Áfengislög

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 16:14:24 (4383)

1998-03-05 16:14:24# 122. lþ. 80.15 fundur 478. mál: #A áfengislög# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[16:14]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til áfengislaga sem upphaflega hafði reyndar annan tilgang en þann sem yfirlýstur er í grg. með frv. Þetta frv. ber þess öll merki að einkavæða átti áfengisverslun í landinu. Eins og fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, þá er það fyrst og fremst í 1. mgr. 10. gr. frv. sem einkaréttur ÁTVR til smásölu á áfengi er tryggður.

[16:15]

Í 3. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Til að stunda í atvinnuskyni innflutning, heildsölu, smásölu, veitingar eða framleiðslu áfengis þarf leyfi samkvæmt lögum þessum.``

Og í ákvæði til bráðabirgða segir að sækja skuli um smásöluleyfi fyrir þær áfengisútsölur sem starfræktar eru við gildistöku laganna til viðkomandi sveitarfélags innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna.

Með öðrum orðum, hæstv. forseti, er gert ráð fyrir því að ÁTVR þurfi að sækja um leyfi fyrir þeim verslunum sem þegar eru starfræktar. Það er vitað mál að það hefur lengi verið pólitískur ásetningur hæstv. fjmrh. að einkavæða ÁTVR og eins og ég hef sagt hér í ræðustól er þar á ferðinni heiðarlegur maður sem hefur hvorki leynt Alþingi né þjóðina þessum ásetningi sínum. Hann hefur hins vegar lýst því yfir hér og á öðrum vettvangi að hann hafi ekki komist lengra en raun ber vitni fyrir samstarfsflokknum í ríkisstjórn, að Framsókn hafi viljað fara hægar en hann hefði kosið. Mér leikur forvitni á að vita hver hinn pólitíski ásetningur hæstv. dómsmrh. er í þessum efnum vegna þess að fram til þessa höfum við fyrst og fremst átt orðastað við hæstv. fjmrh., þ.e. hvort hæstv. dómsmrh. sé reiðubúinn að hlusta á vilja þjóðarinnar sem ítrekað hefur verið staðfestur í skoðanakönnunum og á annan hátt og er á þá lund að halda því fyrirkomulagi sem við búum við núna og tryggja þannig þá stefnu í heilbrigðis- og vímuvarnamálum sem dreifingarfyrirkomulagið býður upp á.

Ég hefði kosið að við þessa umræðu hefði hæstv. fjmrh. einnig verið viðstaddur en ekki síður formaður efh.- og viðskn. Alþingis. Ég leyfi mér að beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort formaður efh.- og viðskn. Alþingis sé í húsinu og hvort hann ætlar að láta svo lítið að koma hingað og hlusta á þessa umræðu og taka til máls, vegna þess að þar fer saman í einum og sama manninum, alþingismaður, formaður efh.- og viðskn. og framkvæmdastjóri Verslunarráðsins sem hefur haft mjög miklar og ákveðnar skoðanir á þessum málaflokki.

(Forseti (RA): Vegna orða hv. þm. er rétt að forseti upplýsi að formaður efh.- og viðskn. er ekki í húsinu. Um hitt hvort hann vill vera viðstaddur umræðuna get ég engu svarað en ég mun gera honum viðvart að óskað sé eftir nærveru hans.

Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessar upplýsingar. Það munu eflaust gefast tækifæri síðar til að eiga orðastað við hv. þm. Vilhjálm Egilsson, formann efh.- og viðskn., um þetta mál ef þetta frv. á annað borð kemur úr nefnd á þessu þingi.

Ástæðan fyrir því að ég auglýsi eftir hv. formanni efh.- og viðskn. er sú að á bak við alla þessa lagasmíð sem hér er til umræðu eru starfandi nefndir á öðrum vettvangi sem eru að gera tilraunir til að breyta því fyrirkomulagi sem við búum við. Þannig hefur verið skipuð á vegum fjmrn. nefnd sem hefur þann megintilgang að athuga hversu nýta megi heimildir laga um ÁTVR og laga um fjárreiður ríkisins til að losa um þau verkefni sem ÁTVR hefur nú með höndum. Og tækið sem menn ætla að nýta sér til þessara verka er 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins sem gefa ríkisstjórninni og þá sérstaklega hæstv. fjmrh. heimild til að breyta rekstrarformi starfsemi og stofnana á hans vegum. Reyndar hafa ýmsar skorður verið reistar í því efni og það má að hluta til þakka stjórnarandstöðunni og þá sérstaklega þingmönnum Alþb. og óháðra sem vöktu athygli á þessari brotalöm laganna þegar þau voru til afgreiðslu hér sl. vor.

