Innlend metangasframleiðsla

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 15:00:58 (4333)

1998-03-04 15:00:58# 122. lþ. 79.2 fundur 357. mál: #A innlend metangasframleiðsla# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 122. lþ.

[15:00]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Umhverfisáhrif í heiminum hafa leitt alþjóðasamfélagið til mikillar umræðu um stöðu þessara mála, ekki síst þeirrar mengunar, loftmengunar sem jafnvel er talið að farin sé að ógna lífi á jörðinni. Þess vegna má segja að um heim allan sé verið að leita leiða til þess að draga úr þessari mengun og horfa til þess að nýta það sem kalla má ,,vistvæna orkugjafa``. Ég hygg að það sé ekki umdeilt að það sé afskaplega mikilvægt að fara fram á sem flestum sviðum hvað þetta snertir og finna sem flestar leiðir til þess að nýta þá orkugjafa sem fyrir hendi eru, leita þeirra til að hægt sé að draga úr þeirri mengun sem er svo mjög farin að ógna jarðríki.

Jafnvel má ganga svo langt að segja að það þurfi að beita öllum hugsanlegum og tiltækum ráðum og beita öllum hugsanlegum ráðstöfunum til að efla rannsóknir á þessu sviði og að finna farveg þeim leiðum sem á annað borð tekst að finna. Ég tel einmitt að sú þáltill. sem er til umræðu sé ein af þeim leiðum sem á er bent og hlýt þess vegna að taka mjög undir þau markmið sem sett eru fram með tillögunni eins og kynnt eru í ágætri greinargerð og framsöguræðu hv. þm. Kristján Pálssonar. Hér er sem sé verið að benda á eina af mörgum leiðum til að nýta orkulindir landsins.

Eins og fram kemur í greinargerð og í framsögu er metangas afskaplega mikill mengunarvaldur en um leið felst í því mikil orka sem er nýtanleg með ýmsum hætti. Þar er sérstaklega bent á ýmiss konar ökutæki og ekki síður á möguleika að nýta metangasið í stóriðju og gæti það þá haft tvöföld áhrif, þ.e. í stað þess að hleypa metangasinu óheftu út í andrúmsloftið með tilheyrandi mengunaráhrifum þá gæti það nýst sem orkugjafi í stóriðju, m.a. í Hvalfirði, og dregið þar með úr olíunotkun. Mér er kunnugt um að Sorpa hf. hefur verið að skoða þetta og gefur vissulega bjartar vonir.

Segja má að með því að nýta metangasið á skynsamlegan hátt hafi það margföld áhrif, umhverfisáhrif, eins og hér hefur ítrekað verið nefnt. Það hefur langtímaefnahagsáhrif og þau jákvæð, það getur dregið úr þörf okkar á að kaupa dýra orkugjafa erlendis frá og þar að auki, sem ekki síður hefur mikilvægt gildi, veitir það okkur ákveðna þekkingu og reynslu og ýtir þar með undir frekari rannsóknir og tæknivitund meðal þjóðarinnar.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason dró mitt nafn óverðskuldað inn í umræðuna en það er rétt að ég stýri nefnd á vegum iðnrn. sem fjallar ekki eingöngu um möguleika vetnis heldur um möguleika á nýtingu innlendra orkugjafa. Einn þeirra þátta sem sú nefnd hefur skoðað er einmitt metangasið og ég vil sérstaklega í tilefni af því fagna því að þessi tillaga er komin fram og með þeim markmiðum sem sett eru fram með henni. Ég tel að þau falli mjög vel að því starfi sem nefnd um leit að nýtingu innlendra orkugjafa er að vinna að.

Í þessu sambandi má nefna að ESB-þjóðir hafi einsett sér það markmið að auka nýtingu vistvænna orkugjafa úr 5% að meðaltali, á móti 67% hjá okkur, upp í 12% á tíu árum. Hjá sumum þessara þjóða er fyrst og fremst horft til svonefnds ,,biomassa``, og ætla sér að nýta verulega orku sem kemur m.a. af sorphaugum og úrgangi ýmiss konar úr skógariðnaði, sorphaugum og þannig má áfram telja. Þar hefur tækninni fleygt verulega fram og þar eru hlutir sem við eigum að geta horft til og ég lít svo á að þáltill. taki m.a. mið af því.

Ég fagna tillögunni og ítreka það sem ég nefndi áðan að ég tel að við eigum að fara fram á sem flestum sviðum til þess að draga úr mengun og að nýta þá hugsanlegu orkugjafa sem eru til staðar og vona að tillagan fái farsæla afgreiðslu á hv. Alþingi.