Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 14:43:14 (4329)

1998-03-04 14:43:14# 122. lþ. 79.1 fundur 354. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 122. lþ.

[14:43]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta frv. er lagt fram öðru sinni og eins og fram kom á síðasta þingi studdi ég frv. og fannst það þá vera hið besta mál og er þeirrar skoðunar enn þann dag í dag, ekki síst vegna þess að á þeim tíma sem liðinn er kynntist ég því m.a. að mjög gott verkefni á sviði kvikmyndagerðar sem hafði fengið loforð fyrir ákveðnum framlögum hér, þó mjög lágum, ónýttist vegna þess að erlendir aðilar sem hugðust styrkja kvikmyndagerðina drógu sig til baka á þeirri forsendu að við sjálf hér heima hefðum ekki nægilega mikla trú á verkefninu vegna þess að framlögin sem því voru ætluð voru svo lág. Við höfum úr mjög takmörkuðu fjármagni að spila hjá Kvikmyndasjóði og oft og tíðum er þar um að ræða aðeins það fjármagn sem þarf til þess að byrja á verkefni sem þarf á verulega miklum fjármunum að halda. Ég tel að þetta frv. ýti undir það og geri það fýsilegan kost að fyrirtæki eða stofnanir styrki þessa starfsemi hvort sem er á sviði kvikmyndagerðar eða annarra listgreina. Það geta eins verið bókmenntaverk og það geta verið leiksýningar. Ég trúi því að þetta geti orðið sérstök lyftistöng fyrir áhugaleikfélög úti á landi sem svo sannarlega veitir ekki af.

Ég styð frv. heils hugar og bendi á að fyrir ekki mörgum árum síðan var samþykkt sérstaklega að framlög fyrirtækja til starfsemi stjórnmálaflokka væru frádráttarbær frá skatti. Hafi verið þörf á því, þá er þetta nauðsynlegt verkefni.