Það er ekki nóg með að starfandi er nefnd sem er að reyna að einkavæða ÁTVR og koma dreifingu á brennivíni og tóbaki í hendur heildsala og helst inn í einstakar verslanir einnig, heldur er það svo að yfir ÁTVR hefur verið skipuð stjórn af hálfu hæstv. fjmrh. sem hefur sjálf lýst því yfir að hún ætli ekki að starfa í samræmi við þessi lög og ekki í samræmi við þær yfirlýsingar sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., sagði hér í ræðustól að hún ætti að starfa samkvæmt. Hann sagði hér á sínum tíma að nefndin ætti að vera fagleg, hún ætti að styrkja faglega stjórn á fyrirtækinu og gera stjórn þess fjarlægari hinu pólitíska valdi. Síðan fengum við í gær og fyrradag hæstv. fjmrh. í ræðustól og hann lýsti því yfir að hið gagnstæða væri upp á teningnum. Stjórn ÁTVR væri eins konar framlenging á honum sjálfum, á hinu pólitíska valdi hans og þannig hefur hann réttlætt tilraunir hennar til að fara á bak við lögin og einkavæða þessa starfsemi.

Ég auglýsi eftir pólitískum ásetningi hæstv. dómsmrh. í þessum efnum þar sem að hluta til er verið að færa starfsemi sem áður tilheyrði fjmrn. undir hans ráðuneyti.

Eitt atriði sem ég vil gera að umræðuefni er eftirlitsþátturinn með áfengisdreifingunni. Hann er nú að hverfa úr höndum víneftirlitsmanna og til lögregluyfirvalda í ríkari mæli en verið hefur. Hér segir í 4. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld annast eftirlit með þeim sem hafa leyfi til atvinnustarfsemi samkvæmt lögum þessum.``

Í umsögn eða greinargerð með frv. segir m.a.:

,,Samkvæmt 4. mgr. skulu lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld annast eftirlit með þeim aðilum sem hafa leyfi til atvinnustarfsemi samkvæmt lögunum. Ríkislögreglustjóri mun hafa yfirumsjón með og annast skipulag áfengiseftirlits á landsvísu. Hann mun gefa fyrirmæli til lögregluembætta og setja þeim starfsreglur um áfengiseftirlit, auk þess að skipuleggja sérstök átaksverkefni í samráði við einstök lögregluembætti og eftir atvikum skatt- og tollyfirvöld. Þá mun ríkislögreglustjóri halda heildarskrá yfir birgðageymslur, áfengisveitingahús og áfengisútstölustaði og heildarskrá yfir leyfishafa til innflutnings, framleiðslu, sölu og veitinga áfengis. Lögreglustjórar munu hafa eftirlit með birgðageymslum, áfengisútsölum og áfengisveitingahúsum, hver í sínu umdæmi.``

Þetta segir m.a. í greinargerð frv. Allt er þetta góðra gjalda vert. En mín spurning er þessi: Hvers vegna ekki að fara einföldustu, ódýrustu og hagkvæmustu leiðina til að hafa hér markvisst eftirlit með dreifingu á áfengi í landinu? Hvers vegna ekki að gera það? Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að ef menn langar mikið að gera við eitthvað þá þurfi þeir fyrst að vita hvað er bilað. Síðan eiga menn að gera við. Ríkisstjórnin sem nú situr hafði ekki þennan háttinn á. Hún byrjaði á að reyna að gera við. Reyndar byrjaði hún fyrr, á fyrra stigi, því hún byrjaði á því að eyðileggja. Og hvað var það sem hún eyðilagði? Hún eyðilagði möguleika okkar til að hafa mjög markvisst eftirlit með dreifingu á áfengi í landinu. Hver einasta brennivínsflaska sem kom löglega til landsins var brennimerkt á vegum ÁTVR. Þessu neitaði reyndar hæstv. fjmrh. í umræðum hér á sínum tíma, en þannig var það nú. Og víneftirlitsmenn sem höfðu eftirlit með höndum í veitingahúsum gátu gengið að því sem vísu að ef flöskur sem þar fundust voru ekki merktar þessu merki ÁTVR var þar um smygl að ræða. Allt þetta var afnumið og síðan viðurkenna menn að eftirlitið með vínsölunni er í molum. Ég beindi þeirri spurningu til fjmrn. á síðustu dögum þingsins fyrir jól og fékk svar skömmu eftir jól, hvernig háttað væri eftirliti og það kemur fram í hans svari að eftirlitið er í molum. Eftirlitið er algerlega í molum, enda bendir ráðuneytið á að það þurfi að efla og skipuleggja betur eftirlit með dreifingu á áfengi innan lands. Þetta er viðurkennt og staðhæft. Og hvað þarf til? Nú vitna ég orðrétt, með leyfi forseta, í þetta svar fjmrn.:

