Umræða um húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:42:42 (4424)

1998-03-06 11:42:42# 122. lþ. 81.93 fundur 250#B umræða um húsnæðismál# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum með þennan úrskurð hæstv. forseta. Ég tel að það hafi verið stutt ærnum rökum og sé eðlilegt að fresta umræðu um þessi stóru mál og gefa þingmönnum betri tíma til að kynna sér þau og lesa þau saman og taka síðan umræður um þau þess vegna á sama degi eftir helgi. Það frv. sem var útbýtt í gær vísar um dæmi og frekari rökstuðning og útreikning í frv. félmrh. og öfugt. Það er með öðrum orðum svo að þessi frv. eru svo nátengd að það er nánast ómögulegt að ræða þessi hluti af viti og í samhengi öðruvísi en að menn hafi haft tíma til þess að kynna sér þau bæði og bera þau saman.

Ég vek athygli á því að hér eru ekki neinar smásmíðar á ferð. Frv. hæstv. félmrh. er hálfgerð bók sem felur í sér umbyltingu á allri skipan húsnæðismála í landinu. Það hefur af minna tilefni einhvern tíma verið tekið smá tilhlaup í umræður um slík mál. Og síðan er frv. um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt og vaxtabótaþáttinn algjörlega afgerandi um það hvort þessi breyting komi út fyrir húsbyggjendur í landinu eins og boðað er í greinargerð með frv. Það skiptir því miklu máli að hægt sé að ræða þessa ríkisfjármála- og skattahlið málsins í samhengi. Ég spyr einnig: Er hæstv. fjmrh. til staðar til að vera viðstaddur þessa umræðu í dag? Það er algjör markleysa að ræða þessi mál öðruvísi en að bæði félmrh. og fjmrh. séu til staðar og geti svarað til um hluti burt séð frá því hvort frv. er undir í hvort skiptið. Og þó að það sé óhefðbundið að ræða saman frv. sem flutt eru hvort af sínum ráðherranum þá hefði í þessu tilviki að mínu mati vel komið til greina að gera það til að hér hefði mátt verða ein, samfelld og heildstæð og vitræn umræða um þessu stóru mál.

Ég leyfi mér því, herra forseti, að hvetja forseta til að velta því fyrir sér hvort ekki séu tök á því að endurskoða þessa niðurstöðu og fresta umræðunni fram yfir helgi.