Verslun með áfengi og tóbak

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 15:41:27 (4336)

1998-03-04 15:41:27# 122. lþ. 79.3 fundur 394. mál: #A fyrirkomulag áfengisverslunar# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 122. lþ.

[15:41]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að eðlilegra hefði verið að hafa öll þau frv., sem liggja nú fyrir Alþingi og snerta ÁTVR og áfengis- og tóbaksverslun almennt, til umræðu á sama tíma. Samkvæmt áætlunum þingsins verða til umræðu hér á morgun frumvörp sem heyra undir dómsmrn. en í gær voru rædd frv. sem heyra undir fjmrn. Nær hefði verið að taka öll þessi mál til umræðu á sama tíma. Ég tek undir þessa ábendingu hv. þm.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um það frv. til laga sem hér er til umræðu. Það er flutt af okkur tveimur, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og mér. Fyrsti flutningsmaður hefur þegar gert mjög ítarlega og góða grein fyrir efni frv. En eins og fram kom í máli hans þá er tilgangur þess að gera breytingar á lagaákvæðum sem varða ÁTVR, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, og snerta möguleika fyrirtækisins til að veita viðskiptavinum sínum nútímalega þjónustu á jafnræðisgrundvelli um allt land eftir því sem kostur er.

Við leggjum áherslu á það í greinargerð með frv. að við erum eindregnir stuðningsmenn þess að ríkið haldi áfram einkarétti á verslun með áfengi í smásölu og hafi einnig alla umsýslan, innflutning og sölu á tóbaki í heildsölu, á sinni hendi. Reynsla Íslands, Norðurlandanna og fleiri þjóða sem haft hafa þennan hátt á, er ótvírætt sú að slíkt fyrirkomulag sé áhrifaríkt tæki til að fylgja fram aðhaldssamri stefnu í áfengismálum og tóbaksvarnamálum einnig. Slík stefna er jafnframt mikilvægur hluti af heilbrigðis-, félagsmála- og velferðarmarkmiðum ríkjanna.

Í umræðum í gær sagðist hæstv. fjmrh. hafa viljað fara hraðar en samstarfsflokkurinn í þá átt að einkavæða þessa starfsemi, einkavæða verslun með tóbak og áfengi. Ég vakti athygli á því að í þessu efni væri hann ekki fulltrúi framfara heldur afturhaldssjónarmiða. Ég hélt því fram að hann væri fulltrúi þeirra aðila sem framleiða tóbak og áfengi og vilja fá hagnað af sölu þeirrar vöru. Þar er náttúrlega fyrst að telja Verslunarráðið sem fer fyrir þeim aðilum sem vilja komast í þessa ábatasömu verslun. Þar er mikil hagnaðarvon og í nafni þeirra talar hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson. Undir þeim merkisfána talar hann um framfarir en það er mikill misskilningur. Þetta eru ekki framfarir, í þessu efni er samstarfsflokkurinn, Framsfl., fulltrúi hinna framfarasinnuðu sjónarmiða en fjmrh. hinna afturhaldssömu.

[15:45]

Eins og fram kom í máli hv. þm. er hér um að ræða nokkrar lagabreytingar. Í fyrsta lagi er ákvæði um lágmarksíbúafjölda í byggðarlagi þar sem opna má útsölu. Við viljum að þetta ákvæði falli brott og ÁTVR fái tiltölulega frjálsar hendur í þeim efnum, þar með talið að opna verslun með áfengi í fámennari byggðarlögum, fjarri núverandi verslunum.

