Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 15:31:23 (4450)

1998-03-06 15:31:23# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[15:31]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi fullyrðing mín á fyrst og fremst við um ákveðið hverfi hér í Reykjavík. Ég vitna hér til þess sem fram kom hjá fulltrúum húsnæðisnefndar Reykjavíkur. Eins og þetta hefur verið framkvæmt á undanförnum árum er ljóst að fólki er boðið upp á að forgangsraða. Spurt er að því í hvaða hverfi menn vilji helst flytja og þar hefur mjög greinilega komið í ljós að ákveðið hverfi í Reykjavík er óvinsælast. Ég held að óhætt sé að viðurkenna að þar hafi verið byggðar of margar félagslegar íbúðir á tiltölulega litlum bletti. Þar hafa því miður skapast vandræði þannig að t.d. konur með lítil börn hafa helst ekki viljað fara þangað. Þetta er nú bara staðreyndin, hv. þm. Það gildir hins vegar ekki um önnur hverfi. Auðvitað koma í öllum hverfum upp einhver vandamál eða eitthvað gerist, það geta verið átök á heimilum eða guð veit hvað. Þetta eru bara staðreyndir um ákveðið svæði í ákveðnu hverfi. Forsvarsmenn húsnæðisnefndar Reykjavíkur höfðu af því áhyggjur að ef kerfið yrði opnað gætu þessar íbúðir orðið illseljanlegar. Það væri enginn smábaggi á sveitarfélaginu. Þessar íbúðir mætti hins vegar selja á frjálsum markaði sem mundi smátt og smátt leiða til þess að þarna yrði meiri blöndun og æskilegri en nú er.