Kúgun kvenna í Afganistan

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:22:56 (4416)

1998-03-06 11:22:56# 122. lþ. 81.92 fundur 249#B kúgun kvenna í Afganistan# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:22]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir að taka þetta mál hérna upp og gefa okkur þingmönnum tækifæri til þess að sýna í umræðum stuðning okkar við þetta átak, þ.e. að mótmæla kúgun kvenna í Afganistan. Þarna er búið að taka sjálfsögð mannréttindi af konum og það ber svo sannarlega að mótmæla því. Hins vegar verður að viðurkennast að kúgun kvenna í fjarlægum ríkum er ansi fjarlæg okkur hérna. Við erum mjög upptekin af okkar eigin samfélagi, um hlutfall kvenna hér í stjórnmálum, um vinnuálagið á konum almennt í okkar íslenska þjóðfélagi þannig að það er afar gott að skoða heiminn í víðara samhengi eins og við erum að gera hér nú.

Fyrir stuttu urðum við persónulega vör við þessa kúgun kvenna í fjarlægum löndum þegar þingmenn frá Kúveit komu og heimsóttu þingið og heimsóttu utanrmn. Alþingis. Þá varð maður beinlínis var við þessa kúgun. Þessir þingmenn vildu ekki heilsa kvenkyns þingmönnum hér í þinginu þannig að utanríkismálanefndin stillti sér ekki upp eins og venjulega fyrir utan þingflokksherbergið hér niðri, heldur sat inni í þingflokksherberginu þegar gestirnir komu til þess að ekki þyrfti að koma til þess að þeir heilsuðu einungis karlmönnunum en ekki konunum sem eru í utanríkismálanefndinni. Þetta er vegna þess að menn frá þessum löndum snerta ekki konur annarra manna því konur eru álitnar eign mannanna.

Á þessum fundi var líka spurt af hverju konur hefðu ekki kosningarrétt í Kúveit og svarið var: ,,Jú, þetta er lýðræðið. Borin var upp tillaga um það í þinginu, þar sem karlmennirnir sitja, en henni var hafnað.`` Þarna varð maður því áþreifanlega var við þá gífurlegu kúgun sem konur þurfa að lifa við í erlendum ríkjum.

Ég vil nota tækifærið í lokin og spyrja hæstv. ráðherra hvort að ríkisstjórnin sem ætlar að veita meira fé núna til þróunaraðstoðar, ætli að beina því sérstaklega í farveg til kvenna, af því að rannsóknir sýna að þannig nýtist féð best.