Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 14:17:50 (4439)

1998-03-06 14:17:50# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[14:17]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Með frv. því sem er til umfjöllunar í sölum Alþingis í dag eru lagðar til verulegar breytingar á húsnæðislánakerfinu í landinu en sérstaklega á það við um félagslega hluta lánakerfisins eins og við þekkjum það í dag. Skipulag kerfisins breytist þannig að Húsnæðisstofnun ríkisins verður lögð niður frá því í janúar 1999 en við tekur Íbúðalánasjóður sem er ný stofnun og tekur við skuldbindingum bæði Byggingarsjóðs verkamanna og Byggingarsjóðs ríkisins. Stefnt er að því að Íbúðalánasjóður verði fjárhagslega sjálfstæður og standi undir lánveitingum og rekstri með eigin tekjum. Í þessu felst dramatískasta breytingin, þ.e. að Íbúðalánasjóður verður sterkur sjóður sem kemur til með að standa til framtíðar. Þetta er gífurlega mikilvægur punktur, að Íbúðalánasjóðurinn kemur til með að standa undir sér til framtíðar og byggja upp fjárhaginn. Það er einnig mjög mikilvægur punktur að með þessu er verið að einfalda og samræma þá húsnæðislöggjöf sem við búum við þannig að þeir sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda til þess að afla sér húsnæðis geta það með aðstoð skattkerfisins, þ.e. vaxtabótanna en ekki í formi niðurgreiddra vaxta.

Hæstv. forseti. Segja má að þróun félagslega íbúðakerfisins hafi verið þannig nú að undanförnu að algerlega nauðsynlegt reyndist að grípa í taumana og gera allróttækar breytingar. Það er sama hvort litið er á málið frá sjónarhorni neytandans eða lántakandans í kerfinu, sveitarfélaganna eða Byggingarsjóðs verkamanna. Ef við lítum á málið frá sjónarhorni lántakandans þá er núverandi kerfi tiltölulega flókið og býður upp á lítinn sveigjanleika og það hefur ekki tekið mið af þeim breytingum sem hafa orðið í íslensku samfélagi undanfarin ár. Þótt félagslega íbúðalánakerfið hafi haft verulega þýðingu við að sjá fólki á hagkvæman hátt fyrir húsnæði þá hafa vandamálin hin síðari ár verið að koma betur og betur í ljós. Að sumu leyti eru þau staðbundin þar sem markaðsverð fasteigna hefur fallið meðan verðlagning félagslegra íbúða lýtur öðrum lögmálum. Það eru einmitt þessi önnur lögmál sem eru slík að kerfið lýtur eigin lögmálum, en það eru ekki lögmál markaðarins. Við nánari skoðun má hins vegar ljóst vera að vandamál við fyrirkomulag félagslegra eignaríbúða eru einnig til staðar á höfuðborgarsvæðinu en ekki einungis úti á landi eins og oft hefur verið gefið í skyn, m.a. í umræðunni í dag. Þau eru einnig til annars staðar þar sem markaðsverð húsnæðis er nálægt byggingarkostnaði.

Endursala íbúða hefur stórlega aukist í kjölfar verulegrar fjölgunar félagslegra íbúða og eigendaskipti í íbúðalánakerfinu eru því mun tíðari en áður. Verðlagning íbúða í félagslega íbúðalánakerfinu er mjög sérstök sem leiðir til þess að sambærilegar íbúðir í sama hverfi geta verið verðlagðar mjög mismunandi og þar af leiðandi er mjög mismunandi greiðslubyrði af þessum íbúðum. Fólk á oft erfitt með að skilja slíkan mismun sem t.d. getur verið upprunninn í því hver var byggingarverktaki á íbúðunum.

Við getum litið á ákvæði II til bráðabirgða en þar er getið um það hvernig útreikningur á innlausnarverði félagslegra íbúða er. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Um útreikning á innlausnarverði félagslegra íbúða, sem sveitarfélög leysa til sín skv. 1. mgr., skal beita fyrirmælum 1. og 4. mgr. 87. gr. laga nr. 97/1993. Hafi íbúð verið byggð eftir gildistöku laga nr. 51/1980 skal enn fremur gæta ákvæða 1. og 2. mgr. 88. gr. laga nr. 97/1993, en annars 1.--3. og 8. mgr. 89. gr. laga nr. 97/1993, hafi íbúðin verið byggð fyrir gildistöku fyrrnefndra laga. Um íbúðir á vegum Byggingarfélags verkamanna fer eftir ákvæðum 90. gr. laga nr. 97/1993. Stjórn varasjóðs skv. 45. gr. laga þessara skal fjalla um heimildir húsnæðisnefnda skv. 4. mgr. 87. gr. laga nr. 97/1993.``

