Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 13:28:58 (4434)

1998-03-06 13:28:58# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[13:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé að eyða svolitlum tíma í það í byrjun að fara yfir aðdraganda að frumvarpssmíð hæstv. félmrh. og kringumstæður málsins sem eru nokkuð sérkennilegar satt best að segja og eru menn þó orðnir ýmsu vanir í samskiptum ríkisstjórnarinnar við verkalýðshreyfinguna og reyndar einnig þeirrar sem á undan sat.

Það eru heilmikil tímamót í sögu húsnæðismála á Íslandi, a.m.k. á þessari öld, ef á að fara að gera meiri háttar umbyltingu á húsnæðiskerfinu án þess að verkalýðshreyfingin sé svo mikið sem kölluð til ráðagerða, hvað þá að hún sé beinn þátttakandi að því eins og hún hefur lengst af verið með öllum meiri háttar breytingum, a.m.k. hvað varðar tilkomu félagslegs íbúðarhúsnæðis á Íslandi á þessari öld. Það er athyglisverður minnisvarði sem hæstv. félmrh. Páll Pétursson er á góðri leið með að reisa sér í sögunni að vera fulltrúi hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og tengiliður hennar við vinnumarkaðinn og verkalýðshreyfinguna alveg sérstaklega og umgangast þau samskipti með þeim hætti sem hæstv. ráðherra hefur gert. Það verður örugglega eftir því tekið og um það fjallað á spjöldum sögunnar að hæstv. ráðherra hafi látið hafa sig til þeirra verka sem raun ber vitni.

Það vekur mikla athygli, herra forseti, þegar farið er yfir það hversu þrengslalega hæstv. ráðherra hefur kosið að láta vinna að gerð þessarar endurskoðunar á húsnæðismálum. Í greinargerð eru sérstaklega raktar tvær nefndir eða starfshópar sem komu að þessu fyrir hæstv. ráðherra. Annar mun hafa borið nafnið samráðshópur og hinn starfshópur. Það er ábyggilega mjög mikill munur á þessu tvennu þó að verulegu leyti sitji sömu mennirnir í báðum hópunum, t.d. er aðstoðarmaður ráðherra að sjálfsögðu í báðum nefndunum. En í samráðshópnum sat að vísu einn tengiliður frá sveitarstjórnunum eða við skulum gefa okkur að svo hafi verið þar sem var bæjarstjórinn á Selfossi, (Fjmrh.: Þeir voru tveir.) já, og reyndar annar frá Reykjavíkurborg en síðan komu aðstoðarmenn ráðherranna eins og venjulega og reyndar Gunnar S. Björnsson, varaformaður húsnæðismálastjórnar, og skyldi nú ekki vera að hann hafi verið eins konar fulltrúi Sjálfstfl. inni í þessu batteríi því að hann mun hafa verið skipaður til þeirrar stjórnar af þeim um langt árabil, hinn mætasti maður sem þekkir ágætlega til í byggingariðnaðinum eins og kunnugt er.

Þarna voru að sjálfsögðu þeir Steingrímur Ari Arason og Árni Gunnarsson, aðstoðarmenn fjmrh. og félmrh., og mikið verð ég að segja að ég dáist að þeim mönnum hvernig þeir geta verið í endalausum starfshópum út og suður. Ég held að nafni minn Ari Arason hljóti að vera einn duglegasti maður í heimi því að hann er í öllum nefndum sem fjmrh. skipar og það stappar nærri að vera eins með Árna Gunnarsson, aðstoðarmann félmrh. Það hlýtur að vera miklu lengri sólarhringurinn hjá þessum mönnum en okkur hinum því að annars kæmust þeir ekki yfir það að vera í öllum þessum nefndum fyrir húsbændur sína.

Í starfshópnum voru svo þeir Hákon Hákonarson, formaður húsnæðismálastjórnar, og gæti verið eitthvað tengdur Framsfl., það er hugsanlegt, (Gripið fram í.) hann er að vísu hinn mætasti maður og allt það, áðurnefndur Gunnar S. Björnsson í báðum hópunum, fulltrúi Sjálfstfl. og varaformaður húsnæðismálastjórnar, Páll Gunnar Pálsson, deildarstjóri í iðnrn.- og viðskrn., stórættaður maður, Steingrímur Ari Arason aftur og Árni Gunnarsson. Blessaðir drengirnir báðir aftur í bæði samráðshópnum og starfshópnum. Þvílíkt álag sem er á þessum mönnum. Svo eru menn undrandi á því að það sé hugmyndaauðgi og það hafi komið sjónarmið úr ýmsum áttum inn í starfið þegar svona fjölbreytilegt mannval er úr ýmsum áttum sem endurspeglar allar víddir þjóðfélagsins, stéttir, aldur og kyn, þessir fínu ungu karlar, aðstoðarmenn ráðherranna. Auðvitað er hægt að búa til fleiri nöfn. Því var ekki skipuð nefnd og ráðgjafarhópur t.d., það er fínt nafn. Ég hefði talið enn þá betra ef þriðji hópurinn hefði komið að þessu og hann hefði verið kallaður ráðgjafarhópur og í honum hefðu verið Gunnar S. Björnsson, Steingrímur Ari Arason, Árni Gunnarsson, jafnvel Páll Gunnar Pálsson, það hefði farið mjög vel á því. Þetta hefði verið enn betra o.s.frv. (Gripið fram í: Og svo umsagnaraðilar.)

