Verslun með áfengi og tóbak

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 15:11:30 (4335)

1998-03-04 15:11:30# 122. lþ. 79.3 fundur 394. mál: #A fyrirkomulag áfengisverslunar# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 122. lþ.

[15:11]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á fyrirkomulagi áfengisverslunar. Þetta er bandormur sem breytir tvennum lögum um áfengismál. Það eru í fyrra lagi breytingar á áfengislögum, nr. 82/1969, og síðan breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 63 frá sama ári. Frv. felur í sér ýmsar úrbætur á fyrirkomulagi áfengisverslunar sem við flm., sá sem hér talar og hv. þm. Ögmundur Jónasson, teljum skynsamlegt og rétt að gera og mun ég fara yfir það nánar þegar ég rek efni frv.

Ég held að rétt sé að það komi fram strax, herra forseti, til að fyrirbyggja allan hugsanlegan misskilning, að tillögumenn eru eindregnir talsmenn þess að ríkið eða hið opinbera hafi áfram með höndum dreifingu þessarar vöru. Við styðjum einkaverslun ríkisins með áfengi og tóbak en teljum hins vegar mikilvægt til þess að sátt geti ríkt um það fyrirkomulag að fyrirtækinu eða stofnuninni Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sé gert kleift að veita viðskiptavinum sínum nútímalega þjónustu og á jafnræðisgrundvelli um land allt eftir því sem kostur er. Í huga okkar er enginn vafi að það að ríkið haldi áfram einkarétti til að versla með áfengi í smásölu og flytja inn og selja tóbak í heildsölu er mjög mikilvægur hluti af hófsamlegri og skynsamlegri aðhaldsstefnu í áfengis- og vímuvarnamálum.

Það er ótvíræð reynsla Íslands og flestra annarra ríkja á Norðurlöndunum, sem að Dönum undanskildum hafa byggt á svipaðri stefnu að þessu leyti og við gerum, og reyndar fleiri þjóða, að slíkt fyrirkomulag sé mjög áhrifaríkt tæki í höndum stjórnvalda til að fylgja fram aðhaldssamri stefnu. Aðhaldssöm stefna í áfengis-, tóbak- og vímuefnamálum er aftur mikilvægur hluti af heilbrigðis-, félagsmála- og velferðarmarkmiðum viðkomandi ríkja.

En eins og áður sagði, herra forseti, til þess að góð sátt geti haldist um þá tilhögun að ríkið hafi smásöludreifingu áfengis með höndum er nauðsynlegt að þjónusta við viðskiptavini geti þróast í takt við breytta tíma og kröfur eftir því sem samrýmist hinni opinberu áfengisstefnu. Því eru í frv. lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum áfengislaga og laga um verslun með áfengi og tóbak.

[15:15]

Það má benda á landsvæði þar sem ekkert eitt sveitarfélag nær íbúatölunni þúsund en mörg þúsund manna byggð er á bak við og verður þar af leiðandi af þessari þjónustu og þarf að sækja hana um langan veg með tilheyrandi kostnaði.

Í öðru lagi hefur ákvæði í áfengislögum sem felur það í sér að áfengi megi einungis selja gegn staðgreiðslu verið túlkað þannig að óheimilt sé að taka við greiðslum með krítarkortum og er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að verða nánast ein eftir í landinu sem ekki má taka við greiðslum á þann hátt. Það er að sjálfsögðu ekki vel til vinsælda fallið og í raun með öllu ástæðulaust að gera þennan greinarmun á og þess vegna leggjum við einnig til að þetta ákvæði verði fellt niður.

Þá verði rýmkaðir möguleikar til að láta afgreiðslutíma áfengisverslana fylgja afgreiðslutíma verslana almennt, t.d. í stórmörkuðum eða verslunarmiðstöðvum. Þar sem áfengisútsala er til húsa innan um aðrar verslanir er eðlilegt að meira svigrúm sé fyrir hendi til að opnunartími geti verið í samræmi við það sem tíðkast með aðrar verslanir. Að sjálfsögðu yrðu þá settar um þetta sérstakar reglur.

