Kúgun kvenna í Afganistan

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:18:40 (4414)

1998-03-06 11:18:40# 122. lþ. 81.92 fundur 249#B kúgun kvenna í Afganistan# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:18]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í fréttum í morgun var sagt frá því að það ríkti hungursneyð á ákveðnum svæðum í Afganistan vegna þeirra miklu átaka sem þar eiga sér stað. En þó að átök séu víða í landinu þá eru þar við völd stjórnvöld sem beina spjótum sínum sérstaklega að konum. Það er flóttamannastraumur kvenna út úr landinu. Konur í Kabúl hafa komið á fót neðanjarðarskólum og neðanjarðarsjúkrahúsum til þess að reyna að aðstoða þær konur og stúlkur sem hefur verið hent út úr skólum og hafa ekki einu sinni fengið að fara inn á sjúkrastofnanir til að fæða börn. Og því miður er ástandið svo alvarlegt, eftir því sem ég las hér í glænýrri grein í The Sunday Times, að sjálfsmorðstíðni kvenna er óhugnanlega há. Þær sjá ekki annan kost en að svipta sig lífi vegna þess að þeim er gert ókleift að sjá sér farborða. Þetta er stríðshrjáð land þar sem mikið er af ekkjum og munaðarleysingjum og þeim er bannað að vinna fyrir sér þannig að þær eiga engra kosta völ.

Mannréttindabrotin í þessu ríki eru alveg með ólíkindum og ég hygg að ekki hafi annað eins sést síðan á þriðja og fjórða áratugnum í Sovétríkjunum og Þýskalandi þó að reyndar megi leita svipaðra dæma víðar en þar. Það er gríðarlegt áhyggjuefni þegar bókstafstrúarhreyfingar ná slíkum völdum og maður spyr sig: Getur slíkt gerst annars staðar? Þar getum við t.d. beint sjónum að Alsír þar sem skyld hreyfing beitir hroðalegum aðferðum.

Ég vil skora á hæstv. utanrrh. að beita sér hvar sem hann getur og íslensk stjórnvöld og íslenska þingmenn alls staðar þar sem þeir eru á ráðstefnum og í alþjóðasamstarfi. Þetta er ástand sem við getum ekki horft upp á. Við eigum að beita okkur og vera, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði: ,,kyndilberar í mannréttindamálum``.