Við getum velt því fyrir okkur eftir slíka upptalningu hvort það hljóti ekki að vera dálítið flókið fyrir almenning að lesa sig í gegnum hvaða reglur eigi að nota við innlausn á ákveðnum íbúðum. Það hlýtur að segja sig sjálft að þetta er orðið dálítið flókið og dálítið undarlegt. En þetta mun gilda áfram við innlausn á þeim íbúðum sem eiga eftir að koma til innlausnar og verða áfram í kerfinu.

Mjög mikið hefur dregið úr eftirspurn eftir félagslegum eignaríbúðum og þær hafa staðið auðar í mörgum sveitarfélögum og er hægt að nefna tölur í því sambandi. Nauðungarsala félagslegra íbúða hefur aukist á síðari árum. Þá þykir félagslega eignaríbúðakerfið flókið og óskilvirkt og lítt sveigjanlegt. Viðbótarlán til kaupa á eignaríbúðum, sem fela í sér allt að 100% lán, hafa í mjög mörgum tilfellum leitt einstaklinga í fjárhagserfiðleika, sem þeir eiga erfitt með að komast út úr. Eru mörg dæmi þess að kaupendur íbúða hafi ekki ráðið við svo mikla skuldsetningu, misst eignina á uppboð og staðið eftir í skuld við húsnæðislánakerfið og þar af leiðandi ekki átt aðgang að neinni fyrirgreiðslu til öflunar húsnæðis annarri en frá viðkomandi sveitarfélagi í formi leiguíbúða. Þessi hópur hefur þannig orðið mun verr settur en áður. Í frumvarpinu er því að fenginni reynslu gert ráð fyrir að 10% eigin framlag íbúðarkaupanda sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir aðgangi að svokölluðu viðbótarláni, þ.e. til kaupa á eignaríbúð. Eðlilegra er að ætla að fólk sem ekki á neinn sparnað til þess að leggja til við íbúðarkaup fari á leigumarkað.

Greiðslufyrirkomulagi í húsnæðislánakerfinu er þannig háttað að eignamyndun í félagslega kerfinu hefur verið neikvæð fyrstu árin. Reiknireglur um verðlagningu félagslegra íbúða eru þannig að grunnverð þeirra er tiltölulega hátt í flestum tilvikum. Allt leggst þetta því á eitt með að það getur verið bjarnargreiði við tekjulágt fólk að veita því lán í félagslega íbúðakerfinu. Kostir þess eru hins vegar þeir fyrir fólk sem notið hefur fyrirgreiðslu í þessu kerfi að sveitarfélögum er skylt að innleysa félagslegar eignaríbúðir nánast hvenær sem er á fyrstu 15 árum frá afhendingu.

Ef við lítum á upphaflegan tilgang félagslega íbúðalánakerfisins þá er hann auðvitað sá að reyna að aðstoða tekjulágt fólk til þess að eignast þak yfir höfuðið. En kerfið virðist vera farið að snúast upp í andhverfu sína. Í greinargerð með frv. á bls. 36 er vitnað í skoðun Alþýðusambands Íslands frá því í nóvember 1996 og álit Alþýðusambandsins er að helsti vandi í húsnæðismálum sé vandi þess fólks sem ekki takist að halda sér í félagslegum eignaríbúðum eða komist ekki í þær. Ástæða þess eru lágar tekjur og fjárskortur og þó að fólk fengi lánað fyrir 10% hlutanum og þar með öllu kaupverðinu, réði það ekki við afborganirnar. Með leyfi forseta stendur í greinargerðinni og er þar vitnað til skoðana Alþýðusambandsins:

,,Þær breytingar hafi á hinn bóginn orðið á undanförnum árum að almennur húsnæðisskortur væri ekki lengur vandamál. Framboð á lánsfé hefði aukist verulega, verðmunur á eldri íbúðum og nýbyggingum væri víða mikill og vaxtabætur væru komnar ásamt húsaleigubótum. Með þessu væru forsendur félagslega íbúðakerfisins orðnar allt aðrar en áður. Lagði sambandsstjórnin til þær breytingar á félagslegum íbúðalánum að veitt yrðu sérstök lán til þeirra sem uppfylltu skilyrði Byggingarsjóðs verkamanna um lán úr sjóðnum til þess að kaupa sér íbúð að eigin vali.``

