Mannréttindasáttmáli Evrópu

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 15:24:32 (4378)

1998-03-05 15:24:32# 122. lþ. 80.13 fundur 466. mál: #A mannréttindasáttmáli Evrópu# (samningsviðauki nr. 11) frv., Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[15:24]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allshn. á þskj. 894 um frv. til laga um breyting á lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62 frá 19. maí 1994.

Allshn. hefur fjallað um málið og fékk til viðræðna við sig um það Jónas Þór Guðmundsson, lögfræðing í dómsmrn.

Með frv. er lagt til að lögfestur verði viðauki nr. 11 við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóv. 1950, eða mannréttindasáttmála Evrópu eins og hann er nefndur í daglegu tali. Samningurinn ásamt samningsviðaukum var lögfestur hér á landi með lögum nr. 62 frá 1994 og var farin sú leið að lögfesta hann í heild sinni, bæði efnisreglurnar um þau mannréttindi sem sáttmálinn verndar og ákvæði um stofnanir þær sem leysa úr kærum vegna brota á sáttmálanum og meðferð mála fyrir þeim.

Hinn 25. febrúar 1995 ályktaði Alþingi að heimila ríkisstjórninni að fullgilda samningsviðauka nr. 11 fyrir Íslands hönd. Í viðaukanum felst endurskipulag á eftirlitskerfi mannréttindasáttmálans og þar sem í upphafi var farin sú leið að lögfesta sáttmálann í heild sinni er nauðsynlegt að gera þessar breytingar á lögunum frá 1994.

Meginefni breytinganna er að mannréttindanefndin og mannréttindadómstóllinn eru lögð niður í núverandi mynd og stofnaður er nýr dómstóll, Mannréttindadómstóll Evrópu sem kemur í stað þessara stofnana. Í dómstólnum eiga sæti jafnmargir dómarar og aðildarríki Evrópuráðsins eru og eru þeir kosnir til sex ára.

Nefndin í heild stendur að afgreiðslu málsins og mælir með samþykkt frv. Hjálmar Jónsson og Guðný Guðbjörnsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu þess.