Í fjórða lagi leggjum við til að breytt verði ákvæði um stjórn ÁTVR sem fjmrh. hefur einn skipað fyrirtækinu síðan 1995 og í fimmta lagi leggjum við til að stofnað verði embætti þjónustufulltrúa við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

Þessar breytingar, herra forseti, leggjum við til, eins og áður sagði, til að þjónusta fyrirtækisins geti þróast á eðlilegan hátt að því við teljum, og til að stofnunin sé ekki heft af lagaákvæðum eða af valdi ráðherra sem geri henni ókleift að koma til móts við eðlilegar kröfur viðskiptavina sinna sem aftur kosti það að stofnunin fái á sig óvinsældir og verði auðveldari bráð þeirra sem vilja hana feiga, vilja koma óorði á þetta fyrirkomulag í pólitískum tilgangi til að koma því fyrir kattarnef. Það er enginn vafi á því, herra forseti, að slíkar tilraunir hafa verið í gangi undanfarin missiri. Það hefur verið legið á öllum óskum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins um að fá fram breytingar af þessum toga. Það hefur verið legið svo árum nemur á beiðnum um að stofna nýjar áfengisútsölur í stórum sveitarfélögum sem fyrir löngu hafa samþykkt það í almennum atkvæðagreiðslum að þær vilji fá slíka þjónustu á staðinn. Ég get tekið Dalvík sem dæmi þar sem legið hefur fyrir slík beiðni um árabil, a.m.k. núna í ein tvö, þrjú ár en af einhverjum undarlegum ástæðum er daufheyrst við slíkum óskum úr fjmrn. Þetta þjónar ekki því markmiði sem við viljum tala og beita okkur fyrir, þ.e. að reynt verði að hafa góða sátt um það fyrirkomulag hér eftir sem hingað til að ríkið haldi áfram einkarétti sínum til verslunar með þennan varning.

Ég mun nú, herra forseti, rekja lítillega einstakar greinar frv. og skýringar við þær. Í 1. gr. er lögð til sú breyting á 1. mgr. 10. gr. áfengislaga að málsgreinin orðist svo:

,,Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er að fengnu samþykki fjármálaráðherra heimilt að setja á stofn útsölustaði áfengis. Staðarval skal miðast við að vörudreifing sé sem sambærilegust um land allt að teknu tilliti til hagkvæmni í rekstri og aðstæðna á hverjum stað, m.a. fjarlægðar frá öðrum útsölustöðum.``

Hér er lagt til að brott falli í fyrsta lagi það ákvæði núgildandi 1. mgr. 10. gr. áfengislaga, að heimild ríkisstjórnarinnar, eins og það er nú reyndar orðað, til að setja á stofn útsölustaði áfengis sé bundin við að meiri hluta íbúanna í þéttbýli og íbúafjöldi hafi náð a.m.k. 1.000 í þrjú ár samfellt þurfi til. Áfram mun að sjálfsögðu gilda það ákvæði 10. gr. að meiri hluti samþykki útsölu í almennum kosningum í viðkomandi sveitarfélagi. Það orðalag er einnig orðið fullkomlega óeðlilegt að það sé bundið við ríkisstjórnina sjálfa að heimila slíka útsölu. Eðlilegast er að það vald liggi hjá fyrirtækinu eða stofnuninni Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins en ráðherra staðfesti tillögur fyrirtækisins. Í stað núgildandi ákvæðis um 1.000 íbúa lágmark kemur það orðalag að stefnt skuli að því að vörudreifing verði sem sambærilegust um land allt að teknu tilliti til aðstæðna, þar með talið fjarlægðar frá útsölustöðum en einnig hagkvæmni. Þetta orðalag dregur dám af ákvæðum 23.--26. gr. reglugerðar nr. 607/1995, um ÁTVR. Og eðlilegt er, eins og áður sagði, að frumkvæði hvað þennan þátt þjónustufyrirtækisins við landsmenn snertir sé í höndum fyrirtækisins sjálfs en afla skuli samþykkis ráðherra.

Í 2. gr. er lagt til að 13. gr. laganna falli brott. Í 13. gr. er kveðið á um að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins megi aðeins afhenda áfenga drykki gegn staðgreiðslu. Það hefur verið túlkað þannig að ÁTVR hefur í útsölum sínum ekki treyst sér til að taka við greiðslum með krítarkortum þar sem slíkt sé lánssala eða ekki staðgreiðsla samkvæmt þröngri túlkun eða skilgreiningu laganna. Það gera hins vegar nánast allir aðrir aðilar og sennilega allir aðrir aðilar sem veita eða selja áfengi, þar með talið vínveitingastaðirnir að sjálfsögðu, fríhafnir o.s.frv. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að öllum sé þarna gert jafnhátt undir höfði og að 13. gr. laganna falli brott, enda má segja að viðskipti með krítarkortum sé ákveðið form staðgreiðslu og þeim sem við greiðslukvittuninni tekur er í lófa lagið að gera sér verðmæti úr henni, þess vegna nær samstundis eins og kunnugt er.