Alþýðusambandið hefur sem sagt komist að því að það umhverfi sem við búum við sé orðið mjög breytt og þó svo að félagslega íbúðalánakerfið hafi verið mjög gott á sinni tíð og gert mikið til þess að koma fólki út úr moldarkofunum eins og hér hefur margoft verið nefnt í þessari umræðu þá er umhverfið bara annað í dag. Við höfum fengið þessa skoðun Alþýðusambandsins og í hana hefur verið vitnað fyrr þannig að við þurfum ekki að velkjast í vafa um hvar þeir standa í þessu máli.

Sú þróun sem orðið hefur í kerfinu hefur sýnt sig á ýmsan hátt og í greinargerðinni á bls. 53 er tafla sem sýnir þróun á fjölda kröfulýsinga í Byggingarsjóði verkamanna, þ.e. að þær aukast jafnt og þétt og frá því að vera 55 árið 1992 upp í að vera 181 á árinu 1996. Bara á milli áranna 1995 og 1996 fjölgaði kröfulýsingum um 27% hjá Byggingarsjóði verkamanna en á sama tíma um 10% í húsbréfakerfinu. Afleiðingin er m.a. sú að ásókn í íbúðir í félagslega íbúðakerfinu hefur minnkað mjög mikið og vandinn er sá að margar íbúðir standa auðar.

[14:30]

Ef við lítum á vandamálið frá sjónarhorni sveitarfélaganna þá er það m.a. slæmt að þurfa að innleysa íbúðir hvenær sem þess er óskað. Mikill kostnaður er af íbúðum sem ekki seljast og sveitarfélögin sitja uppi með. Ljóst er að sveitarfélögin leigja þær íbúðir sem ekki seljast ef það er mögulega hægt. Á bls. 55 í grg. með frv. er tafla sem sýnir að mjög margar íbúðir standa auðar þrátt fyrir að mögulegt sé að leigja þær. Meira að segja í Reykjavík og á Reykjanesi standa íbúðir auðar lengur en í tvo mánuði og lengur en í sex mánuði.

Komi til þess að íbúð lendi í nauðungarsölu er viðkomandi sveitarfélagi skylt að leysa hana til sín. Kaupverðið er þá matsverð hennar eftir ákveðnum útreikningsreglum sem fyrr eru nefndar og eru býsna flóknar. Kaupverð húsnæðisnefndar er alveg óháð því hver vanskil fyrri eigenda voru eða hvort Húsnæðisstofnun hafi fengið allar kröfur sínar greiddar á uppboðinu.

Á uppboði verður viðkomandi sveitarfélag eigandi íbúðar, ber af henni skatta og skyldur, og hirðir af henni arð ef einhver verður. Frágangur fyrir endursölu þessara íbúða tekur oft nokkuð langan tíma. Oftar en ekki er ástæðan sú að illa gengur að fá uppboðsaðila til þess að rýma íbúðina. Kostnaður sveitarfélags af íbúðum getur undir slíkum kringumstæðum orðið verulegur vegna fasteignagjalda, trygginga, hússjóðs, viðhalds og þess háttar.

Ef við lítum á núverandi kerfi út frá stöðu Byggingarsjóðs verkamanna má sjá að mjög hratt gengur á eigið fé sjóðsins. Því er nauðsynlegt að grípa til aðgerða svo sjóðurinn komist ekki í þrot. Það er m.a. ljóst að framlög ríkisins hafa dregist mjög saman undanfarin ár umfram samdrátt í útlánum og aðgerðir til þess að draga úr fjárþörf hafa ekki allar gengið eftir. Á sl. árum hefur niðurgreiðsla Byggingarsjóðs verkamanna á vöxtum aukist jafnt og þétt meðan framlög til sjóðsins hafa minnkað. Samkvæmt úttekt sem húsnæðismálastjórn hefur gert á væntanlegri þróun sjóðsins, miðað við óbreyttan rekstur, má reikna með að eigið fé sjóðsins verði upp urið á árinu 2004.

