Dómstólar

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 15:08:57 (4373)

1998-03-05 15:08:57# 122. lþ. 80.10 fundur 176. mál: #A dómstólar# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[15:08]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í mikið umræðurnar nema ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við tillöguna sem hefur verið rædd að undanförnu, sérstaklega um frímúrarana, og tel að það sé rétt hjá hv. 13. þm. Reykv. að það sé dálítið erfitt að líkja frímúrurunum við Svölurnar, þótt það sé engu að síður skemmtileg og frumleg samlíking. Ég býst ekki við því að áður hafi verið reynt í sögunni úr þessum ræðustól að líkja frímúrurum við Svölurnar og veit ég ekki hvorum þykir vænna um samlíkinguna, Svölunum eða frímúrurum, þegar upp er staðið.

Síðan ætlaði ég, herra forseti, að minna á það að síðasta sumar birtist niðurstaða Hæstaréttar í máli Sævars Ciesielskis sem var mjög mikið rædd á sínum tíma og var efnt til útifundar af því tilefni. Niðurstaða málsins varð sú að Hæstiréttur synjaði um endurupptöku á málinu eftir að hafa fjallað mjög rækilega um málið og eftir að dómsmrn. hafði staðið sig mjög vel í því að skapa aðstæður til að efnisleg niðurstaða fengist.

Sævar Ciesielski og reyndar fleiri töldu að hann og félagar hans hefðu verið beittir harðræði í fangelsum, harðræði af lögreglu og réttarfarsyfirvöldum í landinu og það voru satt að segja býsna óhugnanlegar upplýsingar sem komu fram um þau mál í fjölmiðlum og víðar og í greinargerðum sem birtust. Það er bersýnilegt að þarna er enginn með alveg hreinan hvítflibbann, mér sýnist allir vera með kusk á honum í þessu máli.

Þess vegna nefndi ég þann möguleika í opinberri umræðu að réttarfarslögum yrði breytt og skapað yrði sérstakt réttarfarsúrræði fyrir einstaklinga sem teldu sig órétti beitta, teldu sig hafa verið harðræði beitta eða einstaklinga sem teldu að nýjar upplýsingar hefðu komið fram eftir að dómar hefðu fallið sem hefðu hugsanlega breytt niðurstöðu þeirra á þeim tíma sem hún var kveðin upp.

Ástæðan fyrir því að ég nefndi þetta var ekki bara sú að mér rann til rifja hvernig mér fannst komið fram við þessa einstaklinga, heldur kynnti ég mér að í öllum öðrum löndum eru til sérstök réttarfarsúrræði. Þá er ég að tala um þau lönd sem við berum okkur saman við, ég er að tala um Danmörku, Noreg og Þýskaland.

Ég sé ekki að í þessu dómstólafrv. né heldur í tengslum við það, svo ágætt sem það er, hafi neitt verið fjallað um þetta mál og í sjálfu sér átti ég ekki endilega von á því. Ég vil engu að síður spyrja hæstv. dómsmrh., sem ég hygg að heyri umræðuna, hvort það er á döfinni af hálfu dómsmrn. að skapaðar verði lagaforsendur til þess að þeir sem telja sig órétti beitta geti leitað sérstakra réttarfarsúrræða en þurfi ekki að leita til aðila eins og Hæstaréttar, sem verði þá að kveða upp úrskurð í eigin sök, en það er það ok sem væri lagt á Hæstarétt í þessu tiltekna máli. Ég þekki það vel af upplýsingaöflun að þeir aðilar sem eru settir í þá stöðu að þurfa að kveða upp svona úrskurð finnst hún óþægileg. Ég held að öllum væri fyrir bestu og eðlilegt að svona úrræði yrði til og þess vegna beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. hvort svona tillaga er á döfinni af hálfu ríkisstjórnarinnar á þinginu, á þessum vetri, þannig að tryggt verði að sköpuð verði sérstök réttarfarsúrræði fyrir þá sem telja sig hafa verið órétti beitta við meðferð mála á rannsóknarstigi eða hjá dómstólum.