Staðreyndin er náttúrlega sú að vinnubrögðin og nálgun hæstv. félmrh. og hæstv. ríkisstjórnar er neðan við allar hellur. Hringja svo í forustumenn verkalýðshreyfingarinnar í landinu korteri áður en á að gera þetta þetta hugarfóstur aðstoðarmannanna opinbert og hóa í þá og segja: Við viljum endilega hafa samráð við ykkur um breytingar í húsnæðismálum. Korter fyrir 12. Svo ekki sé talað um og minnst á það að stjórnarandstaðan sé höfð með í ráðum. Man hæstv. félmrh. þá tíma fyrir eins og áratug þegar mikið gekk á í húsnæðismálum? Ekki hefði mönnum dottið í hug eitt augnablik þá að láta heildarendurskoðun á löggjöf og málefnum húsnæðismálanna fara fram án þess en verkalýðshreyfingin ætti fulla aðild að því máli. Jafnvel Vinnuveitendasamtökin komu inn í það á köflum og stjórnarandstaðan. Ég sat sem stjórnarandstæðingur í nefndum, t.d. í nefnd sem var að undirbúa upptöku húsbréfakerfisins og fleiri slíkar kerfisbreytingar í húsnæðismálum. Það þótti sjálfsagður hlutur að stjórnarandstæðingar væru með í slíkri vinnu frá byrjun. En nú er öldin önnur. Það skyldi þó ekki vera að hæstv. félmrh. hafi stundum, t.d. á síðasta kjörtímabili þanið sig heilmikið yfir því að stjórnarandstaðan væri ekki höfð með í ráðum þá. En svona er þetta nú. Þegar menn eru einu sinni sestir í hin hægu sætin, orðnir ráðherrar og komnir með aðstoðarmenn, sérstaklega ef þeir tilheyra Framsfl., þá er þetta bara haft innan fjölskyldunnar. Ég sé ekki annað en það hefði vel verið hægt að halda alla þessa fundi á Höllustöðum og senda svo bréfið þaðan.

Þetta er, herra forseti, dapurlegt vegna þess að ekki er verið að fjalla um dægurmál, hér er ekki verið að fjalla um smámál sem er fyrirgefanlegt að menn þjóni pólitískri lund sinni og sérvisku og eigi bara við um sjálfa sig. Hér er verið að fjalla um hina mikilvægustu löggjöf í landinu og hér er verið að fjalla um málaflokk sem mjög löng hefð er fyrir að reyna að hafa sem breiðasta og almennasta samstöðu um, hafa verkalýðshreyfinguna með í ráðum og reyna að ná pólitísku eða þverpólitísku samstarfi eins og kostur er. Hæstv. félmrh. Páll Pétursson hefur hafnað þessum aðferðum. Tilkoma frv. og aðdragandi er mjög skýr yfirlýsing að því leyti að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með hæstv. félmrh. Pál Pétursson í broddi fylkingar slítur samstarfinu við verkalýðshreyfinguna á Íslandi um húsnæðismál. Hún gerir það --- og hefur þegar slitið öllu samstarfi við stjórnarandstöðuna svo það kemur út af fyrir sig minna á óvart.

Kannski komi þeir tímar aftur að verkalýðshreyfingin neyðist til þess að beita verkfallsvopninu til þess að geta haft áhrif á mótun húsnæðislöggjafar á Íslandi. Það hefur hún stundum þurft að gera. Ýmsum mikilvægum réttindamálum sem almenningur í landinu býr við, eða hefur a.m.k. búið við þar sem ekki er búið að rífa af mönnum á síðustu tveimur kjörtímabilum, náðu menn fram með harðri baráttu og verkföllum. Er það sá samskiptamáti sem hæstv. félmrh. er að mæla með sem er jafnframt ráðherra vinnumarkaðsmálanna? Það er hart að þurfa að trúa því. En hvenær og hvernig á verkalýðshreyfingin að hafa áhrif á þessi mál ef framkoman við hana er sú sem við verðum hér vitni að?

Svo kemur að innihaldinu og þess sér að sjálfsögðu stað að hinum víðsýnu aðstoðarmönnum ráðherranna finnst sjálfsagður hlutur að halda áfram og henda verkalýðshreyfingunni t.d. út úr húsnæðisnefndunum þannig að þetta er ekki bara aðferðafræðin heldur líka innihaldið. Að sjálfsögðu dregur það dám af vinnubrögðunum og því hvernig þetta er allt saman lagt upp.