Hæstv. forseti. Að öllu samanlögðu er augljóst að grípa þurfti til róttækra aðgerða. Þær tillögur sem kynntar eru í þessu frv. eru svo sannarlega róttækar. Með þeim verða algjör umskipti í þeirri félagslegu aðstoð sem almenningi er veitt vegna öflunar íbúðarhúsnæðis. Horfið verður frá þeirri niðurgreiðslu vaxta sem við höfum þekkt og þeirri yfirbyggingu sem þurft hefur til að halda utan um kerfið. Í stað þess verður tekin upp félagslega aðstoð í gegnum skattkerfið í formi vaxtabóta.

Tillögur frv. miða að því að einfalda og samræma lánveitingar til húsnæðismála. Ég tók eftir því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir tók það fram oftar en einu sinni í ræðu sinni að einfalda þyrfti kerfið. Það er gert með þessu frv. Sjálfstæður sjóður verður stofnaður, Íbúðalánasjóður, sem sameinar Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Tillögurnar ganga út á að loka félagslega eignaríbúðakerfinu í núverandi mynd en að félagsleg jöfnun og félagsleg aðstoð við öflun eigin húsnæðis sé veitt með sérstökum viðbótarlánum og aðstoð við einstaklinga í gegnum vaxtabótakerfið. Rétt er að leggja áherslu á að þeir sem nú eru inni í kerfinu hafa val um það hvort þeir verða áfram í félagslega kerfinu ef þeim líkar það vel.

Þátttöku sveitarfélaga og ábyrgð á húsnæðiskerfinu og húsnæðisnefndum er verulega breytt. Til þess að það verði að veruleika er stofnaður varasjóður sem er í eigu og á ábyrgð sveitarfélaga. Varasjóðurinn hefur því hlutverki að gegna að bæta Íbúðalánasjóði það tjón sem kann að verða vegna tapaðra viðbótarlána. Sveitarfélögin hafa áhrif á það hversu mikið verður veitt af svokölluðum viðbótarlánum og því eðlilegt að þau beri slíka ábyrgð.

Vert að leggja áherslu á að skv. 43. gr. frv. verður stofnuð sérstök kærunefnd húsnæðismála. Rétt er að vekja athygli á því sem segir um hana í greinargerðinni en þar segir, með leyfi forseta:

,,Kærunefnd húsnæðismála er stjórnsýslunefnd sem hefur það hlutverk að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana stjórnar Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, og lýtur ekki valdboði félagsmálaráðherra í einstökum málum. Með þessu fyrirkomulagi er það hlutverk félagsmálaráðuneytisins að vera endanlegur úrskurðaraðili í einstökum málum fengið sjálfstæðri nefnd. Markmiðið með þessu er að stuðla að auknu réttaröryggi og því hagræði að ráðuneytið geti einbeitt sér betur að stefnumótun í húsnæðismálum og enn fremur að Íbúðalánasjóður geti betur skilað hlutverki sínu sem lánastofnun og verið ráðgefandi aðili fyrir almenning og húsnæðisnefndir.``

Ég held að rétt sé að hafa þetta í huga við þær kerfisbreytingar hér um ræðir.

Breytingarnar miða þá fyrst og fremst að því að veitt er félagsleg aðstoð til einstaklinga í formi þess að þeir geta tekið 65--70% lán og síðan viðbótarlán 20--25% en samtals verða lánin aldrei meiri en 90%. 65--70% lánin verða húsbréfalán en 20--25% lánin verða peningalán. Félagsleg aðstoð verður framkvæmd í vaxtabótakerfinu og vaxtabætur verða greiddar út á kaupári.

Síðast en ekki síst geta einstaklingar valið úr öllum íbúðum á markaði. Þeir eru ekki bundnir við þær íbúðir sem byggðar hafa verið eða keyptar inn í félagslega kerfið. Þátttöku sveitarfélaganna verður þannig háttað að kaupskyldan verður algjörlega afnumin og sveitarfélögum heimilt að selja félagslegar íbúðir á almennum markaði án annarra kvaða en að greiða upp félagsleg lán sem á þeim hvíla. Sveitarfélögin geta breytt félagslegum íbúðum sem koma til innlausnar í leiguíbúðir. Sveitarfélögin greiða síðan 5% í varasjóð sem á að bæta það tjón sem Íbúðalánasjóður verður fyrir vegna tapaðra viðbótarlána.

