Svar við fyrirspurn

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 10:35:28 (4340)

1998-03-05 10:35:28# 122. lþ. 80.89 fundur 242#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[10:35]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá hv. þm., þá bar hann fram fyrirspurn um hlutafjáreign dótturfyrirtækja í hlutafélagabönkunum á þskj. 446. Rökin fyrir svari mínu eru í fyrsta lagi þau að ég vísa til skýrslu hæstv. forsrh. um aðgang að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins þar sem fjallað er um skyldur ráðherra, annars vegar gagnvart þinginu og hins vegar gagnvart viðkomandi hlutafélögum.

Í öðru lagi verður að gæta samkeppnissjónarmiða þegar upplýsingar eru veittar. Ráðherra verður að gæta þess að ekki séu veittar upplýsingar sem skaðað geta samkeppnis- eða viðskiptahagsmuni verðbréfa- og hlutabréfasjóða í eigu bankans. Ákveðin trúnaðarskylda hvílir á starfsmönnum og stjórnendum verðbréfafyrirtækja og hlutafélagasjóðanna gagnvart viðskiptamönnum sínum.

Í þriðja lagi, varðandi eignarhalds- og umsýslufélög, verður að gæta ákveðinnar þagnarskyldu gagnvart viðskiptamönnum.

Af því að hv. þm. bar saman fyrirspurn frá hv. fyrrv. þm. Matthíasi Bjarnasyni á 117. löggjafarþingi og sína fyrirspurn, sem hv. þm. er ekki fullkomlega ánægður með svarið við, þá verð ég að segja að á fyrirspurnunum tveimur er talsverður munur.

Fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar er mun ítarlegri hvað einstök efnisatriði varðar en fyrirspurn fyrrv. hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar. Það byggist fyrst og fremst á því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson óskar eftir mjög nákvæmum upplýsingum um ávöxtun einstakra eignarhluta, hvaða eignarhluta hafi verið greitt fyrir, hvenær sala hafi farið fram, hvert söluandvirðið hafi verið og þar fram eftir götunum.

Hins vegar efast enginn um það, ég tek undir það með hv. þm., að ráðherrum ber rík skylda til að veita þingmönnum upplýsingar og svara fyrirspurnum þeirra. Ég dreg það ekkert í efa. Á móti verður hins vegar að gæta samkeppnissjónarmiða og þeirrar trúnaðarskyldu sem hvíla þarf yfir. Gæta þarf að þeirri bankaleynd sem oft og tíðum gildir um dótturdótturfyrirtækin. Á grundvelli þeirrar trúnaðarskyldu og þeirra upplýsinga treysti ég mér ekki til þess að svara fyrirspurninni nákvæmar en þarna var gert.