Herra forseti. Hér eru engin dægurmál eða smámál á ferðinni. Sú breyting sem lögð er til er a.m.k. á hina formlegu hlið gífurleg, hún er umbylting á kerfinu eða kannski er nær að segja að því er kollvarpað. Félagslegu húsnæðiskerfi, félagslegu ákvæði í löggjöf um húsnæðismál er í raun og veru hent út. Þau eru lögð niður. Þetta er allt sett í einn sjóð. Verið er að markaðsvæða 100% íbúðalán á Íslandi með þessari aðgerð. Þegar búið verður að leggja niður Byggingarsjóð verkamanna og Byggingarsjóð ríkisins og húsbréfadeild, stofna þennan nýja Íbúðalánasjóð, verður engin aðgreining möguleg eða hugsanleg á lánum. Þau verða öll með sömu vöxtum, þau verða öll á markaðskjörum, þau verða öll ef svo ber undir að sæta afföllum á markaði o.s.frv. Með öðrum orðum gengur kerfisbreytingin út á að henda út úr löggjöfinni um húsnæðismál öllu sem heitir félagsleg viðmið, félagsleg grundvallarviðhorf. Hins vegar er sagt að þau eigi að koma inn hinum megin, þau eigi að koma inn í gegnum vaxtabætur og það er vísað á þær um allt sem heitir jöfnun eða stuðningur við þá sem eiga undir högg að sækja hvað varðar húsnæðisöflun í landinu og þá á sveitarfélögin.

Við skulum líta þá aðeins nánar á það, herra forseti, en fyrst er kannski rétt að fara yfir stjórnsýsluþáttinn sem fjallað er um í öðrum þætti frv. --- ég kann ekki alveg þetta þáttatal og kaflatal, en það er engu að síður svo að hér er ýmist talað um þætti eða kafla --- og í öðrum þætti og öðrum kafla er fjallað um stjórnskipulag húsnæðismálanna. Nú verður engin Húsnæðisstofnun. Hvernig ætli það sé, herra forseti, í anda þess lýðræðis og þeirrar valddreifingar sem Framsfl. er auðvitað frægur fyrir með ,,fólkið í fyrirrúmi``? Jú, það er að sjálfsögðu þannig að hæstv. félmrh. ætlar að ráða öllu einn. Það væri alveg ástæðulaust að vera með nema þessa einu línu í lögunum, 3. gr. Hún er ein lína, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til.``

Mín vegna mætti löggjöfin nánast vera svona því að ég sé ekki annað en það kæmi út á eitt efnislega. Ráðherrann ræður þessu. Hann ætlar sér að tilnefna eigin hendi fimm manna stjórn. Hann ræður því að sjálfsögðu hver verður formaður og varaformaður úr þeim hópi sem hann tilnefnir sjálfur og síðan er það þannig að víðast hvar annars staðar í lögunum þar sem einhverjar ákvarðanir sem máli skipta eru að nafni til settar undir stjórn Íbúðalánasjóðs þurfa þær samþykki félmrh. þannig að hann þarf að skrifa upp á það eftir sem áður. Ég tók að vísu eftir því við vandlega leit og fann eitt ákvæði sem lítur svo út a.m.k. sem ráðherrann ætli ekki að ráða beint, þ.e. aðeins óbeint og það er hver er ráðinn framkvæmdarstjóri enda gæti farið betur á því ef þyrfti að koma einhverjum flokksgæðingnum fyrir í því djobbi að það væri ekki alveg nakið að það væri félmrh. sjálfur sem réði því. Þá væri ágætt að hafa einhverja fimm leppa til að bera ábyrgð á því að ráða manninn en að sjálfsögðu ræður ráðherra því sem sjálfur skipar mennina og ræður hver er formaður og varaformaður þannig að hér er öllu hent út, hent á haugana sem heitir lýðræði og eðlileg stjórnsýsla í þessum málaflokki. Það er furðuleg hugsun að leggja að jöfnu eitthvert hlutafélag, t.d. iðnfyrirtæki sem ríkið á og rekur sem hlutafélag úti á markaðnum og málaflokk af þessu tagi sem húsnæðismálin eru nema það sé sú framtíð sem verið er að vísa í að þetta verði einkavætt, þetta sé til marks um það að í raun og veru sjái ríkisstjórnin og hæstv. félmrh. þetta fyrir sér sem tímabundið ástand, áfanga að því að einkavæða þetta að fullu og öllu. Og því ekki það? Hversu mikill munur verður orðinn á því þegar um 100% markaðslán er að ræða að öllu leyti og ekki vottar á neinn hátt fyrir félagslegri hugsun í löggjöfinni sem slíkri að láta þá einkaaðila fara að reka sjóðinn? Það er bara stigsmunur en ekki eðlis að verða á því.

Þetta er alveg ofboðslegt, herra forseti, og sögulega séð alveg með ólíkindum að ráðherra flokks, sem telur sig vera miðjuflokk, ég tala nú ekki um kennir sig stundum þegar það hentar í hinum pólitísku sviptivindum við félagsleg viðhorf eða samvinnu eða eitthvað því um líkt, hann skuli standa fyrir svona hlutum. Er þetta ekki alveg sönnun þess að Framsfl. er endanlega giftur í þessu hjónabandi sínu með íhaldinu og er bara í skítverkunum fyrir íhaldið? Þetta er nánast 100% húsnæðisstefna Sjálfstfl. frá síðasta landsfundi hans nema það er bara ekki farið jafnlangt fram í tímann og þar var gert því þar átti að einkavæða hinn nýja Íbúðalánasjóð árið 2000. En það er ekkert því til fyrirstöðu að það verði gert að tveimur árum liðnum. Þetta er góður undirbúningur fyrir það.