Íbúðalánasjóður á að annast stjórn og framkvæmd húsnæðismála. Sjóðurinn á einnig að vera ráðgefandi fyrir félmrh. og hann verður sjálfstæð stofnun. Sveitarstjórnir bera hins vegar ábyrgð og hafa frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þeirra í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við að koma sér þaki yfir höfuðið. Sveitarstjórnir skipa húsnæðisnefndir sveitarfélaga sem fara með stjórn og samræmingu húsnæðismála á vegum sveitarfélagsins. Meðal verkefna húsnæðisnefnda er að leggja mat á þörf einstaklinga sem búa við erfiðar aðstæður, þörf þeirra á viðbótarláni og hvort þeir uppfylla skilyrði í því efni.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessar breytingar hafa mjög jákvæð áhrif fyrir landsbyggðarfólk. Með þessari breytingu kemst það húsnæði sem nú er í félagslega íbúðakerfinu á það markaðsverð sem gildir í sveitarfélögunum. Fyrir tekjulágt fólk verður því auðveldara að eignast það húsnæði. Við vitum að úti á landi er verð á félagslegum íbúðum nokkuð hærra en hér á Reykjavíkursvæðinu en hins vegar er markaðsverð á íbúðarhúsnæði þar mun lægra. Með þessari kerfisbreytingu er fólki gert kleift að kaupa sér húsnæði á almennum markaði sem oft á tíðum er betra húsnæði en ódýrara vegna þess hve markaðsverðið er lágt. Auðvitað hefur þetta mjög góð áhrif fyrir tekjulágt fólk til að komast yfir húsnæði.

Ég legg áherslu á að með þessu kerfi er verið að einfalda allan stuðning við almenning. Ég hefði getað hugsað mér að sjá ákvæði um húsnæðissparnaðarreikninga í frv. Það gæti aukið möguleika fólks á að styrkja eignastöðu sína áður en það kaupir sér húsnæði. Ég held að það atriði verði að skoða þegar þróun þessa kerfis verður komin nokkuð á veg.

Ég bendi jafnframt á það að vaxtabætur eru ákvarðaðar á Alþingi en samkvæmt lögunum um Húsnæðisstofnun eru vextir í félagsíbúðakerfinu ákveðnir af félmrh. Allt ákvörðunarvald í þessu kerfi er því flutt inn á Alþingi ákveðnar en áður hefur verið.

Ég minni á ákvæði 56. gr. þar sem rætt er um undirbúningsnefndina sem á að vinna að þessum breytingum: ,,Nefndin skal hafa heimild til þess að gera hvers kyns löggerninga, sem eru nauðsynlegir vegna fyrirhugaðrar starfrækslu Íbúðalánasjóðs.`` Um það segir í greinargerðinni: ,,Meðal þeirra verkefna, sem nefndin mun óhjákvæmilega koma til með að sinna, er að undirbúa skipulagningu Íbúðalánasjóðs og meta hvernig verkefnum hans verði best sinnt miðað við þann mannafla sem til staðar verður.`` Heimildir nefndarinnar ná m.a. til samninga við einstaka starfsmenn um framhald á störfum þeirra við gildistöku frv. Afar mikilvægt er að niðurstaða liggi fljótt fyrir í þeim efnum, ekki síst fyrir núverandi starfsmenn Húsnæðisstofnunar en einnig fyrir starfsemi stofnunarinnar og væntanlega yfirtöku Íbúðalánasjóðs á henni.

Ég treysti því að undirbúningsnefndin taki fljótt og vel á þessum málum þannig að starfsmenn þurfi ekki að vera óöruggir. Rétt er að geta þess að m.a. er gert ráð fyrir að starfsmenn eigi áheyrnarfulltrúa þegar fjallað er um málefni þeirra.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég segja að ég tel þetta frv. sé stórt skref í átt að því að bæta hag íbúðareigenda og almennings í landinu. Ljóst er að breytingarnar eru ekki verulegar fyrir þann hóp sem verið hefur í hinu almenna húsbréfakerfi en breytingarnar eru gífurlega miklar fyrir þá sem þurfa að leita eftir félagslegri aðstoð til þess að eignast íbúðarhúsnæði. Nú verður ekki um félagslega aðstoð að ræða, í þeim skilningi. Þetta eru leiðir til að koma jöfnunaraðgerðum að í gegnum skattkerfið. Ég tel það af hinu góða að fólk geti valið sér húsnæði á eigin forsendum. Það eykur sjálfstæði einstaklinga til þess að ráða gjörðum sínum og örlögum.