,,Ekki er síst talin þörf á að styrkja þann lagagrundvöll sem eftirlit byggist á og færa það undir lögregluyfirvöld.``

Og nú eru menn teknir til þess að smíða lög og reglugerðir og koma lögreglunni og nýjum yfirvöldum og nýjum báknum og nýjum aðilum að þessu máli í stað þess að fara einföldustu leiðina, þá leið sem við fórum í upphafi. Það er rangt hjá hæstv. fjmrh. að hann sé einhver sérstakur boðberi framsækinna sjónarmiða. Hann er fulltrúi afturhaldsins. Hann er fyrst og fremst fulltrúi Verslunarráðsins og hagsmunaaðila sem vilja hagnast á brennivínssölu og tóbakssölu en í þessu máli er það Framsfl. sem hefur að hluta til haft, sem betur fer, vit fyrir fjmrh. og komið í veg fyrir að hann færi sínu fram í þessum efnum. Ég hefði viljað að Framsfl., sem hefur sýnt framsýni í þessum málum, hefði gengið lengra í þessu efni en hann þó hefur gert. Og þá hefði hann betur vorið 1995 stöðvað þá lagabreytingu sem Sjálfstfl. knúði í gegnum þingið um að færa heildsöluverslunina með áfengi frá ÁTVR yfir til heildsalanna með þeim afleiðingum að eftirlit með áfengissölu er algerlega í molum í landinu.

Mér finnst að maður eigi að temja sér að gera aðeins við það sem er bilað og að maður eigi að vita hvað er bilað áður en maður fer að gera við það. Og í samræmi við þetta höfum við lagt fram frv., tveir alþingismenn, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, um að færa þessi dreifingarmál til nútímans og til betri vegar. Við göngum miklu hreinna og beinna til verks en gert er í því frv. sem hér er til umræðu og er í rauninni ótrúlegar umbúðir og endalaus reglugerðasmíð og nefndir og lögregla og ég veit ekki hvað og hvað, til að ná markmiði sem má ná á miklu markvissari, ódýrari og auðveldari máta en hér er gert ráð fyrir. Og hvað er það sem við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon leggjum til?

[16:30]

Við viljum færa aukin völd til þess aðila sem hefur þessi mál með höndum, ÁTVR, að hægt sé að opna útsölustaði á fleiri stöðum en nú er gert og við viljum að Alþingi hafi hönd í bagga með að skipa stjórn þessa fyrirtækis, ekki að það sé fjmrh. einn sem er að koma pólitík sinni fram í gegnum þessa stjórn þvert á það sem sagt var að reyndin yrði. Ég benti á það við umræðu í gær að full ástæða er til að hraða þeirri breytingu því að sjö sveitarfélög hafa samþykkt það í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu að þau vilji fá áfengisútsölur, Grindavík, Mosfellsbær, Garðabær, Hveragerði, Eskifjörður, Dalvík og Þórshöfn, og það er hæstv. fjmrh., það er ríkisstjórnin sem stendur í vegi fyrir því að lýðræðislegur vilji fólksins nái fram að ganga og við þekkjum öll ástæðuna. Ástæðan er sú að þeir vilja koma óorði á ÁTVR. Þeir fara fram með Verslunarráðinu í því efni og vilja sýna að þarna fari hin íhaldssama slæma ÁTVR-ríkisstofnun og eina ráðið sé að einkavæða starfsemina til að koma til móts við vilja fólksins. Við erum með tillögu um að komið verði til móts við vilja fólksins og möguleikar til þess fyrir ÁTVR verði rýmkaðir verulega.

Við erum með ýmsar aðrar tillögur um breytingar í lagafrv. okkar sem við gerðum grein fyrir í gær en ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu nú er sú að þessi mál eru öll samtvinnuð. Þau frumvörp sem eru til umræðu og hafa verið til umræðu þessa dagana hanga öll í einni og sömu spyrðunni. Ég auglýsi eftir því hver vilji hæstv. dómsmrh. er í þessum efnum. Hver er pólitískur ásetningur hans? Vill hann á sama hátt og hæstv. fjmrh. losa um öll þessi bönd og einkavæða starfsemina, fara að vilja Verslunarráðsins í þessu efni, fara að vilja heildsalanna, þeirra sem hafa fundið peningalykt af brennivíns- og tóbakssölunni eða vill hann hlusta á vilja þjóðarinnar og reyna að haga þessum málum í samræmi við þau sjónarmið sem hafa verið í heiðri höfð og reka þetta fyrst og fremst sem hluta af heilbrigðis-, félagsmála- og velferðarpólitík?