Valdasamþjöppunin í þessu frv., herra forseti, er með ólíkindum. Ráðherra ræður málaflokknum, ráðherra skipar stjórn Íbúðalánasjóðs, ráðherra setur stjórnum reglugerðir og mótar starfsramma hans. Ráðherra þarf að samþykkja allar mikilvægustu ákvarðanir stjórnarinnar. Ráðherra skipar undirbúningshóp til að koma fyrirbærinu á laggirnar. Og ráðherra skipar matsnefndina. Ráðherra gerir þetta allt þannig að það verða auðvitað sömu mennirnir í öllum þessum nefndum. Þeir Steingrímur Ari og Árni Gunnarsson verða auðvitað í undirbúningshópnum og matsnefndinni. Ekki dettur mér eitt augnablik annað í hug. Þannig er þetta. Það er lýðræðið sem hér er á ferðinni.

[13:45]

Herra forseti. Við hljótum að staldra sérstaklega við þá efnisbreytingu sem hér er á ferðinni, að leggja niður Byggingarsjóð verkamanna. Það er enginn vafi á því að af mörgu sem hlýtur að koma til skoðunar í frv. þá er það veigamest í mínum huga að með frv. er Byggingarsjóður verkamanna og áratugalangri sögu félagslegs húsnæðiskerfis og félagslegs íbúðalánakerfis lokið. Því er lokið ef þetta verður lögfest og þessar breytingar ná fram að ganga. Það gleðjast auðvitað ýmsir yfir því. Það er alkunnugt að Sjálfstfl. hefur mjög lengi viljað þetta kerfi feigt og einstöku menn í þeim hópi hafa verið svo hraustir að þeir hafa viðurkennt það, og það er vissulega algjör snilld, en það hafa ekki allir sjálfstæðismenn treyst sér til að skrifa upp á það og það hefur jafnan átt sér málsvara í þeim hópi og á þingi hafa setið ágætir menn sem vörðu það. Mig minnir t.d. að ýmsir Guðmundar hafi verið á þingi fyrir Sjálfstfl. bæði fyrr og síðar sem hafi staðið vörð um þetta kerfi. Og það er alveg hrein snilld hjá Sjálfstfl. að fá Framsókn til að gera þetta fyrir sig. Það er hrein snilld. Samþykkja þetta á landsfundi og svo gengur Framsókn í skítverkin, alveg sjálfviljug. Það verður ekki annað séð á hæstv. félmrh. en honum hafi verið það tiltölulega ljúft að leika þetta böðulshlutverk á félagslega húsnæðiskerfinu fyrir Sjálfstfl. Ég sé að hv. þm. Pétur Blöndal er með óvenjulegum gleðibrag hér úti í salnum. Það skyldi nú ekki vera að þetta væri einn af hátíðisdögunum í lífi hans þegar til umræðu er að ganga af félagslega húsnæðiskerfinu dauðu. Hvað á að koma í staðinn, herra forseti? Hvað á að taka við? Hvar er hin félagslega hugsun Framsfl. á ferðinni? Jú, hún er í þessu snifsi um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Því það er trixið, það er snilldin. Það á að vísa öllu í vaxtabótakerfið. Viðbótarlán og vaxtabætur er það sem menn fá í staðinn fyrir Byggingarsjóð verkamanna og félagslegt húsnæðiskerfi sem á sér áratugalanga sögu í landinu. Hvernig skyldi það nú ganga, herra forseti, og hvað segir sagan okkur í þeim efnum? Hvernig hefur það verið undanfarin 10--15 ár? Hvernig hafa þeir hlutir haldið? Og hefur þó ekki vantað svardagana. Það var svarið og sárt við lagt að auðvitað yrðu vextir aldrei hækkaðir á útlánum Byggingarsjóðs verkamanna, en það var samt gert. Það var svarið að vaxtabæturnar yrðu ekki skertar, en það var samt gert nokkrum árum síðar. Þannig má áfram telja. Hvernig hefur gengið með barnabæturnar?

Það sem menn verða að hafa í huga er að menn eru að selja allt sem þeir eiga undir, sem að nafninu til eiga að njóta stuðnings við húsnæðisöflun, í hendurnar á stjórnvöldum við afgreiðslu fjárlaga á hverju einasta ári. Reynslan sýnir okkur að það er hægara um vik en svo að í því sé mikið pólitískt hald að skerða slíkar bætur þegar þetta er einu sinni komið inn í þann farveg. Það væri hreinn barnaskapur ef menn skipta á því að hér eru falleg fyrirheit um að vaxtabæturnar eigi að vega upp þennan mun, og hinu að hafa grundvallarfjármögnun á húsnæðinu á hagstæðum kjörum bundnum til langs tíma. Það er hreinn barnaskapur að bera þetta tvennt saman því að við vitum að það er hægur leikur ósvífnum aðilum sem komast til valda, ég tala nú ekki um ef þeir eru svo heppnir að geta borið fyrir sig erfiðleika í þjóðarbúskapnum, sem því miður munu örugglega eiga eftir að ganga yfir okkur aftur eins og þeir hafa alltaf gert af og til, þá er mönnum ekkert heilagt, eins og kunnugt er. Þá er mjög nærtækt að grípa til aðgerða af þessu tagi, skerða pínulítið í senn, 50 millj. á þessu ári, 100 millj. á næsta ári og áður en við er litið er stuðningurinn orðinn að engu. Sagan er öll full af slíkum ferlum. Hún er vörðuð af loforðum um stuðning, bætur, jöfnun sem síðan hafa verið svikin. Það sem hér er verið að reyna að selja mönnum er það að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið og taka upp svona stuðning í staðinn. Það eru vond skipti í mínum huga, mjög vond skipti. Ég hef enga trú á að þetta gangi upp. Ég er jafnsannfærður um það nú og ég hef verið oft áður að þessar æfingar í húsnæðismálum, verði menn svo ógæfusamir að fara út í þær, verða jafnskammlíf fyrirbæri og ýmsar aðrar á undangengnum árum.