Í þessari umræðu allri gætir mikils tvískinnungs. Hæstv. fjmrh. talar um að hann sé talsmaður þess að opna þessi viðskipti öll og gera þessa vöru notendum og neytendum aðgengilegri. Staðreyndin er sú að sjö sveitarfélög hafa nú sótt um leyfi til að opna áfengisverslanir í sínu byggðarlagi, sjö sveitarfélög sem uppfylla öll skilyrði og hafa greitt um þetta atkvæði, komist að þeirri niðurstöðu í lýðræðislegum kosningum að þau vilji opna ÁTVR-útsölur á stöðunum. Sjö sveitarfélög hafa gert þetta og sent umsóknir um þetta efni til ÁTVR. ÁTVR hefur látið á það reyna hvort leyfi fáist fyrir að opna slíkar útsölur. Því er hafnað. Í langan tíma hefur legið inni hjá fjmrn. ósk um að opna útsölur og vil ég þar sérstaklega nefna Dalvík. En hin sveitarfélögin sem hafa samþykkt þetta eru Grindavík, Mosfellsbær, Garðabær, Hveragerði, Eskifjörður og Þórshöfn. Öll þessi sveitarfélög hafa samþykkt í lýðræðislegri kosningu að þau vilji fá útsölu í sínu byggðarlagi. Hver er það sem stendur gegn þessu? Það er hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson. Og hvers vegna skyldi hann gera þetta? Jú, vegna þess að hann vill koma óorði á ÁTVR. Hann vill sýna fólki að svona fari þegar ríkisstofnun hafi þessa umsýslan með höndum. Hann vill koma óorði á þessa starfsemi og fer þar saman með Verslunarráðinu sem hefur haft uppi mikinn áróður í fjölmiðlum í sömu veru. Menn eru að reyna að koma óorði á þessa starfsemi. Í langan tíma hefur hæstv. fjmrh. staðið gegn því að þessi leyfi séu veitt. Við viljum með þeirri lagabreytingu sem við erum að leggja til hér að ÁTVR fái tiltölulega frjálsar hendur í þessum efnum.

Þá viljum við að felld verði niður ákvæði í lögum sem krefjast staðgreiðslu og hafa verið túlkuð þannig að ÁTVR geti ekki tekið við greiðslum með krítarkortum. Þetta er augljós hlutur sem þarf að færa í átt til samtímans og fráleitt að hafa einhverjar skorður við þessu í lögum.

Þá viljum við að rýmkaðir verði möguleikar til að láta afgreiðslutíma áfengisverslana fylgja afgreiðslutíma verslana almennt og við viljum að breytt verði ákvæðum um stjórn ÁTVR, sem fjmrh. hefur einn skipað fyrirtækinu síðan 1995. Þetta er mjög stórt atriði. Við viljum að Alþingi kjósi stjórn ÁTVR. Það mælir margt með því að yfir þessari stóru stofnun sem veltir mörgum milljörðum kr. fari stjórn og að hún sé lýðræðislega kosin hér á Alþingi en ekki ákveðin af fjmrh. einum. Það hefur nefnilega komið fram að þessi stjórn, og ég leyfi mér að fullyrða þetta, hefur verið sett til höfuðs þessari stofnun. Stjórn ÁTVR hefur verið sett til höfuðs ÁTVR. Það er yfirlýst markmið stjórnarinnar að reyna að koma ÁTVR fyrir kattarnef, einkavæða þessa stofnun og leggja hana niður. Frá þessu greindu stjórnarmenn starfsmönnum fljótlega eftir að stjórnin tók til starfa. Þá greindi hún frá því að það væri yfirlýst markmið að reyna að leggja þessa starfsemi af. Í umræðu sem fram fer hér á morgun um skyld frv. mun ég fara nánar út í þessi atriði, en ég vil minna á að hæstv. fjmrh. gerði í gær það sem hann hefur ítrekað gert þegar hann er að réttlæta gjörðir sem eru mjög umdeilanlegar, þ.e. að reyna að kenna embættismönnum um pólitíska stefnu sína ef hún er óvinsæl. Þetta hefur hann gert í sambandi við breytingar á ÁTVR. Þá hefur ítrekað verið vísað í forstjóra ÁTVR eða starfsmenn og ég ætla að gera það líka. Ég ætla líka að vísa í starfsmenn ÁTVR. Ég ætla að vísa í starfsmenn sem komu saman til fundar í nóvembermánuði til að ræða starfsemi stofnunarinnar með stjórn hennar. Þetta er opinbert gagn. Þetta er fundargerð 49. fundar stjórnar ÁTVR. Á þennan fund mættu verslunarstjórar auk stjórnarinnar og hér er vitnað í einn starfsmann, Eyjólf Eysteinsson. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