Í 3. gr. er lagt til að 1. mgr. 14. gr. áfengislaganna falli brott. Í þeirri grein eru þau ákvæði sem kveða á um að áfengissölubúðir skuli vera lokaðar á ýmsum hátíðis- og helgidögum og í tengslum við kosningar og einnig eftir hádegi á laugardögum. Þessi upptalning og þar með talið eftirmiðdagur á laugardögum gerir það að verkum að svigrúm ÁTVR til að koma til móts við óskir um rýmri opnunartíma eða samræmdan opnunartíma með öðrum aðilum, t.d. í verslunarmiðstöðvum, er að þessu leyti mjög takmarkað.

Í 15. gr. áfengislaga er heimild til dómsmrh. til að setja reglur um sölu og veitingar áfengis. Það er eðlilegast að afgreiðslutími verslana ÁTVR takmarkist af slíkum reglum eftir því sem ástæða væri talin til í tengslum við opinbera stefnu í áfengismálum líkt og starfsemi vínveitingahúsanna gerir. Við teljum því að eðlilegast sé að þessi grein falli brott en dómsmrh. beiti heimildum sínum í öðrum greinum laganna til að setja reglur í takt við aðstæður um afgreiðslutíma verslana ÁTVR.

Þá er í 4. gr., herra forseti, komið að breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum nr. 63/1969. Þar leggjum við til að í stað 3. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna komi ný málsgrein er orðist svo:

,,Stjórn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skal skipuð fimm mönnum, kosnum hlutfallskosningu á Alþingi að afloknum alþingiskosningum til fjögurra ára í senn. Stjórnin gefur umsögn til ráðherra um ráðningu forstjóra, sbr. 1. mgr. Stjórnin skal einnig vera ráðherra, forstjóra og starfsfólki til ráðuneytis um rekstur fyrirtækisins og fylgjast með því að hann sé í samræmi við lög og reglur. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um verksvið og skipulag stjórnarinnar.``

Því er þetta lagt til, herra forseti, að ákvæðin sem nú er stuðst við um stjórn ÁTVR frá 1995 fela það eitt í sér að fjmrh. skipar einn stjórn fyrirtækisins og ákveður verksvið hennar. Í reynd var lætt inn í frv. sem hér var til umfjöllunar á vordögum 1995 mjög opinni heimild til handa fjmrh. til að setja eftir eigin geðþótta stjórn yfir þetta fyrirtæki og ráða jafnframt verksviði hennar, og allt er það með reglugerð. Deildar meiningar hafa, svo vægt sé til orða tekið, verið um framgöngu stjórnarinnar frá því hún tók til starfa, einkum að því leyti sem hún hefur beitt sér sem stefnumótandi aðili í áfengismálum fremur en rekstrarleg eða fagleg stjórn fyrirtækisins eða stofnunarinnar ÁTVR. Það var hins vegar boðað og kynnt þegar mælt var fyrir þeim breytingum á hinu háa Alþingi að eingöngu skyldi verða um slíka faglega eða rekstrarlega stjórn að ræða. Það var aldrei tekið fram að ætlunin væri að setja á fót sérstakan vinnuhóp undir handarjaðri fjmrh. til að koma á framfæri hugðarefnum hans um mótun áfengisstefnu í landinu. Það var aldrei tekið fram að þetta ætti að verða einhvers konar hliðarbatterí við áfengisvarnaráð eða einhver nýr stefnumótandi aðili á þessu sviði.