Það er auðvitað umhugsunarefni fyrir þá sem þekkja þessa sögu dálítið aftur í tímann að það er eins og hver einasti félmrh. þurfi að reisa sér það minnismerki að slátra húsnæðislánakerfi forvera síns og byggja upp sitt eigið. Það er alveg merkilegt en þannig hefur það verið svo lengi sem ég man og hef fylgst með íslenskum stjórnmálum. Alexander Stefánsson þurfti auðvitað sitt kerfi, hæstv. fyrrverandi ráðherra. Svo kom næsti ráðherra og hann lagði niður kerfi Alexanders og tók upp sitt. Það var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, t.d. og fleiri þingmenn krata. Svo kemur Páll okkar Pétursson, hæstv. félmrh., og auðvitað leggur hann niður kerfi Jóhönnu og tekur upp sitt kerfi. Og hver verður næstur? Hann verður auðvitað að leggja niður kerfi Páls og taka upp sitt. Halda menn virkilega að þetta sé farsælt? Halda menn að þetta sé gæfulegt í málaflokki af þessu tagi? Þetta er ekki gott. Ég verð nú að segja, þótt mér sé hlýtt til hv. þm. Péturs Blöndals, að ég vona að það verði ekki hann. Því þá leggur hann þetta niður bara ,,überhaupt``, þá leggur hann allt niður segir bara: Markaðurinn sér um þetta. Það er það sem Sjálfsfl. ætlar sér, og hæstv. félmrh. Páll Pétursson er að láta hafa sig út í þau skítverk að undirbúa jarðveginn. Það verður bara eitt handtak fyrir íhaldið að leggja húsnæðiskerfið niður eða einkavæða það 100% ef þessar breytingar ná fram að ganga. (Gripið fram í: Öllum til góða.) Það er þannig. (Gripið fram í: Pétur tekur við af Páli.)

Síðan væri fróðlegt, herra forseti, að fara aðeins yfir það hverju félagslegar aðgerðir í húsnæðismálum á Íslandi hafa skilað. Það er dálítið merkilegt að það er búið að rægja það kerfi svo mikið, og því miður hefur hæstv. núverandi félmrh. stundum gengið í þann hóp, m.a. með því að dreifa villandi og beinlínis röngum upplýsingum um mismunandi kostnað við íbúðir innan félagslega kerfisins og almenna kerfisins --- það var til skammar hvernig hæstv. félmrh. gekk fram í þeim efnum --- það er búið að rægja þetta kerfi svo mikið að það er því miður sjálfsagt þannig að stór hluti þjóðarinnar er búinn að gleyma því að þetta kerfi gjörbreytti húsnæðismálum Íslendinga frá og með styrjaldarlokum. Muna menn ekki í hvernig húsnæði Íslendingar bjuggu fram á miðja þessa öld? Ætli svona 60--70% af því húsnæði sem þjóðin var í um miðja öldina mundi ekki dæmast heilsuspillandi í dag? Ég er alveg viss um það. Hvað var það sem breytti mestu um þetta mál? Jú, það var auðvitað fyrir utan byggingar einstaklinga, gífurlegt átak í uppbyggingu félagslegs húsnæðis, ekki síst í Reykjavík, sem útrýmdi kotunum, bröggunum og torfhúsunum. Það var einmitt það fólk sem bjó í versta húsnæðinu sem fékk mannsæmandi húsnæði út á þetta kerfi. Menn geta haldið endalausar ræður mín vegna um að kerfið sé gallað og það hafi verið erfitt fyrir sveitarfélögin og þau séu sum í vanda út af því. Það er smámál hjá hinu í mínum huga hversu gífurleg breyting hefur orðið á húsnæðismálum þjóðarinnar einmitt í gegnum þetta kerfi, sem ég sé ekki að hefði orðið annars, a.m.k. ekki hvað tekjulægsta fólkið í landinu snertir.

