Sjúkrasjóðir verkalýðsfélaga

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 14:08:25 (4322)

1998-03-04 14:08:25# 122. lþ. 78.3 fundur 482. mál: #A sjúkrasjóðir verkalýðsfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 122. lþ.

[14:08]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Stéttarfélög hafa í einhverjum mæli samið við atvinnurekendur um sjúkrasjóði fyrir félagsmenn sína. Þetta á þó ekki við um öll stéttarfélög. Því eru mismunandi réttindi á þessu sviði sem menn þurfa að búa við að ónefndum þeim sem eiga ekki aðild að stéttarfélögum.

Kostnaður sjúklinga og aðstandenda þeirra á landsbyggðinni er mjög mikill við að sækja læknisþjónustu, t.d. til höfuðborgarsvæðisins þar sem við höfum byggt upp megnið af sérfræðilæknisþjónustu landsins. Nægir þar að nefna ferðakostnað, dvalarkostnað og vinnutap. Sjúkrasjóðir stéttarfélaganna á landsbyggðinni hafa sumir hverjir stutt félagsmenn sína til ferða- og dvalarkostnaðar vegna ferða í lækningaskyni þar sem Tryggingastofnun hefur ekki talið sér skylt að greiða ferðakostnað.

Því hefur verið haldið fram að Tryggingastofnun hafi túlkað reglugerð um ferðakostnað sjúklinga innan lands mjög þröngt í trausti þess að sjúkrasjóðirnir hjálpuðu til. Orð hæstv. heilbrrh. á síðasta þingi um framkvæmd þeirrar reglugerðar hafa rennt stoðum undir þann málflutning.

Það er augljóst að ferðakostnaður þeirra sjúklinga sem lengst eiga að sækja læknisþjónustu er mjög mikill. Reglugerð Tryggingastofnunar er þannig að ekki er sama hvers eðlis sjúkdómarnir eru hvort ferðakostnaður vegna þeirra er greiddur. Dæmi sem Tryggingastofnun ríkisins útilokar eru t.d. flest beinbrot, bráðir gallsjúkdómar og annar sjúkleiki þar sem sársauki og vanlíðan eru m.a. hvati bráðainnlagnar. Ferðakostnaður getur verið mikill, ég get t.d. nefnt Vopnafjörð, þar kostar flug fyrir fullorðinn 15.130 kr. og ef foreldri er með sjúkt barn er ferðakostnaðurinn 24.490 kr. eingöngu fyrir flugið og á þá eftir að ferðast til og frá flugvelli.

Samkvæmt upplýsingum mínum eru dæmi um að ferðakostnaðurinn og sjúkradagpeningar séu jafnstórir útgjaldaþættir fyrir suma sjúkrasjóði stéttarfélaga á landsbyggðinni. Því má draga þær ályktanir að þeir sjóðir séu ekki eins vel í stakk búnir til að greiða aðra útgjaldaþætti félagsmanna sinna vegna sjúkrakostnaðar, svo sem sjúkradagpeninga.

Hæstv. forseti. Ég vil því leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. félmrh.:

1. Hvaða stéttarfélög hafa samið um sjúkrasjóði fyrir félagsmenn sína:

a. stéttarfélög á almennum vinnumarkaði,

b. félög opinberra starfsmanna?

2. Hvað verja stéttarfélög stórum hluta sjúkrasjóða sinna til að greiða niður ferðakostnað sjúklinga innan lands, skipt eftir kjördæmum?

3. Eru réttindi launþega í sjúkrasjóðum stéttarfélaga mismunandi eftir kjördæmum?