Með hliðsjón af því að ÁTVR hefur mikla sérstöðu má vel færa fram rök fyrir því að þarft sé að fyrirtækinu sé sett stjórn. Og sé hún til staðar á annað borð er eðlilegast að hún væri kosin af Alþingi. Þá hafi stjórnin m.a. það hlutverk að tryggja að rekstur og öll starfsemi fyrirtækisins sé á hverjum tíma í samræmi við lög og reglur og opinbera stefnu í áfengis- og tóbaksvörnum og vímuvarnamálum. Með öðrum orðum, stjórnin hafi skýr lagafyrirmæli um það að hún skuli tryggja að starfsemi fyrirtækisins sé í samræmi við mótaða áfengisstefnu á hverjum tíma, en ekki taka það sem sitt hlutverk að breyta þeirri stefnu eins og veruleikinn hefur verið á undanförnum missirum. Það hlýtur að vera fullkomlega óþolandi t.d. fyrir hæstv. heilbrrh. sem fer með forvarnamál að hafa síðan á bakinu, ef svo má að orði komast, stjórn setta af öðrum ráðherra sem tekur sér það fyrir hendur sem stjórn ÁTVR hefur gert á undanförnum mánuðum, svo ekki sé minnst á dómsmrh. sem áfengislög heyra undir. Þessi verkaskipting er fullkomlega óeðlileg, herra forseti, nema alveg skýrt sé afmarkað það hlutverk sem stjórn ÁTVR hefur.

Að lokum, herra forseti, eru í 5. gr. lagðar til breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak og þær eru að 7. gr. þeirra laga orðist svo:

,,Hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal starfa þjónustufulltrúi. Hann skal tryggja að þjónusta við viðskiptavini sé vönduð og jafnframt annast kynningu á starfsemi fyrirtækisins eftir því sem samrýmist lögum þessum, áfengislögum og öðrum lagafyrirmælum og reglum á hverjum tíma.``

Þetta er lagt til, herra forseti, af því að ljóst er að þarna er komið að einum vandasamasta þættinum í stöðu og starfsemi þessa fyrirtækis, þ.e. hvernig það er samrýmt að framfylgja þeirri aðhaldssömu stefnu sem stjórnvöld móta í þessum málum á hverjum tíma og endurspeglast m.a. í einkarétti Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til sölu á áfengi, og á hina hliðina fullnægja þeim kröfum sem eðlilega eru gerðar um kynningu á þeirri vöru sem þarna er á boðstólum og því hvernig tekið er á þáttum sem lúta að þjónustu fyrirtækisins og eðlilegum og réttmætum óskum í því sambandi. Það er alveg ljóst að það er vandasamt hlutverk að samrýma þetta tvennt. Mörkin milli þess að kynna á eðlilegan hátt þá vöru og þá þjónustu sem þarna er á boðstólum og hins að lenda í því að brjóta skýlaust bann í lögum um auglýsingar á áfengi eru ekki alltaf glögg. Við þennan vanda eru menn m.a. að glíma á hinum Norðurlöndunum í kjölfar úrskurða Eftirlitsstofnunar Evrópska efnahagssvæðisins sem að sínu leyti hefur gleðilega staðfest að ríkiseinkasölurnar á Norðurlöndunum séu samrýmanlegar samkeppnislöggjöf Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins. En að hinu leytinu hafa úrskurðirnir jafnframt sagt að nauðsynlegt sé að unnt væri að kynna á eðlilegan hátt þá vöru og þá þjónustu sem þarna er á boðstólum og tryggja eðlilegan aðgang nýrra aðila. Ég held að mjög mikilvægt sé að ÁTVR verði nú þegar gert kleift að axla þetta nýja hlutverk. Við flutningsmenn frv. teljum að það verði best gert með því að stofnunin fái skýra lagaheimild til að stofna embætti þjónustufulltrúa. Hlutverk þjónustufulltrúa verði einkum og sér í lagi að leysa það vandasama verkefni að samræma annars vegar þjónustuna og kynningu á vöru og þjónustu fyrirtækisins og hins vegar þeim ströngu reglum sem uppfylla þarf samkvæmt áfengislöggjöfinni, þar með talið auglýsingabanninu sem þar er, og á hina hliðina þeim reglum sem við neyðumst til að fella okkur undir hvað varðar Evrópuréttinn og stöðu ríkiseinkasölunnar eða ríkiseinkasalnanna í því samhengi.

