyggðarinnar til að nýta þá eru gerðir að engu. Ég vil bæta inn í umræðuna því sem áður hefur komið hér fram og látið ómótmælt, að netfyrirtækin, þjónustufyrirtækin litlu sem eru að verða til úti um land, þurfa að greiða margfalt, tífalt og allt upp í tuttugufalt verð fyrir notkun sína á ljósleiðaranum miðað við þau fyrirtæki sem eru í Reykjavík. Þetta hlýtur að vera hægt að skoða og það hlýtur að vera hægt að nýta ljósleiðarann til að jafna aðstöðu fyrirtækja og fólks frekar en, eins og er í dag að mér sýnist, herra forseti, að beinlínis sé verið að verðleggja ákveðna þætti sem við gætum annars horft til sem vaxtarbrodda út af markaðnum.