Svar við fyrirspurn

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 10:32:53 (4339)

1998-03-05 10:32:53# 122. lþ. 80.89 fundur 242#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[10:32]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þann 9. des. sl. lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. viðskrh. eins og stjórnarskrárvarinn réttur minn segir til um og jafnframt er kveðið á um í þingskapalögum Alþingis. Í fyrirspurninni var upplýsinga óskað um hlutafjáreign dótturfyrirtækja ríkisbankanna. Ástæðan fyrir fyrirspurninni er sú að ég lagði á síðasta þingi fram svipaða fyrirspurn varðandi hlutafjáreign ríkisbankanna og svarið var þannig að það gaf ekki eðlilega mynd af eignatengslum bankanna við hlutafélög. Tilgangur síðari fyrirspurnarinnar var því að reyna að fá þessar upplýsingar fram. Svar hæstv. viðskrh. hefur nú borist þremur mánuðum síðar. Hvert er svarið? Svarið er að ekki megi veita svar við þessari fyrirspurn minni.

Í fyrsta lagi verð ég að segja það að ég efast mjög um hina efnislegu niðurstöðu hæstv. viðskrh. Ég sé ekki að það gæti skaðað hagsmuni bankanna eða þeirra fyrirtækja sem þeir eiga hlut í þó að fyrirspurn af þessu tagi sé svarað.

Í öðru lagi hlýt ég að vekja athygli á því að einmitt á þessum dögum og vikum er verið að birta upplýsingar um rekstur fyrirtækja. Þetta er tími aðalfundanna. Á þeim koma tíðum fram upplýsingar um hlutafjáreign þeirra og helstu hluthafa. Þess er skemmst að minnast að í Viðskiptablaðinu í gær voru sambærilegar upplýsingar tíundaðar hvað áhrærði eignarhaldsfélagið Alþýðubankann. Með öðrum orðum er greinilegt að tilhneigingin er að birta fremur meira en minna af slíkum upplýsingum.

Í 19. gr. laga um einkahlutafélög er kveðið á um að gerð skuli hlutaskrá sem allir hluthafar og stjórnvöld hafi aðgang að. Tilhneigingin og túlkunin er öll í þessa átt. Hins vegar er ljóst að hér ræður mat hæstv. viðskrh. Hæstv. viðskrh. hlýtur að ráða þessu sjálfur, það er augljóst. Hins vegar vekur það undrun mína í því sambandi, virðulegi forseti, að sambærilegt svar barst frá þáv. hæstv. viðskrh., Sighvati Björgvinssyni, við hliðstæðri fyrirspurn frá Matthíasi Bjarnasyni um hlutafjáreign banka og innlánsstofnana og þar er niðurstaðan allt önnur. Þar segir:

,,Þótt fyrirspyrjandi hafi ekki óskað sérstaklega eftir því eru birtar upplýsingar um hlutabréfaeign dótturdótturfélaga Landsbanka Íslands. Að öðrum kosti hefði svarið gefið ófullkomna mynd af hlutabréfaeign bankasamstæðunnar.``

Ég held þess vegna að fullkomið ósamræmi sé milli svara fyrrv. og núv. hæstv. viðskrh. og ég spyr: Hvað hefur breyst? Ég skora á hæstv. viðskrh. að endurskoða þá ákvörðun sína að hafna því að veita eðlileg svör við eðlilegum spurningum sem ég hef lagt fram á þingskjali eins og ég hef rétt á að gera.