Umræða um húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:45:04 (4426)

1998-03-06 11:45:04# 122. lþ. 81.93 fundur 250#B umræða um húsnæðismál# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:45]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram og minni á að það var ekki á starfsáætlun þingsins að funda í dag. Þessi fundur bættist á okkar verkáætlun fram til vors án þess að fyrir liggi hvort það hafi áhrif á lengd þingsins til vors eða ekki. Þegar við tökum slíka daga undir þá hefur það oftast verið gert í sátt um þau mál sem tekin eru fyrir. Slíkir aukadagar hafa verið teknir af ákveðnu tilefni.

Nú erum við hér stödd. Ég verð að viðurkenna að mér hnykkti við í gær þegar ég heyrði orðaskipti þar sem ég var að fylgjast með umræðu. Ég heyrði að verið væri að dreifa vaxtabótafrv. Hvað sem hver segir, þá hefur það frv. áhrif á umræðuna um húsnæðismál. Það varpar ljósi á þýðingu þess að afnema niðurgreiðslur vaxta í félagslega húsnæðiskerfinu og taka upp vaxtabætur. Fyrir okkur sem höfum reynt skoða þessa bók til þess að fara í umræðu núna er engin leið að fara af einhverju viti inn í þá umræðu um vaxtabætur eða frv. sem er mjög tæknilegt.

Auðvitað áttu þessi frumvörp að koma saman inn í þingið og auðvitað áttu þingmenn að fá eðlilegan aðdraganda að því að taka til umræðu svo tilþrifamikið þingmál, virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að nota það orðalag. Húsnæðisfrv. er tilþrifamikið en ég skýri ekki frekar hvað felst í því orði.

Frv. því sem við ætlum að ræða hér var dreift á borð þingmanna seint á þriðjudag. Síðan eru liðnir annasamir dagar, miðvikudagur og fimmtudagur. Við erum um það bil að taka til umræðu mál sem gæti orðið afdrifaríkt fyrir þúsundir heimila í landinu. Hér er enginn griður gefinn, enginn frestur fáanlegur. Ég harma það, virðulegi forseti, að ekki hafi náðst samstaða um að bíða fram yfir helgi. Þingmenn hefðu þá haft helgina til þess að skoða þingmálið.

(Forseti (ÓE): Forseti hefur heyrt þessi ítrekuðu tilmæli en getur ekki orðið við þeim. Forseti óskar eftir að sæmileg samstaða náist nú um að hefja umræðu um dagskrármálin.)