Ég er sannfærður um að ef við ætlum með sama hætti á komandi árum og áratugum að leysa á félagslegum grunni vanda þess fólks sem erfiðastar hefur aðstæðurnar, þá þurfum við sérkerfi til þess. Markaðskerfið dugar ekki. Það mun ekki gera það. Ég er líka sannfærður um að það verður aldrei neitt vit í fjármögnun langtímafjárfestingar hjá venjulegu launafólki í neinu landi, eins og húsnæðisöflunin er eðli sínu samkvæmt yfirleitt stærsta fjárfestingin sem viðkomandi fjölskyldur ráðast í á öllum sínum ferli, nema til staðar sé trygg grunnfjármögnun á föstum, viðráðanlegum kjörum og til langs tíma. Það er þannig. Hvort sem við búum í verðbólgusamfélagi eða við stöðugleika, hvort sem við erum í Danmörku, eða Þýskalandi eða Íslandi, þá verður að tryggja þessa grunnfjármögnun. Hún er alls staðar til staðar og það grátlega er að hún hefur verið að byggjast upp á Íslandi. Þetta skiptir ekki bara máli þegar verið er að byggja nýtt húsnæði, því það er ekki nema hluti af húsnæði í landinu sem er að skipta um hendur. Þetta skiptir líka miklu máli þegar notað húsnæði skiptir um hendur. Það er þannig víða í nágrannalöndunum að grunnfjármögnunin á húsnæðinu er á bilinu 60% til 80% og allur þorri fólks sem að nafninu til ,,býr í eigin húsnæði`` á aldrei nema um 40% af því vegna þess að það er áhvílandi grunnfjármögnun sem er til staðar og dekkar þá stóran hluta af fjárþörfinni þegar slíkt húsnæði skiptir um eigendur. Það er í slíkt ástand sem við Íslendingar þurfum að komast. Við bjuggum við þær afbrigðilegu aðstæður hér að verðbólgan hafði afskrifað allt íbúðarhúsnæði í landinu. Það var nánast allt saman skuldlaust í lok verðbólgutímans áður en verðtryggingin fór að mæla að einhverju ráði. Þetta voru alveg ótrúlegar aðstæður í einu landi, fullkomlega afbrigðilegar, og það voru þær sem sköpuðu vandann. Það er ekkert skrýtið að Íslendingar hafi átt í erfiðleikum í húsnæðismálum á áratugunum eftir að þetta ástand varð til vegna þess að það vantaði alla grunnfjármögnun á allt íbúðarhúsnæði í landinu. Ætli það sé ekki veðrými upp á 600 til 1.000 milljarða kr. í öllu íbúðarhúsnæði í landinu ef það væri allt saman óskuldsett? Það tæki við miklu, hv. þm. Við skulum bara reikna það betur út. Það eru a.m.k. fleiri hundruð milljarðar, það er alveg ljóst. Við þær afbrigðilegu aðstæður sem voru hér á verðbólgutímanum og áður en verðtryggð húsnæðislán voru farin að safnast upp að nokkru ráði á notuðu húsnæði þá voru hér algerlega afbrigðilegar aðstæður. Þetta hefur verið að breytast. Grunnlánin frá Byggingarsjóði ríkisins voru smátt og smátt að breyta þessu mjög mikið.

Ég var á móti því að loka Byggingarsjóði ríkisins. Ég taldi að hann ætti að vera til áfram og þó að hann hefði hætt að starfa gagnvart notuðu húsnæði gat hann áfram veitt grunnlán við kaup á nýbyggingum. Þar greindi mig á við ýmsa sem komu að breytingunum þegar verið var að taka upp húsbréfakerfið á sínum tíma. Ég er enn sannfærður um að það hefði verið betra fyrirkomulag. Húsbréfakerfið sem markaðsbréfakerfi er ágætt til að dekka viðbótarfjárþörfina á notaða húsnæðismarkaðnum og það er eðlilegt að markaðskerfið geri það. Og það má mín vegna alveg eins vera í bönkum í einhverri húsbréfadeild í opinberum sjóði. En grunnfjármögnunin, bæði á almenna húsnæðinu og að sjálfsögðu í félagslega kerfinu á að vera úr opinberum sjóði undir almennri stjórn og þannig að hægt sé að festa lánskjörin tryggilega og sjá um að það dæmi gangi upp gagnvart laununum eins og þau eru í landinu og greiðslugetu almennings á hverjum tíma. Allt annað er tóm vitleysa, vegna þess að ef menn láta hlutina ekki ganga upp gagnvart almennu ástandi í húsnæðismálum þjóðarinnar, hvað gerist þá? Hvað halda menn að gerist? Auðvitað verða menn þá að fara í björgunaraðgerðir. Það er bara þannig og þess vegna er það eins vitlaust og nokkuð getur verið að standa í einhverri ævintýramennsku í þessum efnum.

Við skulum taka eitt dæmi, herra forseti, um það hverjar afleiðingarnar geta orðið af því að fara út í 100% markaðskerfi eins og hér er verið að leggja til og keyra það í nokkur ár. Umfang húsbréfanna sem fara út á markaðinn með fasteignaveðbréf á bak við sig verður gífurlegt. Við skulum segja að erfiðleikaár komi í efnahagslífi þjóðarinnar og pappírar af þessu tagi þyki ekki eins góðir og þeir voru, afföllin haldi innreið sína á nýjan leik og ýmsir erfiðleikar verði af því tagi. (Gripið fram í.) Það gæti farið svo. Því miður erum við ekki eilífir áskrifendur að góðærinu. Það væri mikill barnaskapur að halda það. Þá væri nú létt að umbera hv. þm. Pétur Blöndal ef það væri sjálfkrafa trygging fyrir því að hér yrði endalaust góðæri á meðan hann sæti á þingi, en því miður ... (Gripið fram í: Nei, það væri erfitt.) Við myndum leggja það á okkur samt, en því miður óttast ég að það sé ekki svo. Jafnvel þótt við létum okkur hafa það að sitja uppi með hv. þm. og Sjálfstfl. við völd, þá mun það ekki reynast trygging fyrir eilífu góðæri og hamingju. Þvert á móti hefur að ýmsu leyti hið gagnstæða orðið raunin. Hins vegar er rétt að það hefur verið ytra góðæri nú um skeið og á því hefur auðvitað púkinn á fjósbitanum fitnað eins og kunnugt er og Sjálfstfl. notið allt of mikilla vinsælda, langt umfram efni.

