Kúgun kvenna í Afganistan

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:06:24 (4410)

1998-03-06 11:06:24# 122. lþ. 81.92 fundur 249#B kúgun kvenna í Afganistan# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ísland hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi sem miðar að því að bæta hag íbúa í Afganistan og tryggja mannréttindi þeirra. Þau mál hafa einnig verið til umfjöllunar á vettvangi utanríkisráðherra Norðurlandanna, m.a. að frumkvæði Íslands. Enginn þarf að efast um vilja íslenskra stjórnvalda til að beita sér í þágu mannréttinda í Afganistan og höfum við tekið þátt í margvíslegum málflutningi í þá veru.

Í New York stendur nú yfir fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þar er til umfjöllunar ályktunartillaga nokkurra ríkja um mannréttindabrot gagnvart konum og stúlkum í Afganistan. Íslensk stjórnvöld eru sammála efni tillögunnar eins og hún liggur fyrir en vonast er til að hún verði afgreidd innan tíðar. Ég nefni þetta sem nýlegt dæmi af stuðningi okkar að viðleitni af þessu tagi á alþjóðavettvangi. Ísland hefur gerst aðili að og stutt fjölmargar tillögur um mannréttindaástandið í Afganistan í gegnum tíðina.

Á síðasta allsherjarþingi, 52. allsherjarþinginu, þar sem ég gerði m.a. málefni kvenna sérstaklega að umræðuefni, studdum við margar ályktanir í þágu kvenna. Má þar nefna ályktun um konur í dreifbýli þar sem ríki eru hvött til að tryggja jafnan rétt karla og kvenna til arfs að landi. Íslömsk ríki gerðu fyrirvara við þetta ákvæði og sögðu að þau gengju gegn lögum íslams. Málefni kvenna og barna settu sterkan svip á störf þriðju nefndar allsherjarþingsins. Með hverju ári er vaxandi þungi í ályktunum um málefni þeirra. Meðal annars kom fram ný ályktun þar sem fordæmdur er umskurður á stúlkubörnum.

Nú stendur yfir alþjóðaár mannréttinda og er nauðsynlegt að hið alþjóðlega samfélag noti það tækifæri til að beita sér í þágu mannréttinda hvort sem um er að ræða algild mannréttindi, réttindi einstakra þjóðfélagshópa eða ástand mannréttinda innan ákveðinna ríkja. Við erum þeirrar skoðunar að mannréttindi séu algild og fordæmum mannréttindabrot sem framin eru í nafni gamalla siða, trúarbragða eða hefða.

Á allsherjarþinginu 1996 voru tvær ályktanir um Afganistan samþykktar án atkvæðagreiðslu. Ísland var meðflytjandi að ályktun um alþjóðlega neyðaraðstoð við Afganistan og almennt ástand þar. Hin tillagan sem fjallaði um ástand mannréttinda í landinu var lögð fram af formanni þriðju nefndar allsherjarþingsins og eru því einstök ríki ekki meðflytjendur. Í fyrri ályktuninni er mismunun gagnvart konum og stúlkum fordæmd sem og önnur brot á mannréttindum og mannúðarlögum. Í síðari ályktuninni er minnt á þjóðréttarlegar skuldbindingar Afganistans um mannréttindi og mismunun gagnvart konum harðlega fordæmd.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur einnig haft málefni Afganistans á sinni könnu undanfarin ár. Á 53. þingi mannréttindaráðsins í Genf 1997 lagði formaður fram yfirlýsingu um ástand mannréttinda í Afganistan. Slíkar yfirlýsingar eru ekki bornar undir atkvæði. Ísland á áheyrnaraðild að ráðinu en Danir sitja í því fyrir hönd Norðurlanda. Næsta þing ráðsins hefst innan tíðar og mun þá mannréttindaástandið í Afganistan aftur koma til kasta hins alþjóðlega samfélags.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna fjalla reglulega um mannréttindaástand víða um heim á öllum fundum sínum. Á þeim vettvangi hef ég m.a. haft frumkvæði að því að taka til umræðu málefni kvenna í Afganistan. Við ráðherrarnir höfum rætt um með hvaða hætti best er að berjast fyrir réttindum þeirra á alþjóðavettvangi til viðbótar við það sem þegar hefur verið gert. Ég hef talið mikilvægt að Norðurlöndin standi saman í þeirri baráttu.

Átökin og ástandið í Afganistan, þar með talið brot á mannréttindum og mannúðarlögum, hafa verið á dagskrá Sameinuðu þjóðanna enda er ástandið ógnun við frið og öryggi í þessum heimshluta. Starfandi er sérstakur talsmaður fyrir Afganistan sem gerir stofnunum samtakanna grein fyrir stöðu mála í landinu. Framkvæmdastjóri gerir öryggisráðinu einnig reglulega grein fyrir þróun mála í Afganistan. Hann hefur ásamt forstöðumönnum nokkurra stofnana Sameinuðu þjóðanna minnt valdhafa Afganistans á þær skyldur þeirra að virða grundvallarmannréttindi, þar með talið jafnrétti kynjanna. Þess má einnig geta að í október 1996 samþykkti öryggisráðið sérstaka ályktun um ástandið í Afganistan. Í ályktuninni eru látnar í ljós miklar áhyggjur af þeim kynjamismun sem nú viðgengst í Afganistan.

Það sem öllu máli skiptir í málefnum Afganistans er að tryggja frið í landinu. Þetta er að sjálfsögðu undirstrikað í ályktunum allsherjarþingsins og öryggisráðsins. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur sett á laggirnar hóp af fulltrúum ríkja sem gætu haft áhrif á stríðandi fylkingar í Afganistan. Ekki verður hægt að hefja nauðsynlegt uppbyggingarstarf í landinu fyrr en samið hefur verið um frið en það mun kalla á mikla alþjóðlega aðstoð. Í Afganistan hafa alist upp kynslóðir sem ekkert þekkja annað en lögmál ófriðar eftir nærri tveggja áratuga stríðsástand. Þessar kynslóðir þarf að aðlaga lífi á friðartímum og fræða um mannréttindi.

Herra forseti. Í síðari ræðutíma mínum mun ég reyna að koma betur inn á spurningar hv. þm.