Svar við fyrirspurn

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 10:43:33 (4344)

1998-03-05 10:43:33# 122. lþ. 80.89 fundur 242#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[10:43]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hér gætir örlítils misskilnings hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um efnisinnihald svars míns. Nokkrum hluta þeirra spurninga sem þarna voru bornar fram var svarað og ljóst að hv. þm. hefur ekki lesið svarið. Í fyrirspurninni eru hins vegar einstök atriði sem ég treysti mér ekki til þess að svara. Ástæðum þess lýsti ég hér áðan og ætla ekki að endurtaka.

Enginn hefur neitað að upplýsa hverjir séu eigendur að þessum fyrirtækjum. Það liggur allt fyrir og yfir því hvílir engin leynd. Hins vegar þarf að hvíla leynd yfir því, út frá samkeppnissjónarmiðum, hver arður er af einstökum eignarhlutum í þessum fyrirtækjum og hvaða ávöxtun einstakir eignarhlutar hafi haft á tilteknu tímabili. Það eru fyrst og fremst þau atriði fyrirspurnarinnar sem ég er ekki tilbúinn að svara. Eignarhaldið á öllum þessum fyrirtækjum liggur fyrir. Ég held að hv. þm. spyrji fyrstu spurningarinnar, um hver dótturfyrirtækin eru, til þess að komast síðan að því hver arðkrafan er og hvaða ávöxtun viðkomandi fyrirtæki eða eignarhlutar hafi gefið á undanförnum árum. Það liggur alls staðar fyrir og þingið þarf þess vegna ekki að spyrja um það hverjir eru eigendurnir að ríkisviðskiptabönkunum og eignarhlutum þeirra í þessum dótturdótturfyrirtækjum.

Fyrst og fremst er það út frá arðgreiðslunum á einstökum eignarhlutum og ávöxtun einstakra eignarhluta sem ég treysti mér ekki til þess að svara.

Þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, þáv. viðskrh., svaraði fyrirspurn fyrir fimm árum, þá voru aðstæðurnar á íslenskum fjármagnsmarkaði aðrar en þær eru núna. Þá var nánast engin samkeppni á þessum markaði þar sem fjárfestingarlánasjóðirnir voru greindir niður eftir atvinnugreinum. Ríkisviðskiptabankarnir voru án hlutafélagaforms í eigu ríkisins og engar kröfur gerðar um ávöxtun. Aðstæðurnar eru aðrar á þessum markaði í dag en þær voru þá.