En menn verða að átta sig á út á hvaða braut þeir eru að fara. Ég segi alveg eins og er að ég hugsa til þess með hryllingi hvernig ástandið getur orðið eftir 10 eða 15 ár ef svo til öll fjármögnunin á húsnæðislánum í landinu væri orðin hrein markaðsbréf, hreinir markaðspappírar, og geta þurft að sæta þeim sveiflum og sviptivindum sem þar eru uppi. Það er allt annar hlutur að einhver viðbótarfjármögnun, t.d. í viðskiptum með notað húsnæði, lúti slíkum lögmálum. Og það er allt annað að bera afföll af einhverju viðbótarfjármagni sem svo er ástatt um.

[14:00]

En hver verður staða aðila sem verður með 90% fjármögnun á pappírum af þessu tagi, vegna þess að hann fær viðbótarlán og ef t.d. ástandið væri eins og það var hérna fyrir, ja segjum einum fimm til sex árum síðan þegar afföllin fóru upp í 25%?

Margt fleira, herra forseti, sem lýtur að efni þessa frv. er mikið umhugsunarefni. Það er líka ýmislegt umhugsunarvert sem fullyrt er í geinargerð með frv. og eðlilegt að fara aðeins yfir það því þar kemur ýmiss konar rökstuðningur fram.

Ég var búinn að nefna þetta með húsnæðisnefndirnar, herra forseti, sem komið er inn á í IV. kafla, það er náttúrlega mjög sérkennilegt að það skuli eiga af hálfu löggjafans að þrengja þetta með því að þarna skuli skipaðir þrír til fimm menn. Það gefur náttúrlega auga leið að það að opna færi á því að skipa t.d. aðeins þrjá menn í húsnæðisnefnd --- við skulum hugsa okkur að þetta sé í einhverju miðlungssveitarfélagi þar sem er meiri hluti og minni hluti í bæjarstjórn eins og gengur, hvernig er þá líklegast að það ástand verði? Nú, meiri hlutinn mun að sjálfsögðu setja inn tvo menn. Segjum að það séu nú tveir flokkar sem standi þar saman að meiri hluta og þeir munu vilja fá sinn manninn hvor. Og kannski mun mönnum þá þykja lýðræðislegt að minni hlutinn fái hinn. Og þá er búið að loka nefndinni, þá er ekki meira pláss eftir. Þá verður sjálfkrafa ekki um neina aðild verkalýðshreyfingar eða einhverra annarra félagsmálasamtaka í þeim bæ að ræða.

Það er auðvitað mjög sérkennilegt að menn skuli ekki vilja samstarf aðila eins og verkalýðshreyfingarinnar um þessi mál. Ég skil það ekki. Ég hélt það væri mikill styrkur í því fyrir sveitarstjórnirnar, fyrir ríkið og fyrir málaflokkinn í heild að hafa aðila eins og verkalýðshreyfinguna í landinu með sér í þessum mikla málaflokki, en ekki annaðhvort óvirka eða jafnvel á móti sér. Mér er bara lífsins ómögulegt að skilja hver tilgangurinn með þessu er.

Á bls. 27 er kostuleg setning, herra forseti, sem ég marg\-las. Þar stendur eftirfarandi undir tölulið 3.5., sem ber yfirskriftina Samanburður á eignarmyndun, með leyfi forseta:

,,Nægjanlegt íbúðarhúsnæði er til í landinu og í mörgum sveitarfélögum er framboð meira en eftirspurn.`` Er þetta spekin frá aðstoðarmönnunum, eða hvað? Þeir hafa fundið út að það sé nægjanlegt íbúðarhúsnæði til í landinu, það er nú gott að þeir skuli ekki segja um aldur og ævi, og síðan er vísað í það að í mörgum sveitarfélögum sé offramboð. Þannig að ef maður á að lesa eitthvað út úr þessu þá er það á þá hliðina. Síðan er að vísu reynt að læða því hér inn með þessu frv. að það eigi að efla leigumarkaðinn og byggja leiguíbúðir. En það er ekki í samræmi við þessa setningu. Og ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Er hæstv. félmrh. sömu skoðunar? Að það sé nægjanlegt íbúðarhúsnæði til í landinu, það þurfi ekki að byggja? Ef þetta er mannamál þá þýðir þetta að það þurfi ekki að byggja. Og hve lengi þarf þá ekki að byggja? Á bara að þjappa þjóðinni saman þegar henni fjölgar inn í það húsnæði sem fyrir er í landinu? Hvað þýðir þessi speki? Og hvernig er samhengi hennar við fyrirheitin um að það eigi að efla þarna leiguíbúðirnar?