[15:30]

Herra forseti. Að gefnu tilefni er óhjákvæmilegt að taka fram hve sérstaklega mikilvægt og ánægjulegt er að ríkiseinkasölurnar á Norðurlöndunum skyldu sleppa í gegnum hreinsunareldinn að þessu leyti. Enginn vafi leikur á því að þar er helst að þakka þeim fyrirvara sem laminn var inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem ríkisstjórnir fjögurra Norðurlandanna vísuðu til þess að ríkiseinkasölurnar væru hluti af heilbrigðis- og félagsmálastefnu viðkomandi landa. Þess vegna er afar mikilvægt að verja þetta fyrirkomulag. Hins vegar er ljóst að ýmsir hér á Íslandi hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með að ESA skyldi ekki reynast þeim það tæki sem þeir vonuðu. Auðvitað er alveg ljóst að Verslunarráðið, sem verið hefur í fararbroddi við að kæra Íslendinga til útlanda fyrir að halda í sitt skipulag á svona hlutum, varð fyrir miklu sálrænu áfalli og hefur meira og minna verið dasað síðan Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins felldi þann úrskurð að ríkiseinkasölurnar með áfengi væru ekki ólöglegar. Það var þeim mikið áfall og spurning, herra forseti, hvort góðir menn ættu ekki að huga að því að veita þeim hjá Verslunarráðinu áfallahjálp eftir þetta mikla lost. Þó kollegar þeirra á hinum Norðurlöndunum hafi séð um að kæra í þessu tilviki þá varð þeim þetta mikið áfall.

Ég hef hæstv. fjmrh. líka grunaðan um að hafa orðið fyrir drjúgu áfalli þegar þessi úrskurður kom. Í umræðum í gær kom m.a. fram að hæstv. fjmrh. er mjög vonsvikinn og leiður yfir því hversu lítið honum hefur orðið ágengt við að mola niður það skipulag sem hér hefur verið við lýði. Þar kennir hann auðvitað ýmsum um, t.d. þeim þverhausum á þingi sem hafa á undanförnum árum talað gegn slíkum breytingum og andvaraleysi í þessum málum. Hann hefur einnig stimplað samstarfsflokkinn í þessu stjórnarsamstarfi sem sökudólg fyrir að hafa ekki léð máls á eins miklum breytingum og hæstv. fjmrh. hefði haft hug á. Hugmyndir hæstv. fjmrh. eru, eins og kunnugt er, þær að leggja þetta fyrirkomulag niður, selja þessar vörur almennum verslunum og hverfa frá þeirri aðhaldssömu stefnu sem mjög lengi hefur verið framfylgt á Íslandi.

Herra forseti. Sannfæring mín er að ekkert eigi að vera því til fyrirstöðu að samræma það fyrirkomulag sem við höfum byggt á hér á landi og á flestum hinna Norðurlandanna og gefist hefur vel, kröfum breyttra tíma um eðlilega þjónustu og starfsemi. Takist að hafa sæmilega samstöðu um þetta fyrirkomulag þá er mikið unnið. Hið opinbera hefur þá áfram í sínum höndum virkt tæki til þess að veita aðhald í þessum efnum. Þá er, hindrunarlaust og án milliliða, unnt að framkvæma t.d. þá stefnu í verðlagningu á áfengi sem menn vilja hafa í gildi á hverjum tíma. Undir handarjaðri ríkisins er auðveldara að hafa eftirlit með því t.d. að ekki sé um sölu til fólks undir lögaldri að ræða. Síðast en ekki síst, herra forseti, og er það nú væntanlega mikilvægast af öllu, þá er aftengdur sá hvati sem annars er fyrir hendi í fyrirkomulagi þar sem einkaaðilar eiga hagsmuna að gæta. Hvatinn til að auka söluna á þessari vöru.

Hvernig sem menn setja smásölu á áfengi í hendur einkaaðila þá komast menn aldrei hjá því, ef um hefðbundinn einkarekstur er að ræða, að menn komi til með að eiga hagsmuni fólgna í því að auka söluna á vörunni. Sá hvati hefur alls staðar gefist illa í þessum efnum. Af þeim sökum hafa margar þjóðir eða t.d. ríkisstjórnir fylkja í Bandaríkjunum, horfið frá því fyrirkomulagi. Þeir fá því opinbera aðila, sem jafnframt annast framkvæmd áfengisstefnunnar og ekki eiga neina sérstaka hagnaðarvon í því að auka söluna, til að annast um það. Það er af þeim ósköp einföldu ástæðum að það hefur gefist best.

Það væri harla grátlegt, herra forseti, ef við Íslendingar færum út í breytingar á okkar áfengislöggjöf eða skiptum yfir í tilhögun á tóbakssölu sem aðrar þjóðir eru að hverfa frá. Annars staðar er verið að herða á í þessum efnum. Meira að segja í Frakklandi, sem hefur verið kennt við flest annað en aðhaldssemi í þessum málum, hafa menn reynt að breyta hlutunum, t.d. varðandi auglýsingar á tóbaki og áfengi, í átt að því sem hjá okkur hefur tíðkast.

