Sjúkrasjóðir verkalýðsfélaga

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 14:11:43 (4323)

1998-03-04 14:11:43# 122. lþ. 78.3 fundur 482. mál: #A sjúkrasjóðir verkalýðsfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 122. lþ.

[14:11]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Til þess að hafa einhver tök á að svara fyrirspurninni svo viðunandi sé var þess farið á leit við ASÍ að það veitti ráðuneytinu nauðsynlegar upplýsingar. Í þar að lútandi bréfi var vakin athygli á því að rétt væri að kanna samspil greiðslna Tryggingastofnunar og einstakra sjúkrasjóða þar sem e.t.v. væri hugsanlegt að sumir sjúkrasjóðir gangi að verulegum hluta til ferðakostnaðar sem Tryggingastofnunin ætti að greiða og þeir gætu því ekki sinnt upprunalegu hlutverki sínu sem skyldi.

Um fyrstu spurninguna er það að segja að til sjúkrasjóða stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði var upphaflega stofnað í kjarasamningum á milli samtaka atvinnurekenda og samtaka launafólks. Sjóðirnir öðluðust síðan stoð í lögum nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, og í lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Í 5. og 6. gr. laga nr. 19/1979 segir að verkafólk skuli eigi missa neins í af launum, í hverju sem þau eru greidd, eftir eitt ár í starfi í einn mánuð og á fyrsta ári tvo daga fyrir hvern unninn mánuð. Markmið sjúkrasjóðanna er að taka við greiðsluskyldu í veikinda- og slysatilfellum þegar veikindagreiðslur atvinnurekenda falla niður. Sjóðirnir vinna að þessu markmiði með því að veita sjóðsfélögunum fjárhagsaðstoð í veikinda-, slysa- og dánartilvikum. Sjóðfélagar eru þeir taldir sem hafa greitt iðgjaldið eða atvinnurekandi hefur greitt af þeim iðgjald til sjóðsins. Í þessum lögum er einnig skylda atvinnurekenda að greiða 1% af útborguðu kaupi í sjúkrasjóði viðkomandi stéttarfélags nema um hærri greiðslur hafi verið samið í kjarasamningum.

Þá er öllum atvinnurekendum skylt að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni og samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina. Af framangreindum ákvæðum leiðir að öllum atvinnurekendum er skylt að greiða til sjúkrasjóða stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Í einstökum kjarasamningum getur verið ákveðið hærra framlag en 1%. Fullyrða má að öll stéttarfélög á almennum vinnumarkaði hafi sjúkrasjóði en þau eru á milli 200--300 talsins. Þess skal getið að í öllum kjarasamningum aðildarfélaga Verkamannasambands Íslands er vísað til 7. gr. laga nr. 19/1979. Af framangreindu leiðir enn fremur að sjúkrasjóðir eru skylduaðildarsjóðir.

Að því er varðar félög opinberra starfsmanna er því til að svara að ekkert aðildarfélag BSRB hefur samið um sjúkrasjóði en félagsmenn hafa þess í stað rétt til launa í fjarveru vegna veikinda, samanber reglugerð nr. 411/1989. Samkvæmt upplýsingum BSRB mun vera í undirbúningi samningur um sjúkrasjóð milli Félags íslenskra símamanna og Póstmannafélags Íslands, við Landssímann hf. og Íslandspóst hf.

[14:15]

Sama gegnir um aðildarfélög BHM. Aðildarfélög þess hafa ekki samið um greiðslu í sjúkrasjóði og samkvæmt upplýsingum BHM semja sum aðildarfélög bandalagsins fyrir háskólamenn sem starfa hjá einkafyrirtækjum. Í slíkum samningum mun það vera undantekning að samið sé um greiðslu iðgjalds í sjúkrasjóð. BHM hefur upplýst að vaxandi hópur félagsmanna er að hefja störf hjá einkafyrirtækjum. Þá hafi miðstjórn Bandalags háskólamanna ákveðið í janúar sl. að leggja fyrir aðalfund bandalagsins í apríl 1998 að stofnaður verði einn sameiginlegur sjúkrasjóður aðildarfélaganna. Gert er ráð fyrir að í framhaldinu verði samið við einstök fyrirtæki og eftir atvikum samtök atvinnurekenda um framlög í þennan sjúkrasjóð.

Önnur spurningin lýtur að stuðningi sjóðanna við mismunandi viðfangsefni. Í því er rétt að vekja athygli á því að í lögum er ekki að finna ákvæði um eftirlitsskyldu opinberra aðila, hvorki með fjárreiðum sjúkrasjóða né reglugerðum um skipan stjórna eða aðra starfsemi. Í þessu felst að ekki eru tiltækar upplýsingar um hlutfallið milli styrkja einstakra verkefna, t.d. vegna styrkja til að greiða niður ferðakostnað sjúklinga innan lands, skipt eftir landshlutum. Í bréfi ASÍ er staðfest að engar samandregnar upplýsingar liggi fyrir um stuðning vegna greiðslu ferðakostnaðar og bent á að það sé ekki ein af frumskyldum sjóðanna samkvæmt skilgreindum tilgangi þeirra.

Þriðja spurningin fjallar um það hvort réttindi launafólks séu mismunandi eftir landshlutum. Við athugun hefur framangreint verið sannreynt. Réttindi sjóðfélaga í sjúkrasjóðum, herra forseti, eru mjög mismunandi og fara fyrst og fremst eftir styrk hlutaðeigandi stéttarfélags. Öflugasti sjúkrasjóðurinn er á vegum Verslunarmannafélags Reykjavíkur.