Umræða um húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:47:53 (4427)

1998-03-06 11:47:53# 122. lþ. 81.93 fundur 250#B umræða um húsnæðismál# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:47]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég harma það að forseti skuli ekki geta orðið við þessum tilmælum okkar. Hér er ekki um neitt venjulegt frv. að ræða. Það er eitt viðamesta sem lagt hefur verið fyrir þingið í allan vetur. Hér er frv. til laga um hægri byltingu í húsnæðismálum. Frv. gengur út á að afnema félagslega húsnæðislánakerfið. Nú skal leggja verkamannabústaðakerfið niður og svipta öllum félagslegum þáttum út úr húsnæðiskerfinu í landinu. Á sama tíma er gert ráð fyrir að hið félagslega í málinu komi í gegnum vaxtabótafrv. Það þyrfti því að ræðast um leið en því er neitað. Auðvitað hafa ýmis orð verið höfð um virðingarleysi við Alþingi og þess háttar en það hrín ekki á stjórnarmeirihlutanum. Ég nenni því ekki að endurtaka það. Bersýnilegt er að það er gagnslaust að fara fram á að umræðunni séu búnar þolanlegar aðstæður.

Ég bendi á að nú, frá og með þessum degi, er að hefjast, með hliðsjón af því sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi, vorlotan í þinginu. Miðað við starfsáætlun Alþingis eru ekki margar fundavikur eftir. Auðvitað hefði verið eðlilegt að hefja vinnu við að skipuleggja þær sem eftir eru. Við vorum búin að skipuleggja þær en nú, með þessum ákvörðunum og með því að þrýsta þessum málum svona inn hér og vaxtabótafrv. líka, þá er búið að setja þá vinnu í talsverða hættu. Það verður að taka þá vinnu upp á ný og ef ríkisstjórnin ætlar sér að þrýsta öllum þessum málum í gegnum þingið, eins og mér virðist ætlunin að gera, þá teygist vitanlega úr þinginu fram að sveitarstjórnarkosningum. Menn geta út af fyrir sig tekið ákvörðun um það hvort þeir vilja halda þingfundi á kosninganóttina milli 23. og 24. maí.