Hafnalög

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 17:54:29 (4407)

1998-03-05 17:54:29# 122. lþ. 80.23 fundur 477. mál: #A hafnalög# (fjárskuldbinding ríkissjóðs) frv., Flm. ÁMM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[17:54]

Flm. (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 23/1994. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Kristján Pálsson, Sigríður Anna Þórðardóttir, Kristín Halldórsdóttir, Tómas Ingi Olrich, Guðmundur Árni Stefánsson, Árni R. Árnason, Steingrímur J. Sigfússon og Siv Friðleifsdóttir.

Frv. er í tveimur greinum. Annars vegar efnisgrein frv. sem hljóðar svo:

,,Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Skuldbinding ríkissjóðs vegna styrkhæfrar framkvæmdar myndast ekki fyrr en framlag er samþykkt á fjárlögum.``

Og 2. gr.: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Frv. þetta er flutt vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á fjárreiðum ríkisins vegna nýrrar framsetningar á fjárlögum og nýrra laga um fjárreiður ríkisins en sú breyting hefur það í för með sér að skuldbindingar sem verða til á fjárlagaárinu eru teknar með í uppgjörið hvort sem þær koma til greiðslu á árinu eða síðar. Þetta hefur þau áhrif að hlutur ríkisins í samþykktum hafnarframkvæmdum færist sem gjöld ríkisins á sama ári og þær eru framkvæmdar þótt greiðslur til verksins komi ekki fyrr en seinna samkvæmt fjárlögum. Í þessu tilliti er því samþykki samgrn. talið skuldbindandi fyrir ríkissjóð þannig að þegar framkvæmd er gerð færist hún sem skuldbinding.

Hafnirnar eru nú nánast undantekningarlaust fyrirtæki í eigu sveitarfélaga. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að árleg framkvæmdaþörf þeirra er meiri en framlög ríkisins leyfa og taka þarf ákvarðanir um framkvæmdir á skemmri tíma en hafnaáætlun til fjögurra ára segir til um. Þess vegna hefur víða verið ráðist í framkvæmdir, með samþykki hafnaráðs og samgrn. án þess að ríkisframlag hafi legið fyrir en það verið gert upp síðar. En samkvæmt núgildandi hafnalögum er framkvæmd sem hafin er án samþykkis ráðuneytisins óstyrkhæf og getur ekki hlotið samþykki eða styrk eftir á.

Sá háttur, sem að framan er lýst, er mun erfiðari eftir breytingu á framsetningu fjárlaga enda ekki hægt að láta einstakar hafnir ráða niðurstöðu fjárlaga hverju sinni. Jafnframt er ljóst að gild sjónarmið við rekstur ríkissjóðs geta ekki ráðið framkvæmdum hjá svo mikilvægum fyrirtækjum sveitarfélaga sem hafnirnar eru. Því er það skoðun flutningsmanna að auka þurfi svigrúm hafna til framkvæmda án þess að þær tapi möguleikanum á ríkisstyrk síðar meir eða hafnirnar ráði með ákvörðunum sínum niðurstöðu fjárlaga. Því er lagt til að jafnvel þótt hafnarframkvæmd uppfylli öll skilyrði hafnalaga til þess að vera styrkhæf myndist ekki skuldbinding hjá ríkissjóði fyrr en framlag er samþykkt á fjárlögum.

Þetta hefur það í för með sér að sveitarfélögin geta hafið framkvæmdir með samþykki ráðuneytisins. Með því er ríkið þó ekki búið að skuldbinda sig til að styrkja framkvæmdina. Framkvæmdin færist því ekki inn á fjárlög ársins sem hún er framkvæmd á nema framlög séu fyrir því á fjárlögunum sjálfum. Ef framlög eru ekki fyrir framkvæmdinni á fjárlögum færist hún heldur ekki sem skuldbinding fyrir ríkisreikningi og á sama hátt geta sveitarfélögin ekki heldur fært samsvarandi upphæð sem skuld ríkisins við sveitarfélagið í sínum reikningum. Flutningsmenn telja hins vegar að til þess sé vinnandi fyrir sveitarfélögin að auka svigrúm þeirra á þennan hátt þó að þau verði ekki eins örugg með sína fjárveitingu eins og þau hefðu ella verið samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi. Ástæðurnar eru þær að framlögin hafa ekki verið í takt við það sem framkvæmdaþörfin hefur verið og ekki síður það að þróunin í hafnamálum hefur sýnt að hafnaáætlanir til fjögurra ára þótt góðar séu þurfa breytinga við með skömmum fyrirvara þegar nauðsyn krefur hjá höfnunum, enda eru hafnirnar í mörgum ef ekki flestum tilfellum einhver mikilvægustu fyrirtæki sinna sveitarfélaga sem þurfa á nauðsynlegu svigrúmi að halda til þess að þjónustu viðskiptavini sína.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til samgn.