Kúgun kvenna í Afganistan

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:12:02 (4411)

1998-03-06 11:12:02# 122. lþ. 81.92 fundur 249#B kúgun kvenna í Afganistan# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:12]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Af hverjum erum við á Íslandi að tala um stöðu kvenna í Afganistan? Af því að okkur varðar um kynsystur okkar í fjarlægu landi sem eru fangar á heimilum sínum. Við eigum að leggja þeim lið. Af því að Ísland getur ekki einungis látið til sín taka á alþjóðavettvangi heldur eigum við að fara á undan öðrum þjóðum og vera kyndilberar fyrir mannréttindi í heiminum.

Það er vert að íhuga hvað gerist þegar þjóð sem er komin á ákveðið menningarstig, þar sem sjálfsögð mannréttindi eru virt, snýr skyndilega við blaðinu. Konur þeirrar þjóðar hafa sótt fram, menntast og tekið þátt í þjóðlífinu á jafnréttisgrundvelli. Hvað gerist þegar þessum réttindum er svipt burt í einni svipan og þjóðinni stýrt inn í svartar miðaldir? Hvar kemur kvennasáttmálinn inn í þennan veruleika? Samningurinn um bann við mismunun gegn konum sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1979 og undirritaður fyrir Íslands hönd 1980 er eins konar yfirlýsing aðildarþjóðanna. Einstaklingar innan ríkjanna geta borið samninginn fyrir sig í sínu heimalandi, t.d. í dómsmáli en það þarf að gera samninginn virkari.

Í næstu viku verður þing í New York þar sem leitast verður við að ganga frá sérstökum viðauka við þennan sáttmála. Þar verður opnuð kæruleið vegna brota á samningnum. Fundurinn er mjög mikilvægur. Ef hægt verður að finna áhrifaríkar kæruleiðir er samningurinn kominn með allt aðra stöðu og verður beittara vopn í baráttu kvenna gegn kúgun og misrétti í heiminum. Því spyr ég hæstv. utanrrh. hvort hann hyggist senda fulltrúa á þetta þing. Ef svo er, hver verða þau skilaboð sem Ísland hyggst koma með á þann fund?

Staðreyndin er sú að enginn hefur orðið var við viðbrögð yfirvalda við þessari umræðu úti í heimi. Enn hefur engin umræða átt sér stað hér á landi. Að síðustu spyr ég hæstv. utanrrh.: Mun hann beita sér fyrir því að Ísland verði aðili að viðaukanum og fullgildi hann?