,,Vart væri unnt að tala um málefni ÁTVR án þess að gera stefnu eða stefnuleysi stjórnarinnar að umræðuefni. Rakti hann aðdraganda komu stjórnar að fyrirtækinu og þær forsendur sem Alþingi hefðu verið kynntar við meðferð frv. um stjórn ÁTVR árið 1995. Tilgangurinn með sérstakri stjórn var að styrkja faglega stjórn á fyrirtækinu og gera stjórn þess fjarlægari hinu pólitíska valdi. Þessi orð væru beint úr ræðu formanns efh.- og viðskn. og flm. tillögunnar um stjórnina. Um ÁTVR giltu sérstök lög. Fagleg stjórn væri að stýra fyrirtækinu innan gildandi laga með hag þess í fyrirrúmi. Gerðir stjórnarinnar hefðu til þessa nánast allar verið á annan veg. Tóbakinu átti að kasta út samstundis og leggja fyrirtækið í heild niður í áföngum. Ekki vegna slæmrar afkomu eða slæmrar þjónustu. Fyrir nokkru hefði formaður stjórnar ÁTVR komið fram í sjónvarpi og boðað að afnema þyrfti einkarétt ÁTVR til þess að koma sölu á áfengi í hendur einkaaðila. Sagði Eyjólfur að ekki væri staf að finna í lögum eða reglugerðum til stuðnings þessari yfirlýsingu formannsins.

Las hann upp úr samþykktum landsfundar framsóknarmanna stuðningsyfirlýsingu við ÁTVR og taldi yfirlýsingu stjórnarformanns því ekki heldur í samræmi við vilja ríkisstjórnar. Yfirlýsingar út og suður færu illa í allt starfsfólk ÁTVR og tími væri til þess kominn að stjórnin tæki höndum saman við starfsmenn til uppbyggilegra verka.``

Þetta er tónninn í starfsmönnum fyrirtækisins og fyrst hæstv. fjmrh. er byrjaður að vitna þar í embættismenn og viðhorf innan veggja stofnunarinnar þá skulum við gera það líka. Þá skulum við leita álits starfsmanna ÁTVR á því sem er að gerast og það hefði stjórn stofnunarinnar betur gert. Það var gert hér áður fyrr. Þá var kannað hver vilji þeirra væri sem sinntu þessum málum og fjallað faglega um málin. Það er ekki gert núna. Nú er leitað fyrst til vínsalanna. Fyrst er leitað til brennivínssalanna, innflytjendanna og tóbaksfurstanna og síðan --- ef það þá yfirleitt er gert --- er hlustað á starfsfólkið og hin faglegu sjónarmið fólks sem er að reyna að rata hinn vandrataða veg á milli þess annars vegar að veita eðlilega og góða og trausta þjónustu á jafnræðisgrunni og hins að gæta aðhalds í þessum efnum því að markmiðið með því að halda þessari starfsemi í höndum hins opinbera er að gæta aðhalds.

Að lokum viljum við að stofnað verði embætti þjónustufulltrúa við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og nefnum að dæmi um verkefni sem gæti fallið undir verksvið slíks þjónustufulltrúa væri að koma upplýsingum til viðskiptavina um vöruúrval og nýjar tegundir án þess að brjóta gegn skýlausu banni um auglýsingar. Þetta nefnum við sem dæmi. En við segjum að það sé ljóst að í sínu starfi þurfi þessi stofnun að glíma við ýmsar mótsetningar. Þær felast í því hún þarf að vera annars vegar þjónustufyrirtæki við almenning og hins vegar mikilvægt tæki í höndum hins opinbera til að tryggja framgang aðhaldssamrar opinberrar stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum og tóbaksvörnum eins og ég hef þegar rakið.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt. Þessi umræða mun halda áfram á morgun þótt tilefnið verði annað. Þá koma önnur frv. til umræðu í þingsal og þar mun ég taka upp þráðinn þar sem hér er frá horfið.