Ég er þeirrar skoðunar einnig, herra forseti, og held að það hafi með ýmsu móti sannast undanfarnar vikur og mánuði, að þjóðin styður núverandi fyrirkomulag. Ég er algjörlega sannfærður um að sú vakning meðal almennings á undanförnum missirum í umræðu um hinn ískyggilega fíkniefnavanda, drykkjuvanda ungs fólks, ástandið í miðborg Reykjavíkur þegar best lætur eða verst öllu heldur, veldur því að foreldrar í landinu vilja ekkert gáleysi í þessum efnum. Menn vilja ekki fara út í ævintýramennsku eða taka áhættuna af tilraunastarfsemi og frjálshyggjuvitleysu sem gæti gert illt verra í þeirri styrjöld, liggur mér við að segja, sem stendur um líf og heilsu þúsunda ungmenna og heilbrigði fólks í þessu landi gegn hinni hálu sambúð við vímuefnin.

Ég vonast því til þess, herra forseti, að frumvarpsflutningur okkar falli í frjóan jarðveg. Reyndar eru, svo öllu sé haldið til haga, sum þau ákvæði sem við erum að leggja til samhljóða þeim sem síðar komu fram á Alþingi í formi stjfrv. Þannig hygg ég að a.m.k. tvö af þremur atriðum sem við leggjum til að breytt verði í áfengislögunum séu jafnframt, að vísu ekki nákvæmlega eins orðuð, boðuð í frv. dómsmrh. um breytingu á áfengislögum. Það sem við leggjum til varðandi breytingar á verslun með áfengi og tóbak er ekki á dagskrá hjá hæstv. fjmrh. enda ekkert frv. flutt af hans hálfu um breytingu á þeim lögum. Hæstv. ráðherra sagði hér í gær að hann sæi enga ástæðu til þess að Alþingi kysi stjórn fyrir ÁTVR. Hann vill væntanlega halda áfram að tilnefna hana sjálfur, eins og hann hefur gert hingað til og með jafnglæsilegum árangri og raun ber vitni.

Ég trúi þó ekki öðru en að menn fáist til að skoða í fullri alvöru, t.d. 5. gr. um embætti þjónustufulltrúa sem hefði það hlutverk sem ég gerði hér grein fyrir. Ég held að ærin rök séu fyrir því að gera ÁTVR kleift að þróa sig einmitt í því skyni sem ég hef lagt til.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja að okkur er nokkur vandi á höndum í þinginu vegna þess að mönnum hefur tekist að slíta hér sundur umræður um fjögur frv. sem tengjast sömu breytingunum á tilhögun áfengisverslunar eða áfengismála. Þessi frv. á að ræða á jafnmörgum dögum. Eitt var rætt í síðustu viku, eitt í gær, eitt er á dagskrá í dag og það fjórða verður á dagskrá á morgun eða á föstudaginn. Þetta er auðvitað mikil snilld hjá okkur. Hitt er öllu erfiðara að samkvæmt því að hér sé um margs konar löggjöf að ræða sem heyri undir þrjá ráðherra, þá munu a.m.k. þrjá þingnefndir taka til við að japla á þessum málum. Ég held að það verði ekki mjög skilvirkt að þrjár þingnefndir eyði tíma sínum í að fjalla um þessi mál, hver í sínu lagi. Mér sýnist eðlilegast að leggja til að þetta frv. okkar, herra forseti, gangi til efh.- og viðskn. þar sem veigamikill þáttur af því eru breytingar á lögunum um verslun með áfengi og tóbak. Það eru lög sem heyra undir fjmrh. og ganga því eðli málsins samkvæmt til efh.- og viðskn.

Herra forseti. Að lokum að leyfi ég mér að beina því til forseta að forseti þingsins ræði við formenn viðkomandi fastanefnda, þ.e. efh.- og viðskn., allshn. og heilbr.- og trn. um að nefndirnar eigi samstarf um skoðun þeirra fjögurra frumvarpa sem hér eru á dagskrá þingsins. Þau eru öll tengd sama efninu, þ.e. breytingunum á tilhögun áfengismála og verslunar með áfengi.