Kúgun kvenna í Afganistan

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:01:47 (4409)

1998-03-06 11:01:47# 122. lþ. 81.92 fundur 249#B kúgun kvenna í Afganistan# (umræður utan dagskrár), Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:01]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Fyrir skömmu hrinti hópur 50 heimsþekktra kvenna, undir forustu Emmu Bonino sem fer með mannúðarmál í framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins, af stað herferð til stuðnings konum í Afganistan í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars. Herferðinni hefur verið gefin yfirskriftin ,,Blóm fyrir konur í Kabúl`` og er ætlað að hvetja til þess að stjórn talebana verði beitt alþjóðlegum þrýstingi til að endurreisa réttindi kvenna í landinu.

Eins og frægt er orðið var Emmu Bonino haldið fanginni ásamt fylgdarliði sínu er hún var í opinberri heimsókn í Kabúl í fyrra. Hún hefur fengið sinn skerf af harðvítugri framkomu talebana í garð kvenna.

Þessi hvatning kvennanna 50 er ástæða þess að beðið er um umræðu um málefni kvenna í Afganistan í þinginu í dag þar sem 8. mars er að þessu sinni á sunnudegi.

Í Afganistan er ástandið í mannréttindamálum skelfilegt. Það staðfesta skýrslur mannréttindasamtaka. Á því hefur einnig verið vakin athygli hér í þinginu. Hvergi er þó um jafnáþreifanlega kúgun að ræða og gagnvart konum og stúlkum. Þegar talebanar hertóku Kabúl, þann 27. september árið 1996, var sem konum þar í landi væri varpað árhundruð aftur í tímann. Fyrir hertökuna áttu konur í Afganistan fullan rétt á menntun og tóku virkan þátt í atvinnulífi. Þær voru 50% stúdenta og 60% kennara við háskólann í Kabúl. Þær voru 70% kennara í öðrum skólum og 50% opinberra starfsmanna. Fjörutíu af hundraði lækna í Kabúl voru konur fyrir valdatöku talebana.

Í dag er sem þær hafi þurrkast út úr samfélaginu. Þær mega ekki vinna, ekki mennta sig, ekki fara út nema í skikkju sem hylur líkama þeirra algerlega, fyrir utan örlítinn skjá fyrir augun. Þær mega ekki ganga um í skóm sem heyrist í. Mála þarf yfir rúður húsanna sem þær búa í svo að þær sjáist ekki og trufli karlasamfélagið fyrir utan. Konur eru grýttar og þær eru skotnar fyrir að vera á ferli fylgdarlausar eða í fylgd óskyldra karla.

Mannréttindasamtök hafa bent á að glæpir gegn konum í Afganistan séu ekki grundvallaðir á íslam. Þeir eiga sér ekki stoð í menningararfleifð þjóðarinnar, enda nutu konur þar réttinda sem voru tekin af þeim í einu vetfangi. Samkvæmt íslam er konum heimilað að vinna, þær geta verið fjárhagslega sjálfstæðar og notið frelsis til að taka þátt í opinberu lífi.

Spurningin sem brennur á er hins vegar þessi: Ætlar umheimurinn að láta þessar ofsóknir átölulausar? Hið alvarlega er að þær skuli viðgangast nú í lok 20. aldarinnar og þrátt fyrir að þeim hafi verið mótmælt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og víðar. Þau úrræði sem alþjóðasamfélagið hefur beitt virðast algerlega bitlaus. Þó er rétt að vekja athygli á því að árangur hefur náðst. Til dæmis má benda á að fyrir tilstilli alþjóðanefndar Rauða krossins hafa talebanar nú fallist á að konur fái aðgang að sjúkrahúsum. Um tíma var þeim ætlað að nota aðeins eina stofnun til að sækja sér læknishjálp en sú stofnun uppfyllti á engan hátt sömu kröfur og hægt var að gera til annarra sjúkrahúsa í Kabúl. Þetta dæmi sýnir kannski að það er hægt að hafa áhrif.

Þá er rétt að minna á að á Alþingi var í fyrra samþykkt ályktun frá þingkonum Kvennalistans um stuðning við konur í Afganistan. Henni var vísað til ríkisstjórnarinnar og fróðlegt væri að heyra hvað gert hefur verið til að framfylgja þeirri tillögu.

Háttsettir einstaklingar sem víða koma fram á alþjóðlegum vettvangi geta haft veruleg áhrif með ummælum sínum. Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur t.d. gagnrýnt fyrirlitlega meðferð talebana á konum opinberlega. Það er fordæmi sem fleiri utanríkisráðherrar ættu að gefa gaum. Amnesty International hvetur til þess að ríkisstjórnir heims fordæmi athæfið opinberlega svo mannréttindasamtök og alþjóðastofnanir hafi haldbæran nauðsynlegan þrýsting til að vinna að afnámi ástandsins.

Ég vil hvetja hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnina til þess að taka áskorun kvennanna 50 og mannréttindasamtaka og láta frá sér yfirlýsingu í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna og fordæma meðferðina á konum í Afganistan.

Ég vil auk þess í tilefni af kvenréttindadeginum 8. mars spyrja hæstv. utanrrh.: Hefur ríkisstjórn Íslands komið athugasemdum á framfæri á alþjóðlegum vettvangi vegna ástandsins í málefnum kvenna í Afganistan og ef svo er, hvernig? Hyggst ríkisstjórnin gera eitthvað frekar í þeim málum? Hefur hæstv. utanrrh. lýst því yfir opinberlega að hann og/eða ríkisstjórn Íslands fordæmi meðferð talebana á konum? Telur hæstv. utanrrh. að slíkra yfirlýsinga geti verið að vænta?