Gulræturnar í þessu frv., herra forseti, sem hæstv. félmrh. hefur mikið reynt að nota til að selja mönnum og kynna það í fjölmiðlum og reyna að fá jákvæðan svip á þetta afkvæmi sitt, þær virðast mér aðallega vera tvær. Sú fyrri, að með þessu geti menn í staðinn fyrir það félagslega húsnæðiskerfi sem menn urðu að fara inn í ef þeir áttu rétt til þess og áttu kost á því að fá þar inni og taka þær íbúðir sem þar voru í boði, þá geti menn nú valið íbúðir. Nú geti menn farið með sín húsbréf út á markaðinn og sín viðbótarlán, grunnlán, almenn lán og viðbótarlán, og keypt bara eitthvert húsnæði. Það er út af fyrir sig rétt. Þetta mun opna fyrir það. Og hin gulrótin er að það yrði gert átak til að efla leigumarkaðinn.

Varðandi það fyrra þá er það að vísu svo þegar betur er að gáð og betur er lesið að þá eru þessu ýmis skilyrði sett. Í raun og veru geta sveitarstjórnirnar haft það í hendi sér að hve miklu leyti þetta er frjálst. Það er alveg ljóst. Þeim er í raun selt það vald. Og reyndar er þeim selt það vald í hendur hvort um einhver viðbótarlán verði að ræða yfirleitt. Svo eru menn að tala um að þeir hafi lagfært húsaleigubótakerfið og það sé núna ekki lengur háð geðþótta einstakra sveitarstjórna hvort menn eigi rétt á húsaleigubótum. En af hverju er þetta þá haft svona hér? Í raun og veru er það þannig að það er selt í hendur sveitarstjórnanna hvort og þá hvernig réttur manna gagnvart þessu viðbótarlánakerfi verður. Það er þannig. Þá er þetta ekki lengur eins glæsilegt og ekki eins frjálst. Og hitt er svo alveg ljóst að það var ekkert því til fyrirstöðu að gera þessa breytingu með breytingum á núverandi félagslegri löggjöf og án þess að leggja niður Byggingarsjóð verkamanna. Og um það voru uppi tillögur, m.a. af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Því verkalýðshreyfingin hefur verið tilbúin til þess að breyta kerfinu yfir í félagsleg lán sem menn gætu notað til kaupa á húsnæði, þess vegna á notuðum markaði samkvæmt einhverjum reglum og væru ekki bundnir af því að vera eingöngu í húsnæði sem kerfið sjálft legði til. Og ef menn ekki trúa þessu, þá geta þeir kynnt sér samþykktir 38. þings Alþýðusambands Íslands um húsnæðismál og menn geta kynnt sér ályktanir síðasta BSRB-þings um húsnæðismál sem ég er hér með hvort tveggja.

Það er alveg ljóst að að þessu leytinu til hefði verið auðvelt að ná samstöðu um breytingar sem hefðu uppfyllt þetta annað meginmarkmið. Og þá er ekki orðið mikið eftir af þessari gulrót, þessari megingulrót hæstv. félmrh. um frelsið til að velja sér íbúðir. Auk þess sem menn verða að átta sig á því að það er ekki endilega eilíf hamingja, það er ekki endilega bara hamingja fólgin í því. Er t.d. ekki viss hætta á því að þetta leiði til þess smátt og smátt að tekjulægsta fólkið fylli allt lélegasta húsnæðið í landinu og sitji uppi með mun lakara húsnæði heldur en það hefur almennt gert þrátt fyrir allt, í félagslega kerfinu? Því hvað sem hver segir um það þá hefur þó einn kostur þess verið sá að menn hafa ekki sett standardinn niður. Menn hafa síðan hrópað á torgum um að það sé allt of dýrt. En menn gleyma því þá gjarnan að þetta er gott húsnæði, nýtt húsnæði, og vel útbúið. Og er það ekki nokkurs virði eða hvað? Skiptir það engu máli? Er mönnum alveg sama þó að það þróist þannig kannski á tíu, tuttugu árum að tekjulægsta fólkið skríði ofan í kjallaraholur, bara af því að það er frjálst að því að leita sér að lélegasta húsnæðinu í landinu og búa þar? Ég er ekki viss um að þetta sé að öllu leyti eins glæst framtíð og menn vilja vera láta. Það er ekki verið að búa til kerfi þar sem lágtekjufólkið getur allt flutt inn í marmarahallir, það er ekki svo. Og hvernig verður aðstaða þess ef vaxtabæturnar verða svo stórskertar á komandi árum?

Hvað varðar leiguíbúðirnar þá er það meira og minna skrifað í skýin. Það er meira og minna skrifað í skýin. Það er engin trygging fyrir því að þetta þýði eitthvert stórátak í byggingu leiguíbúða. Það eru því bara blekkingar að halda því fram.

Þannig er þetta nú, herra forseti, að þegar upp er staðið þá er heldur lítið orðið eftir í þessu hjá hæstv. félmrh. Ég tel að þetta frv. sé meingallað og stórhættulegt að mörgu leyti og það sé aldeilis fráleitt að láta sér detta í hug að afgreiða það á þessu vori.