Sjúkrasjóðir verkalýðsfélaga

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 14:17:15 (4324)

1998-03-04 14:17:15# 122. lþ. 78.3 fundur 482. mál: #A sjúkrasjóðir verkalýðsfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 122. lþ.

[14:17]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mér fannst það athyglisvert sem kom fram í svarinu að það skyldi ekki vera samið um sjúkrasjóði hjá félögum opinberra starfsmanna. Það segir manni þá að þeir njóta ekki þess hagræðis sem launþegar sem eru í stéttarfélögum á almennum vinnumarkaði njóta varðandi þá greiðslu sem sjúkrasjóðirnir hafa innt af hendi vegna ferðakostnaðar sjúklinga til að afla sér læknisþjónustu. Ég tel nauðsynlegt að fá frekari upplýsingar um þessi málefni. Þó svo að sjúkrasjóðirnir hafi ekki upplýsingaskyldu, þá tel ég nauðsynlegt að upplýsingar séu aðgengilegar til að betur sé hægt að gera sér grein fyrir raunverulegum kostnaði við heilbrigðisþjónustuna í landinu. Ferðakostnaður þeirra sem lengst eru frá þjónustunni er sannarlega kostnaður við heilbrigðiskerfið. Spurningin er einungis hver eigi að bera þann kostnað. Það segir sig sjálft að þegar sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna sem lengst eru frá sérfræðiþjónustunni eru farnir að bera verulegan hluta af kostnaðinum við ferðakostnað sjúklinga þá eru þeir ekki færir um að sinna öðrum þáttum. Ég hef fengið upplýsingar um að sjúkrasjóðir stéttarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið þátt í ýmsum fyrirbyggjandi ráðstöfunum, svo sem heilsurækt, krabbameinsskoðunum og fleiri þáttum, sjúkranuddi, sjúkraþjálfun, gleraugnakostnaði og fleiru slíku. Munurinn á þessu er þó alltaf fjarlægðin frá sérfræðiþjónustunni.